Jón Bjarni Steinsson veitingamaður segir að veitingarekstur með borðþjónustu sé í hættu á að hverfa enda sé hann ekki lengur sjálfbær:
„Ég er ansi hræddur um að Mathallar sketsinn úr Áramótaskaupinu sé ekki endilega bara grín – ég hugsa að það sé einfaldlega ekki langt þangað til að það verði almennt reglan að fólk afgreiði sig sjálft þegar það fer út að borða,“ segir Jón Bjarni í pistli á Facebook-síðu sinni.
Pistillinn er skrifaður í tilefni af fréttum af kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA) en deilan er í algjörum hnút eftir að Efling sleit viðræðum. Stefnir í verkfall og samkvæmt skoðanakönnun frá því í haust þá er mikill meirihluti fyrir verkfallsaðgerðum meðal félagsmanna. Sjá hér.
Jón Bjarni gagnrýnir Eflingu harðlega fyrir skilningsleysi á rekstrarumhverfi í veitingageiranum en stór hluti starfsfólks veitingahúsa er í Eflingu: „Það virðist vera einlægur vilji Eflingar að bæði fara í verkfall sem og knésetja heila atvinnugrein,“ segir Jón Bjarni en segir að sökin sé ekki bara Sólveigar Önnu og Eflingar:
„Alltaf þegar reynt er að benda á að það sé ekki endalaust hægt að semja um laun fyrir starfsfólk veitingastaða með því að tala alltaf um grunnlaun dagvinnu með þeim margfeldisáhrifum sem það hefur á fólk sem vinnur almennt ekki mikla dagvinnu, er ekki hlustað, segir Jón Bjarni,“ og síðan neðar:
„Það er auðvelt að kenna verkalýðsfólki eins og Sólveigu um en það er bara ekki þannig – hér bera líka mikla sök Samtök Atvinnulífsins sem hafa farið í hverjar kjaraviðræðurnar á eftir annarri án þess að hafa að því er virðist neinn skilning á vinnufyrirkomulagi veitingastaða. Það er ekki til sá iðnaður sem lifir það af að borga um og yfir 50% veltu í laun og launatengd gjöld.“
Pistilinn í heild má lesa með því að smella á tengilinn hér að neðan: