fbpx
Föstudagur 26.nóvember 2021
Eyjan

Átu Vinstri grænir skít?

Eyjan
Sunnudaginn 18. júlí 2021 17:00

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingaandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi.“

Þannig komst Drífa Snædal, þá framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, að orði fyrir bráðum fjórum árum þegar hún sagði sig úr Vinstri grænum í mótmælaskyni við fyrirhugað ríkisstjórnarsamstarf flokksins með framsóknar- og sjálfstæðismönnum — já, en gagnrýnin beindist öll að Sjálfstæðisflokknum. Nú blasa við þau sögulegu tíðindi að þriggja flokka ríkisstjórn ætlar að sitja heilt kjörtímabil í fyrsta sinn en í upphafi töldu ýmsir stjórnmálaskýrendur ósennilegt að stjórnin tórði svo lengi (sem má teljast rökrétt ályktun í sögulegu ljósi). Og þegar líður að lokum kjörtímabilsins er kannski orðið tímabært að velta því upp hvort spádómur Drífu um „ofbeldissamband“ hafi ræst. Eru Vinstri grænir búnir að „éta skít“ í fjögur ár?

Stæk og djúpstæð andúð

Á dögunum var birt könnun sem Maskína gerði fyrir Vísi þar sem kjósendur voru inntir álits á áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna þriggja. Niðurstaðan var afgerandi en 71% kjósenda Vinstri grænna eru andvígir því að framhald verði á núverandi stjórnarsamstarfi. Þegar litið er til stuðningsmanna hinna ríkisstjórnarflokkanna blasir við allt önnur mynd en 88% kjósenda Sjálfstæðisflokks og 82% kjósenda Framsóknarflokks lýsa ánægju með ríkisstjórnarsamstarfið — og það er þá um leið að einhverju marki traustsyfirlýsing stuðningsmanna þeirra flokka við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Vinstra grænna.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, gerði þessa könnun að umtalsefni í pistli í Morgunblaðinu í gær og sagði skoðun kjósenda Vinstri grænna á Sjálfstæðisflokknum stæka og djúpstæða og að hluta til væri hún frá dögum kalda stríðsins. 

En þrátt fyrir svo afgerandi andstöðu kjósenda Vinstri grænna við samstarf með Sjálfstæðisflokknum hefur lítið farið fyrir þeirri andstöðu í opinberri umræðu og líklega ræðst það af litlu flokksstarfi. Vinstri grænir eru ekki nánda nærri jafnfjölmenn hreyfing og til dæmis Alþýðubandalagið var áður fyrr og kannski hurfu „órólegu deildir“ flokksins í hinu mjög svo stormasama stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna 2009–2013. — Já, og merkilegt að mun meiri átök hafi risið í samstarfi VG og Samfylkingar en samstarfi VG og Sjálfstæðisflokks.

Verkalýðsmál ekki í tísku

Fleiri skoðanakannanir hafa birst á undanförnum dögum en í vikunni sem leið greindi Morgunblaðið frá mælingu MMR á fylgi flokkanna. Alls svaraði 2.041 einstaklingur könnuninni sem staðfestir enn og aftur að sjö til níu flokka kerfi er að festast í sessi. Samkvæmt könnuninni kæmu alls níu flokkar að manni yrði kosið nú en flokkar Ingu Sæland og Gunnars Smára Egilssonar eru þó á mörkunum að ná inn. Þá hefur fylgi Miðflokksins minnkað hratt og er komið niður í 6,6%.

Líklegt má telja að þessi mikla dreifing á fylgi muni hæglega leiða til pólitísks óstöðugleika, flókinna stjórnarmyndunarviðræðna, margbrotins stjórnarsamstarfs og skammlífra ríkisstjórna. Auðvitað eru fjölmargar ástæður fyrir þessari þróun sem er síður en svo séríslensk. Flokkshollusta hefur verið á hröðu undanhaldi hvarvetna á Vesturlöndum samhliða síminnkandi tiltrú almennings á stjórnmálunum. 

