Guðmundur Gunnarsson, ritstjóri Markaðarins, segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að vandi heilbrigðiskerfisins snúist ekki um þá einstaklinga sem stýra því heldur um grjótharða pólitík og peninga.
Hann bendir á að vandi heilbrigðiskerfisins hafi ekki minnkað við ráðherraskipti og enn bóli ekkert á rekstrarbreytingum sem Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, boðaði, eftir að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra réð hann sem ráðgjafa og skipaði hann síðar sem stjórnarformann Landspítalans. Guðmundur segir í pistli sínum:
„Þeir læðast líklega með veggjum, spekúlantarnir sem fyrir fáeinum misserum töldu lausnina á vanda íslenska heilbrigðiskerfisins helst felast í því að skipta um ráðherra.
Þá sat heilbrigðisráðherra reyndar uppi með hripleka sjúkraskútu í miðjum heimsfaraldri. Án þess að það væri talið henni til einhverra sérstakra tekna síðar meir.
Fyrir síðustu kosningar stigu svo fram alls konar sérfræðingar sem sögðust vita upp á hár hvernig best væri að lappa upp á laskað kerfið. Fyrst þyrfti samt að skipta ráðherranum út.“
Guðmundur segir að nú sé væntanlega að renna upp fyrir mörgum að ráðherraskiptin hafi engu breytt. Bráðamóttaka Landspítalans sé í jafmiklum vanda og áður, biðlistar séu jafnlangir, starfsfólkið jafnbugað og heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sé jafnfjársvelt og áður.
Vandi heilbrigðiskerfisins hafi eiginlega bara versnað en þó sé gagnrýnin á Willum miklu minni en á forvera hans, Svandísi Svavarsdóttur.
Guðmundur segir að ekki sé við þá Willum og Björn að sakast, né aðra sérfræðinga sem starfi við stjórnun heilbrigðiskerfisins. Vandinn snúist ekki um einstaklinga:
„Málið er bara að vandinn við íslenska heilbrigðiskerfið snýst ekkert um einstaklinga. Hann snýst um grjótharða pólitík og peninga.
Spurningin sem við ættum að spyrja okkur fyrir hverjar kosningar er hvort við séum tilbúin að leggja heilbrigðiskerfinu meira til úr sameiginlegum sjóðum en við höfum hingað til gert. Rassinn sem sest í ráðherrastólinn skiptir miklu minna máli.“