fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Jón Steinar gáttaður eftir samtal við þingmann – „Það er eins og þeir haldi að almenningur sem fylgist með sé sauðheimskur“ 

Eyjan
Miðvikudaginn 11. maí 2022 12:30

Jón Steinar og ónefndi þingmaðurinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, segist hafa hitt þingmann úr stjórnarandstöðunni á dögunum og sá hafi greint honum frá því að forysta stjórnarandstöðuflokkanna ætlist til þess af sínum þingmönnum að þeir mótmæli öllu því er frá ríkisstjórninni kemur. Jón Steinar segir þetta slæm tíðindi og skorar á þingmenn að láta af þessari hegðun. 

Jón Steinar ritar grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Ég hitti alþing­is­mann á förn­um vegi á dög­un­um og tók­um við tal sam­an,“ segir Jón Steinar. Hann segir að umræddur þingmaður sé í flokk sem siti í stjórnarandstöðu þetta kjörtímabilið. Jón Steinar og þingmaðurinn hafi svo farið að ræða um störf þingsins.

Þá hafi þingmaðurinn, sem Jón Steinar nefnir þó ekki á nafn, sagt að forysta flokks hans ætlaðist til þess að þingmenn sínir taki þátt í andófi gegn ríkisstjórninni, alveg sama hvað.

„Hann sagði mér að flokks­fé­lag­ar hans leituðust við að vinna svona. Þeir settu á lang­ar ræður, sem ekki þjónuðu nein­um öðrum til­gangi en þeim að andæfa rík­is­stjórn­inni. Þetta gerðist m.a. í mál­um sem þeir væru hlynnt­ir en teldu skyldu sína að mót­mæla og tefja fyr­ir vegna þess að þeir væru í stjórn­ar­and­stöðu.“

Jón Steinar segir þetta slæm tíðindi. Málþóf sé alveg þekkt innan þingsins en þetta sé í fyrsta sinn sem Jón Steinar fær það staðfest að stjórnarandstaðan leggi að þingmönnum sínum að koma svona fram.

„Þetta eru slæm tíðindi. Sést hef­ur að vísu séð málþóf í þing­inu sem eng­um til­gangi virðist þjóna. Þetta er hins veg­ar í fyrsta sinn sem ég heyri vitn­is­b­urð um að for­ysta stjórn­ar­and­stöðuflokka ætl­ist til þess að þing­menn þeirra viðhafi fram­ferði af þessu tagi. Viðmæl­andi minn kvaðst að vísu ekki taka þátt í þessu sjálf­ur en fé­lag­ar hans í þing­flokkn­um gerðu það í stór­um stíl. Stund­um stæðu þing­fund­ir miklu leng­ur en þörf væri á vegna þess að málþófs­menn mis­notuðu mál­frelsi sitt á þenn­an hátt.

Þeir þing­menn sem taka þátt í svona fram­ferði ættu að skilja að þeir skaða trú­verðug­leika sinn með því. Það er eins og þeir haldi að al­menn­ing­ur sem fylg­ist með sé sauðheimsk­ur og sjái ekki í gegn­um ruglið. Það er mik­ill mis­skiln­ing­ur. Það er ekki ólík­legt að fólkið í land­inu missi trúna á heiðarleika þing­manna sem haga sér svona og taki síður mark á þeim þegar þeir segja eitt­hvað sem þeim sjálf­um finnst skipta raun­veru­legu máli.“

Jón Steinar ráðleggur því þingmönnum minnihlutans að láta af þessum vinnubrögðum. Það sé nefnilega ekkert athugavert við það að styðja mál á þingi sem maður er hlynntur, þó að málin komi ekki frá manns eigin flokki.

Stjórnarþingmenn hafa undanfarið gagnrýnt minnihlutann á þingi fyrir meint málþóf. Til dæmis má nefna þegar Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði fyrir tveimur vikum á þingi að stjórnarandstæðingar hefðu í langan tíma stundað ósmekklegt málþóf til að koma í veg fyrir framgang frumvarps hans um útlendingalög eða þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði í útvarpsviðtali í gær að þinginu væri haldið í gíslingu af stjórnarandstöðunni með málþófi.

Rétt er að minnast þess að stjórnarandstaðan brást ókvæða við ásökun Sigurðar Inga og fór dágóður tími þingfundar í kjölfarið í að ræða um ummæli ráðherrans. Í þeirri umræðu vísuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar því á bug að um málþóf væri að ræða. Meirihlutinn hefði dregið úr aðkomu minnihlutans í nefndum og öðru og því sé þingið sá vettvangur sem stjórnarandstaðan geti nýtt til að veita meirihlutanum aðhald – aðhald sem sé veitt með því að ræða málin.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu