fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Birgir með hnút í maganum og hræddur – „Eftir þetta var andrúmsloftið mjög rafmagnað”

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 12. október 2021 11:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í Morgunútvarp Rásar 2 til að svara fyrir gagnrýni á þá ákvörðun hans að segja skilið við Miðflokkinn og ganga í raðir Sjálfstæðisflokksins. En hann hefur verið sakaður um kosningasvik og óheiðarleika svo dæmi um gagnrýnina séu tekin.

Hann segir ákvörðun sína skýrast á því að honum hafi verið gert ljóst nokkrum dögum fyrir kjördag að Miðflokkurinn væri markvisst að vinna gegn honum. Hann segir umfjöllum fjölmiðla síðustu daga hafa verið harkalega og jafnvel hafi verið veist að fjölskyldu hans og heimili.

Harkaleg umræða

Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis, tilkynnti í morgun að hún ætlaði ekki að ganga til tils við Sjálfstæðisflokkinn. Birgir sagðist skilja þá ákvörðun í ljósi umræðunnar síðustu daga.

„Hún tjáið mér það að hún ætlaði að koma með yfir, en hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé bara partur af því þessi harða umræða sem er búin að vera í samfélaginu og hefur auðvitað haft mikil áhrif á hana og ég neita því ekki að þetta hefur verið harkaleg umræða gagnvart mér. Það hefur til dæmis veist að mínu heimili í þessari umræðu. Menn eru farnir að seilast ansi langt. DV hefur verið að birta myndir frá mínu heimili og gera lítið úr þeim og tengja það þessari umræðu þannig að fjölskyldan hefur ekki heldur fengið frið svo mér finnst fjölmiðlar vera komnir ansi langt í þessari gagnrýni.“ 

Ekki er á hreinu hvaða frétt DV Birgir vísar til, en að líkindum er um að ræða frétt þar sem fjallað var um altaristöfluna sem prýðir kirkjuna Knarraneskirkju sem Birgir byggði á landi sínu. Myndbirtingar með þeirri grein sýndu aðeins altaristöfluna sjálfa.

Sjá einnig: Birgir lét mála sjálfan sig á altaristöfluna í Knarraneskirkju – „Menn geta leyft sér ýmislegt í sínum einkakirkjum“

Klaustur var upphafið

Birgir segir brotthvarf sitt úr Miðflokknum mega rekja til Klaustursmálsins.

„Ég hérna verð að segja það að þetta mál á rætur að rekja til Kaustursmálsins. þegar það kemur upp á sínum tíma þá gagnrýndi ég mína félaga, þeirra framgöngu og þeirra viðbrögð og viðbrögð flokksins. Fyrir vikið þá er ég orðinn vandamálið í flokkum. Ég er tekinn fyrir á þingflokksfundum, það eru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir það að hafa gagnrýnt þá.“ 

Í kjölfarið hafi Birgir tilkynnt að ef fundarhöld um hann sjálfan hættu ekki þá myndi hann segja sig úr flokknum.

Hann hafi jafnvel verið beðinn um opinbera afsökunarbeiðni til Klaustursþingmanna fyrir að hafa gagnrýnt þá.

„Eftir þetta var andrúmsloftið mjög rafmagnað og það tók langan tíma að jafna sig á þessu. Ég bara viðurkenni það hér að ég var bara með hnút í maganum margar vikur á eftir að mæta á þingflokksfundi vegna þess að ég var bara hræddur um það að ég yrði tekinn í gegn“

Vildu hann ekki á lista

Í aðdraganda kosninganna núna upplifði Birgir þar að markvisst væri unnið gegn honum og framlínufólk flokksins kærði sig ekki um hann í oddvitasæti. Eftir að Birgir var valinn í efsta sæti og listi kjördæmisins tilbúinn hafi listinn verið kærður. Þetta hafi Birgi þótt sárt og taldi sig ekki eiga það skilið

Fimm dögum fyrir kosninga hafi Birgir fengið tölvupóst þar sem lögmæti listans hafi verið dregið í efa. Það hafi gert útslagið. Hins vegar hafi hann metið stöðuna svo að ekki væri hægt að segja sig úr flokknum svona skömmu fyrir kjördag.

Eftir kjördag, og endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, hafi verið ljóst að Birgir þyrfti að vinna með Bergþóri Ólafssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í þingflokk Miðflokksins.

Birgir gat ekki hugsað sér það enda hafi Bergþór unnið markvisst gegn honum og Sigmundur leyft því að gerast.

„Ég var ekki tilbúinn í það.“

Hefði betur beðið

Birgir segir að líklega hefði hann átt að bíða aðeins með að tilkynna um vistaskiptin.

„Ef ég lít í baksýnisspegilinn þá hefði ég átt að geyma þetta í einhvern tíma. Ég verð bara að viðurkenna það.“

Hann er þó ekki sammála þeirri gagnrýni að hann hafi svikið kjósendur sína.

„Ég verð að segja það það er kannski eðlilegt að menn telji að ég sé að svíkja fólk með þessari ákvörðun. Ég vil þá segja það að ég veit að margir kusu mig persónulega. […] Ég er búinn að leggja mig fram og við Erna lögðum okkur verulega fram í þessari kosningabaráttu og höfðum við ekki haft góða frambjóðendur og aðstoðarfólk í Suðurkjördæmi og náð þeim árangri sem þar náðist er ég ekki viss um að flokkurinn hefði náð inn á þing.“

Var ekki líft

Birgir neitar ásökunum um að hann hafi löngu ákveðið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og farið í gegnum kosningabaráttu fyrir Miðflokkinn með það fyrir auga að yfirgefa flokkinn þegar hann hefði kjörbréfið í höndunum.

Hann hafi upplifað niðurbrot og vonbrigði innan Miðflokks.

„Mér var bara ekki líft“

Hann vill þó ekkert tjá sig um það hvenær hann hóf viðræður við Sjálfstæðisflokk eða við hvern hann ræddi. Hann gerir sér þó grein fyrir að umræða síðustu daga hafi skaðað trúverðugleika hans og ætlar hann sér að vinna hann til baka.

„Ég get alveg ímyndað mér það að fólk sé að dæma mig hart vegna þessarar ákvörðunar og það er þá náttúrulega mitt hlutverk að vinna mér inn traust á nýjan leik og það mun ég gera“.

Varðandi gagnrýni formanns Miðflokksins á ákvörðun Birgis segir hann:

„Það var svo sem viðbúið. Ég vissi það alveg að þetta yrði  með þessum hætti og það er ekkert annað að segja en að bregðast við því. En það er fólk þarna að segja að það hafi verið að vinna fyrir mig og gert allt til að koma mér in á þing. Það er bara rangt. Þetta fólk sem hefur tjáð sig á þessa vegu vann algjörlega gegn mér og mér finnst mjög sérstakt þegar formaður Miðflokksins biður þjóðina afsökunar á mér. En hann bað ekki þjóðina afsökunar á Klaustursmálinu. Ég gagnrýndi þetta mál og ég er bara blóraböggullinn. Það er kjarni þessa máls.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn