fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Eyjan

Segir forsendur lífskjarasamninga brostnar – „Þetta er ekki „grímulaus hræðsluáróður auðvaldsins“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 23. september 2020 09:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteinn og fyrrverandi þingmaður, segir forsendur lífskjarasamninganna brostna og það sé ekki vegna þess að ríkið hafi ekki staðið við þau loforð sem veitt voru við samningsgerð.

Þorsteinn skrifar í pistli sem birtist í Fréttablaðinu að það sé kórónuveiran sem hafi sett strik í reikninginn en með henni var ekki reiknað þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Nú um mundir eru aðilar vinnumarkaðarins að funda og meta hvort forsendur lífskjarasamninga séu brostnar og bendir Þorsteinn á að þar sé sjónunum einkum beint að ríkisvaldinu sem þó þrátt fyrir allt hafi staðið við sitt. Hins vegar séu aðrar mikilvægar forsendur samninganna brostnar.

„Efnahagslegar forsendur samninganna eru brostnar. Við gerð þeirra var spáð samfelldu hagvaxtarskeiði út samningstímann, að gengi krónunnar héldist stöðugt og verðbólga lág,“ skrifar Þorsteinn og heldur áfram: „Gengi krónunnar hefur fallið um fimmtung á einu ári, atvinnuleysi stefnir í 10 prósent og verðbólgan er komin af stað á ný. Ljóst er að veturinn verður harður.“

Það sem mestu máli hafi skipt þegar samningarnir voru undirritaðir var að atvinnulífið gæti ráðið við þær launahækkanir sem um var samið. Því ef sú yrði ekki raunin þá skapaðist hætta á aukinni verðbólgu, atvinnuleysi eða hvoru tveggja.

„Þetta er ekki „grímulaus hræðsluáróður auðvaldsins“ líkt og gjarnan er haldið fram í tilfinningaþrunginni orðræðu nýrrar forystu ASÍ. Þetta eru einfaldar efnahagslegar staðreyndir. Staðreyndir sem viðurkenndar eru af verkalýðshreyfingum á öllum Norðurlöndunum nema hér. Staðreyndir sem við höfum ítrekað sannreynt hér á landi.“

Þorsteinn telur að endurskoða þurfi samninganna því ef slíkt verði ekki gert þá sé fyrirséð að verðbólgan fari af stað og atvinnuleysi aukist umfram það sem nú er, sem þó er mikið.

Sögulega þegar kreppa ríði yfir landið þá hafi aðilar vinnumarkaðarins náð að gera með sér samkomulag til að komast yfir erfiðasta hjallann. Slík samkomulög hafi lagt grunn að efnahagslegum bata og kaupmáttaraukningu.

Kreppan sem Ísland glímir við í dag er djúp og alvarleg.

„Innihaldslausar launahækkanir ofan í þessa kreppu munu aðeins auka á vandann“

Þorsteinn heldur áfram ómyrkur í máli:

„Sú orðræða sem heyrst hefur frá verkalýðshreyfingunni að launahækkanir nú muni auka kaupmátt og draga okkur upp úr kreppu, minnir um margt á orðræðuna á vinnumarkaði fyrir Þjóðarsátt þar sem stjórnlausar víxlhækkanir launa og verðlags leiddu til óðaverðbólgu og efnahagslegrar stöðnunar.“

Líkur Þorsteinn pistli sínum á gagnrýni á verkalýðsforystu landsins.

„Innihaldslausar launahækkanir nú munu aðeins auka atvinnuleysi og verðbólgu. Það þarf að leita annarra leiða. Gott samstarf á vinnumarkaði hefur ekki verið mikilvægara um árabil. Það er áhyggjuefni að við þessar kringumstæður virðist forysta verkalýðshreyfingarinnar ætla að stinga höfðinu í sandinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Iðnaður gæti orðið helsti drifkraftur viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn

Iðnaður gæti orðið helsti drifkraftur viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kæra útboð borgarinnar á uppsetningu hleðslustöðva

Kæra útboð borgarinnar á uppsetningu hleðslustöðva