fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Jón Þóris blæs von í brjóst þjóðarinnar og segir jákvæð teikn á lofti – „Guð láti gott á vita“

Heimir Hannesson
Laugardaginn 27. febrúar 2021 19:00

Jón Þórisson er ritstjóri Fréttablaðsins. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú þegar aðeins einn dag vantar upp á að rétt ár sé liðið frá því að fyrsta tilfelli kórónaveirunnar SARS-CoV-19 sem veldur sjúkdómnum Covid-19 greindist hér á landi má greina jákvæðni í lofti, eða svo að minnsta kosti ráða af skrifum Jóns Þórissonar, ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara blaðsins þessa helgina.

Jón Þórisson er jafnframt yfirritstjóri hjá Torg, sem jafnframt gefur út DV.

Jón skrifar:

Nú siglum við hægum byr út úr vandræðunum sem heimsfaraldrinum fylgdu. Ekki svo að skilja að það verði sem tjöld séu dregin frá og takmarkalaus dýrð tilverunnar, eins og við vorum vön, blasi við. Og heldur ekki að efnahagur lands og þjóðar hrökkvi í sama horf og var.

En tíra hefur kviknað og verður vonandi bjartari og skærari eftir því sem vikurnar líða.

Jón segir vonbrigðin við að bóluefnarannsóknin með Pfizer hafi „farið í vaskinn“ alls engin endalok og vekur athygli á því að bólusetningardagatal stjórnvalda bendi til þess að allir sem vilja geti orðið bólusettir fyrir júnílok.

Sjá nánar: Bólusetningadagatal komið út – Hvenær verðið þið bólusett?

Þá vekur hann athygli á því að sóttvarnalæknir hafi gefið grænt ljós á knúsið, að heilsufarslegum skilyrðum uppfylltum, og að grímuskyldan verði senn aflögð. Segir Jón það síðastnefnda „sérstakt fagnaðarefni.“

Áfram skrifar Jón:

Hert var verulega á hömlum á landamærum nýlega og öllu slegið þar næstum í lás, enda sárafáir á faraldsfæti. Það segir sig sjálft að hertan ásetning þarf til að ferðast þegar framvísa þarf nýlegu neikvæðu veiruprófi við komuna, fara í sýnatöku, svo í sóttkví og aftur í sýnatöku að henni lokinni.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að farþegar frá Grænlandi séu undanþegnir þessu fyrirkomulagi og er til vitnis um að jafnskjótt og faraldur gengur niður í landi opnast landamærin fyrir ferðalöngum þaðan. Enda er það lykillinn að því að ferðaþjónustan komist á legg á ný og hjól atvinnulífsins snúist á auknum hraða. Við eigum því öll undir því að sem best gangi að ráða niðurlögum faraldursins sem víðast.

Þá vitnar hann til fréttar í Fréttablaðinu um að starfsmenn Icelandair séu nú að verða varir við aukinn áhuga meðal breskra ferðamanna á heimsóknum til landsins síðsumars og í haust. Ræddi Fréttablaðið við Birnu Ósk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra sölusviðs hjá Icelandair, sem sagðist sjá „lítil en skýr“ merki um slíkt. Fjórðungur Breta hefur nú fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis.

Jón víkur þá máli sínu að því bólusetningarherferð Breta, og segir þá hafa einbeitt sér að því að bólusetja sem flesta með fyrri skammti og að seinni skammturinn yrði svo veittur eftir stöðu á framboði bóluefnis. „Má ekki vera að betra sé að fleiri hafi eitthvert ónæmi í blóði gegn veirunni en örfáir sem eru fullbólusettir?“ spyr Jón.

Hvað sem því líður segir Birna Ósk jafnframt í fréttinni: „Við sáum síðasta sumar að allt í einu fylltist allt af Dönum og Þjóðverjum á Íslandi, vegna þess að staða faraldursins var góð þar líkt og hér heima. Þá var fólk mikið að bóka á síðustu stundu og það gæti líka gerst næsta sumar, enda mikill ferðavilji og ferðaþörf uppsöfnuð hjá fólki um allan heim.“

„Guð láti gott á vita,“ segir Jón að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt