Pétur Smári Sigurgeirsson hefur verið ráðinn sem sölustjóri á veitingmarkaði hjá Banönum. Pétur mun bera ábyrgð á sölu og vöruþróun á veitingamarkaði og sitja í framkvæmdaráði Banana.
Bananar eru stærsti innflutningsaðili á ávöxtum, grænmeti og berjum á Íslandi. Hlutverk fyrirtækisins er að útvega úrval af gæða grænmeti og ávöxtum á sanngjörnu verði og stuðla þar með að bættri lýðheilsu og velferð samfélagsins.
Pétur kemur til Banana frá Myllunni þar sem að hann hefur sinnt ýmsum störfum bæði sem bakari og svo verkstjóri í framleiðsludeild. Síðustu 16 ár hefur Pétur verið sölustjóri og stýrt allri vöruþróun hjá Myllunni ásamt því að koma að framleiðslu og markaðsmálum. Pétur Smári er bakarameistari að mennt og starfaði meðal annars í Sviss og Bandaríkjunum áður en hann hóf störf hjá Myllunni árið 1995.
„Ég er virkilega spenntur fyrir því að ganga til liðs við Banana. Ég hef fylgst með starfsemi félagsins lengi og hlakka til að taka þátt í að styrkja enn frekar þjónustu Banana við veitingamarkaðinn“ segir Pétur.
„Það er okkur mikið ánægjuefni að fá Pétur til liðs við Banana. Ráðningin er liður í innleiðingu á nýrri stefnu hjá Bönunum þar sem að við leggjum aukin fókus á vöruúrval, vöruþróun og þjónustu við veitingamarkaðinn ásamt því að halda áfram færa viðskiptavinum gæða vörur á sanngjörnu verði.
Pétur hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á veitingarmarkaði sem að mun svo sannarlega styrkja okkur verulega í vegferðinni fram undan“ segir Jóhanna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Banana.