fbpx
Þriðjudagur 25.janúar 2022
Eyjan

Sektuð um rúmlega 10 milljónir fyrir að nota ekki andlitsgrímu og hent út af Twitter

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 3. janúar 2022 18:30

Nú er hún útilokuð frá Twitter. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að notkun andlitsgríma og bóluefni gegn kórónuveirunni sé eitthvað sem Repúblikanar og Demókratar í Bandaríkjunum geta ekki verið sammála um, að minnsta kosti ekki alltaf. Repúblikaninn Marjorie Taylor Greene er meðal þeirra Repúblikana sem hafa tekið einarða afstöðu gegn bæði bóluefnum gegn kórónuveirunni og notkun andlitsgríma. Hún hefur margoft verið sektuð fyrir að brjóta gegn reglum Bandaríkjaþings um notkun andlitsgríma og nema sektirnar nú sem nemur rúmlega 10 milljónum íslenskra króna. Í gær lokaði Twitter síðan reikningi hennar.

Greene er umdeild í bandarískum stjórnmálum og hefur margoft verið til umfjöllunar í fréttum þrátt fyrir að hafa ekki setið mjög lengi á þingi. Á fyrsta degi sínum á þingi bar hún andlitsgrímu með áletruninni „Trump sigraði“ og vísaði þar til staðlausra fullyrðinga Donald Trump, fyrrum forseta, og fylgismanna hans um að hann hafi sigrað í forsetakosningunum 2020.

En eftir þetta er það skortur á notkun á andlitsgrímum sem hefur komið henni í koll. New York Times segir að hún hafi verið sektuð rúmlega 30 sinnum fyrir að brjóta reglur þingsins um að þingmenn eigi að nota andlitsgrímur í þingsalnum. Er sektarupphæðin komin upp í sem nemur rúmlega 10 milljónum íslenskra króna.

Í janúar á síðasta ári samþykkti þingið, þar sem Demókratar eru í meirihluta, að skylda þingmenn og starfsfólk til að nota andlitsgrímur. Heimsfaraldurinn var þá stjórnlaus í landinu og rúmlega 4.000 manns létust daglega af völdum COVID-19 í landinu. Ákveðið var að sekta skyldi fólk fyrir að nota ekki andlitsgrímur og var sektarupphæðin sem nemur tæplega 70.000 íslenskum krónum. Við ítrekuð brot skyldi upphæðin hækka í sem nemur um 340.000 íslenskum krónum. Sektirnar eru dregnar af launum þingmanna. Ekki er annað að sjá en að Greene sé reiðubúin til að greiða þessar sektir, að minnsta kosti hefur hún ítrekað verið staðin að brotum á þessum reglum.

Greene hefur sagt reglurnar bera merki um einræði og vera „kommúnískar“. Hún segist ekki vera bólusett gegn kórónuveirunni og virðist ekki hafa í hyggju að nota andlitsgrímur.

Hún er í miklum minnihluta varðandi afstöðuna til þessara reglna en þó eru nokkrir Repúblikanar sem fylgja henni að málum hvað þetta varðar og hafa verið sektaðir fyrir að nota ekki andlitsgrímur. Þeirra á meðal er Andrew Clyde, frá Georgíu,  sem hefur fengið að minnsta kosti 14 sektir fram að þessu. Nokkrir Repúblikanar hafa höfðað mál á hendur Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, og segja reglurnar stríða gegn stjórnarskránni og séu notaðar sem refsivöndur til að refsa pólitískum andstæðingum fjárhagslega.

Niðurstöður kannana um afstöðu Bandaríkjamanna til notkun andlitsgríma sýna að pólitísk afstaða þeirra skiptir máli. Í könnun, sem Ipsos gerði í desember, sögðust 53% Demókrata nota andlitsgrímur utan heimilisins en hjá Repúblikönum var hlutfallið 15%.

Í gær tilkynntu stjórnendur samfélagsmiðilsins Twitter að einkaaðgangi Greene hafi verið lokað vegna ítrekaðra brota hennar á reglum miðilsins. Hún hefur til dæmis margoft deilt ósönnum fullyrðingum um eitt og annað tengt heimsfaraldrinum og bóluefnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hafði ekki sést árum saman – Sendir skýr skilaboð til Kína og Norður-Kóreu

Hafði ekki sést árum saman – Sendir skýr skilaboð til Kína og Norður-Kóreu