Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fór hörðum orðum um ríkisstjórnina og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum sem fram fara nú á Alþingi.
Hún skaut bæði á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra:
„Svo lítils virði er framlag hjúkrunarfræðinga í huga ráðherrans, að gerðardómur þarf nú í annað sinn að ákvarða laun þeirra. Vegna þess að í huga mannsins, sem er með næstum fjórföld meðallaun hjúkrunarfræðings, eru sanngjarnar kröfur þeirra um launahækkun út úr öllu korti, og eins víst að samfélagið fari á hliðina, ef gengið verður að þeim.
Og þetta frá manni sem fékk rúman hundrað þúsund kall í launahækkun á einu bretti, aðeins minni en helsta samverkakona hans í þessari ríkisstjórn, hæstvirtur forsætis- og jafnréttismálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir.
Árið 2018 sagði þessi sami maður nákvæmlega sama hlutinn um kröfur ljósmæðra sem einnig hafa endað í gerðardómi tvisvar í röð. Hann gekk reyndar svo langt að neita að greiða þeim laun fyrir þá vinnu sem þær unnu í verkfallinu.“
Þórhildur lagði sérstaka áherslu á jaðarhópa í ræðu sinni. Hún sagði að valdhafar settu þau út í kuldann, en að það gæti breyst, valdaklíkan væri lítil á meðan að almenningur væri stór. Hún endaði ræðu sína á því að bjóða innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur velkomna á nokkrum mismunandi tungumálum, ensku, taílensku, pólsku og filippseysku (Tagalog)
„You belong here
Bāh̄̒n khuṇ xyū̀ thī̀ nī̀
Wasz Dom jest tutaj
Dito ang bahay nyo
Eða á Íslensku – Þið eigið heima hér. Því við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð þar sem ólíkur uppruni okkar auðgar heildina.“
[videopress CVVKTEad]