fbpx
Föstudagur 16.apríl 2021
Eyjan

Orðið á götunni: Stjórnmálaflokkarnir sverja lögbrot Svandísar og Þórólfs af sér – Framtíðin að mestu óráðin

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 6. apríl 2021 15:02

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnarflokkarnir þrír, en þó helst Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir, keppast nú við að hreinsa sig af mannréttindabrotum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Ljóst er að málið er talið klúður frá upphafi til enda, sér í lagi í ljósi þess að aðeins eru nokkrar vikur frá því að ný sóttvarnalög voru samþykkt á Alþingi. Að ráðherra gerist brotlegur við lög sem hún sjálf lagði fram á Alþingi og voru samþykkt fyrir svo stuttum tíma hlýtur að vera tímamet. Frumvarp um heildarendurskoðun á sóttvarnalögum var lagt fram 23. nóvember á síðasta ári og samþykkt 4. febrúar á þessu ári. Tveimur mánuðum og einum degi síðar var Svandís búin að brjóta lögin.

Þá er um það rætt meðal lögfróðra að í frumvarpi Svandísar hafi hugtakið sóttvarnarhús hvergi verið skilgreint og heimild til þess að vista einstaklinga þar gegn eigin vilja bundin við að þeir einstaklingar hafi fyrst orðið uppvísir að því að brjóta sóttkví.

Frumvarp Svandísar tók síðan miklum breytingum í meðferð þingsins og heimildir ráðherra til að reka sóttvarnahús voru betur skilgreindar og þrengdar. Velferðarnefnd Alþingis, sem fjallaði um frumvarp Svandísar, bætti eftirfarandi skilgreiningu inn í frumvarpið:

Sóttvarnahús: Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.

Er það nú mál manna að brot Svandísar og Þórólfs séu þeim mun alvarlegri í ljósi þess hve nýlega þingið skýrði vilja sinn fyrir stjórnvöldum. Þá liggur fyrir að varað hafði verið við því að reglugerðin væri brot á lögunum. Utan örfárra „sérfræðinga að sunnan“ voru lögmenn á því máli að gengið væri lengra en sóttvarnalög heimiluðu.

Þórólfur sagðist í morgun hafa tekið ákvörðun, í samráði við Svandísi, um að kæra úrskurðinn til Landsréttar. Það kom fáum á óvart, enda um fordæmisgefandi mál að ræða.

Þá hefur Þórólfur sagst hafa hvatt stjórnvöld til þess að uppfæra nýsamþykkt sóttvarnarlög með skýrari heimild til þess að nauðungarvista ferðamenn í farsóttarhúsi.

Fari svo að það verði samþykkt má ganga út frá því að látið verði reyna á gildi laganna með tilliti til stjórnskipunarlaga, sem ganga almennum lögum framar. Úrskurðurinn, sem DV hefur undir höndum, fjallar aðeins um heimildarákvæði í gildandi sóttvarnarlögum en tekur ekki á ýmsum atriðum sem lögmenn kærenda höfðu uppi í sinni greinargerð. Þar á meðal eru atriði er varða mannréttindasáttmála Evrópu auk jafnræðisreglu, málshraðareglu og frelsissviptingarákvæði stjórnarskrárinnar og loks meðalhófsreglu.

Þá var ekki tekin afstaða til miskabótakröfu í úrskurðinum og því liggur ekki fyrir nákvæmlega hvað lögbrot Svandísar mun að endingu kosta skattgreiðendur.

Eftir sem áður er ljóst að kallað er eftir hertari aðgerðum á landamærum og þolinmæði almennings fyrir smitum sem rakin eru til landamæranna lítil sem engin. Það gæti því reynst stjórnmálastéttinni dýrkeypt að gera ekkert og láta kjósendur góma sig við þá iðju sína. Mörgum stjórnmálamanninum gæti einmitt litist svo á að besta pólitíska leiðin væri að gera ekki neitt og vona það besta þar til staða bólusetninga hér á landi vænkast eftir mánuð eða tvo.

Í ljósi þeirrar miklu lagalegu óvissu sem enn ríkir um nauðungarvistanir í farsóttarhúsum er kannski ekki skrýtið að lítið heyrist beint í stjórnmálastéttinni. Þeirra í stað hafa yfirlýstir stuðningsmenn hinna og þessa tekið slaginn á samfélagsmiðlum og virðast átakalínurnar frá því „fyrir dóm“ hafa lítið breyst. Jón Magnússon, lögmaður eins vistmannsins í farsóttarhúsinu, hefur kallað eftir afsögn Svandísar, en virðist, hið minnsta enn sem komið er, vera einn um það.

Þá standa enn eftir spurningar um hvaða línu yfirvöld og þingið ætli að taka. Herma heimildir DV innan þingsins að gera megi ráð fyrir því að Svandís taki daginn í dag og á morgun í að kanna grundvöll innan þingsins fyrir breytingum á sóttvarnalögum sem myndu heimila reglugerðarsetningu sem í gær var úrskurðuð ólögleg. Komi hún að læstum dyrum þar má ætla að hún breyti útfærslu á farsóttarhúsi þannig að útfærslan rími við nýfallinn úrskurð héraðsdóms.

Til viðbótar er ein breyta sem mun hafa mikil áhrif á pólitíska umræðu og þá afstöðu sem kjörnir fulltrúar munu taka á næstu dögum: Fjöldi smita. Núll í gær utan sóttkvíar. Þó fjöldi innanlandssmita eigi sjálfsagt ekki að hafa áhrif á aðgerðir landsins á landamærunum, enda eru þær hannaðar til þess einmitt að halda smitum úr landinu, er ljóst að pólitísk fylgni er á milli fjöldi virkra smita á Íslandi og þolinmæði almennings fyrir hörðum aðgerðum stjórnvalda.

Á mannamáli: Allt sem þú þarft að vita um sóttvarnahúsið og dómsmálið

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt