fbpx
Þriðjudagur 26.maí 2020
Eyjan

Svona vill Ögmundur bregðast við efnahagsáhrifum Covid-19

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 5. maí 2020 18:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra VG, telur krísuna vegna Covid-19 tilefni til róttækrar endurskoðunar á þeim grunninnviðum sem mynda samfélagið. Hann sagði Eyjunni frá því sem hann telur nauðsynlegt að gera til að bjarga Íslandi.

„Maður reynir að átta sig á stóru myndinni og þeim hættum sem þarf að varast. Ein er sú að ráðist verði í umfangsmiklar einkavæðingaraðgerðir, líkt og áform eru uppi um varðandi Leifsstöð og í samgöngukerfinu. Það hefði átt að kynna slíkt fyrir kosningar, en ekki eftir á.“

Ögmundur vill einnig þjóðnýta Icelandair:

„Ef við ætlum á þá braut að skilgreina félagið sem kerfislega nauðsynlegt og dæla í það skattpeningum þá þarf að fara alla leið og taka það algerlega yfir. Og þá finnst mér einnig að skattgreiðendur ættu að fá hlut í eignarhaldinu á móti.“

Hann hefur þó mestar áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum:

„Hættan er að í slíku ástandi verði einhver sem taki ákvörðun um hver lifi af og hver ekki og þau sem eru öflugust taka yfir hin smærri. En markmiðið ætti að vera að koma í veg fyrir samþjöppun á fjármunum og valdi, eins og raunin hefur því miður ekki verið í sjávarútvegi með kvótakerfinu.“

Róttækt endurmat

„Við þurfum að endurmeta svo margt í okkar samfélagi á svona tímum. Þessi grundvallaratriði samfélagsins, húsnæðiskerfið, heilbrigðiskerfið, löggæsluna, tryggingakerfi almannatrygginga, landbúnaðar – og sjávarútvegskerfið þarf að taka í gegn. Fyrir aðeins ári síðan var hlegið að fólki sem varaði við innflutningi á hráu kjöti. Það hlær engin að þessu fólki í dag. Mér lýst vel á hugmyndir Kára Stefánssonar um að rækta hér okkar eigið grænmeti og gera orku til innlendrar matvælaframleiðslu gjaldfrjálsa að mestu. Og hvað sjávarútveginn varðar þurfum við að fá öll þessi 50 þúsund tonn sem landað er erlendis, hingað heim til vinnslu. Við þurfum algera stefnubreytingu í þessum málum.“

Efling ríkisins

Ögmundur vill sömuleiðis fjölga starfsmönnum hins opinbera líkt og Samfylkingin hefur talað fyrir:

„Þessi krísa kennir okkur að heilbrigðiskerfi á vegum hins opinbera stendur á sterkari fótum en hins markaðsdrifna, líkt og Bandaríkjamenn eru að uppgötva nú. Það þarf að búa betur að innviðum okkar, eins og löggæslu. Ef það kallar á meira starfslið, þá er það samfélaginu til góðs. En því miður er ríkið í augum margra hægri manna af hinu illa, þangað til þeir leggjast inn á sjúkrahús, líkt og Boris Johnson komst að á dögunum,“

segir Ögmundur, en forsætisráðherrann breski var á gjörgæslu vegna Covid-19 smits.

0% vextir

Ögmundur hefði viljað skilyrða björgunarpakkana við fyrirtæki sem ekki nýttu sér skattaskjól:

„En þegar þú leggur lag þitt við ísbjörn, þá mun hans sanna eðli koma í ljós fyrr eða síðar,“ segir Ögmundur, en í þessu tilfelli er ísbjörninn auðvitað Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn. Ögmundur segist þó ekki sjá nein skýr fingraför stjórnarflokkanna á þeim aðgerðum sem hafa verið boðaðar:

„En ég hefði þó kosið að þau sjónarmið sem andmæla markaðsvæðingarstefnunni hefðu verið öflugri. Hvað fjármálakerfið varðar þyrfti að taka vísitölubindingu fjármagns og lána af með öllu. Í kreppu rýrna allar efnahagsstærðir; laun og tekjur til dæmis. En það er alltaf einn hlutur sem er varinn í bak og fyrir, það er fjármagnið, með vísitölu og vöxtum. Við ríkjandi aðstæður ætti að vera 0% vextir og vísitalan tekin af. Það þarf allt að rýrna til jafns, nema kaupmáttur lægstu launa og öryrkja, þann enda þarf að verja, ekki hinn,“

segir Ögmundur og nefnir að einnig þurfi að setja á gjaldeyrishöft.

Húsnæðismál

Ögmundur tekur undir þá gagnrýni að læra þurfi af mistökunum við síðasta hrun, þegar kemur að heimilunum:

„Það versta sem gerðist í síðasta hruni er að lánavísitalan var ekki tekin úr sambandi og þannig lentu skuldug heimili í verðbólguskoti með skelfilegum afleiðingum. En við þurfum núna í þessari naflaskoðun okkar að dusta rykið af verkamannabústaðakerfinu og leita félagslegra lausna í húsnæðismálum. Það þarf að efla Íbúðalánasjóð og styrkja stöðu leigjenda og kaupenda. Það er búið að rífa niður þetta kerfi á síðustu 40 árum og það er kominn tími til að styrkja undirstöðurnar að nýju.“

Hátekjuskattur

Aðspurður hvort hann sjái skattahækkanir framundan telur Ögmundur svo ekki vera:

„Það er enginn aflögufær um neitt og við erum ekki á leiðinni þangað held ég, það er engin langtímalausn. Hinsvegar má alveg setja á alvöru hátekjuskatt. Það eitt og sér dugar kannski ekki til, ljóst er að ríkissjóður verður rekinn með halla og þarf að fara út í lántöku. Því þarf að huga að jafnara skattkerfi, en einnig efla atvinnulíf og verðmætasköpun, en þar þurfum við að hugsa margt upp á nýtt.“

Engin beintenging

Ögmundur hefur verið gagnrýninn á forystu VG eftir að flokkurinn fór í eina sæng með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Aðspurður hvort hann hefði samþykkt þann ráðahag væri hann enn í þingflokki VG, svarar Ögmundur afdráttarlaust: „Nei!“ Hann segist heldur ekki veita forsætisráðherra neina ráðgjöf:

„Ég er ekki beintengdur inn í pólitíkina með þeim hætti nei, ég lít frekar á mig sem grasrótarmann, aðila út í bæ sem vill styðja við sjónarmið sem eru vissulega til staðar innan stjórnarráðsins varðandi jöfnuð. En það sem er að gerast í pólitíkinni er að við erum með flokka sem segjast ætla að gera eitt, en gera svo annað. Stjórnmálamenn þurfa að segja satt.“

Greinin birtist í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Telja frumvarp forsætisráðherra brjóta gegn stjórnarskránni og EES-samningnum

Telja frumvarp forsætisráðherra brjóta gegn stjórnarskránni og EES-samningnum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Börn Steingríms hafa leynt fyrir honum aðkastinu

Börn Steingríms hafa leynt fyrir honum aðkastinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ekki fleiri monthús í miðbæinn

Ekki fleiri monthús í miðbæinn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kallað eftir ofursköttum vegna „sumargjafar“ Samherja

Kallað eftir ofursköttum vegna „sumargjafar“ Samherja