Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi og oddviti Miðflokksins og óháðra í Hafnarfirði, lét Ríkisútvarpið heyra það þegar fréttamaður stofnunarinnar óskaði eftir viðbrögðum hans við fyrstu tölum úr Hafnarfirði. Flokkur Sigurðar, sem er betur þekktur sem Siggi stormur, hlaut aðeins 100 atkvæði í fyrstu tölum sem gerir 1,6% fylgi og því nánast útséð með það að Siggi haldi bæjarfulltrúastól sínum. Hann var allt annað en sáttur við það.
„Nú er komið að kaflaskilum í mínu lífi, að því er virðist, og ég er auðvitað hundssvekktur því ég tel að ég hafi reynt að gera það sem mér bar að gera í minnihluta. Að veita meirihlutanum aðhald og vekja athygli á málum sem voru flókin og erfið. Við höfum verið að reyna, svona á köfum, að takast á um þessi mál og ég er allaveganna alveg stoltur af þeim störfum sem ég hef reynt að vinna að,“ sagði Siggi.
Hann var svo spurður hvort að honum og flokknum hafi ekki tekist að koma sínum málum á framfæri í kosningabaráttunni og Siggi var alveg viss um hver bæri hluta af sökinni á því.
„Það verður nú rakið til ykkar á RÚV. Þið voruð náttúrlega alveg fyrir neðan allar hellur þegar kom að því að reyna að búa til einhverja stemmingu í kringum þessar kosningar. Við fengum átta mínútur hver einstaklingur hér fyrir þremur vikum í útvarpinu. Það var miklu meiri umfjöllun hjá ykkur til dæmis um Eurovision,“ sagði Sigurður.