En úr því að minnst var á úrsagnarbréf Drífu Snædal hér að ofan má kannski merkja úrsögn hennar úr VG sem táknræn endimörk á tengslum þess flokks við verkalýðshreyfinguna. Ef við förum 35 eða 40 ár aftur í tímann voru nánast allir fulltrúar á þingum Alþýðusambandsins merktir tilteknum stjórnmálaflokkum. Þetta er sem betur fer liðin tíð enda ekki launafólki til hagsbóta að gera hagsmunamál þess að sífelldu flokkspólitísku bitbeini. Samt sem áður má halda því fram að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri grænir hafa þrengst eftir að þeir misstu tengsl við verkalýðshreyfinguna. Forverar Samfylkingar og Vinstri grænna skilgreindu sig sem verkalýðsflokka en vinnumarkaðsmálin eru bara ekki lengur í tísku hjá þessum flokkum. Þar er meiri áhersla á annað, svo sem kvenfrelsismál, náttúruvernd, málefni útlendinga og fleira.

Gunnar Smári Egilsson — verðandi frambjóðandi til Alþingis — hefur bent á þetta en hann segir vanta sósíalistaflokk hér á landi. Líklega telur hann að Vinstri grænir hafi „étið skít“ í fjögur ár svo vitnað sé til orða Drífu Snædal. Ólafur Arnarsson hagfræðingur gerði þetta að umtalsefni í pistli á vef Hringbrautar á dögunum og sagði fullyrðingu Gunnars Smára um skort á sósíalistaflokki ekki standast skoðun. Ólafur skrifar:

„Vilji kjósendur styðja sósíalisma þá hafa þeir nú þegar úr mörgu að velja: Vinstri græna, Flokk fólksins, Pírata og nú í aðdraganda kosninga einnig Samfylkinguna sem hefur verið að færa áherslur sínar yst á vinstri kantinn og getur með sanni kallast sósíalistaflokkur.“

Og Vinstri grænir hafa undanfarin fjögur ár getað iðkað sósíalisma af miklum móð í skjóli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nægir þar að nefna heilbrigðismálin þar sem ráðherra VG hefur orðið verulega ágengt í enn frekari ríkisvæðingu kerfisins. Vinstri grænir hafa ekki í neinum skilningi verið undir hælnum á sjálfstæðismönnum – þvert á móti – og spádómur Drífu ekki ræst.

Hin mikla andstaða vinstri grænna við samstarf með sjálfstæðismönnum sem birtist í könnuninni á dögunum endurspeglar umfram allt djúpstæða vanþóknun róttækra vinstrimanna á Sjálfstæðisflokknum — og breytir þá engu þó svo að hér hafi í flestum skilningi verið vinstristjórn við völd síðastliðið kjörtímabil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur er kominn í sóttkví – „Ekki fundið fyrir einkennum og kennir sér einskis meins“

Guðlaugur er kominn í sóttkví – „Ekki fundið fyrir einkennum og kennir sér einskis meins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir óhjákvæmilegt að gera bólusetningu gegn kórónuveirunni að skyldu í Þýskalandi

Segir óhjákvæmilegt að gera bólusetningu gegn kórónuveirunni að skyldu í Þýskalandi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Albanía gæti orðið endastöð förufólks sem fer yfir Ermarsund

Albanía gæti orðið endastöð förufólks sem fer yfir Ermarsund
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sauð upp úr í Silfrinu: Umræða um spítalann setti allt á hliðina – „Þegar það leggst inn fjöldi sem samsvarar þingflokki Sjálfstæðisflokksins verða takmarkanir út um allt í samfélaginu“

Sauð upp úr í Silfrinu: Umræða um spítalann setti allt á hliðina – „Þegar það leggst inn fjöldi sem samsvarar þingflokki Sjálfstæðisflokksins verða takmarkanir út um allt í samfélaginu“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þetta kaupir hið opinbera af áskriftum prentmiðla – Mogginn fær langmest en Stundin lítið sem ekkert

Þetta kaupir hið opinbera af áskriftum prentmiðla – Mogginn fær langmest en Stundin lítið sem ekkert
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hulda ráðin til dk hugbúnaðar

Hulda ráðin til dk hugbúnaðar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Ingi sakar Tómas um karlrembu og læknahroka – „Fengu á sig hrútskýringu til baka frá yfirlækninum“

Björn Ingi sakar Tómas um karlrembu og læknahroka – „Fengu á sig hrútskýringu til baka frá yfirlækninum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrjú rótgróin iðnfyrirtæki sameinast – Áætluð velta verður um 4 milljarða fyrir 2023.

Þrjú rótgróin iðnfyrirtæki sameinast – Áætluð velta verður um 4 milljarða fyrir 2023.
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldóra Sveinsdóttir nýr 3. varaforseti ASÍ

Halldóra Sveinsdóttir nýr 3. varaforseti ASÍ