fbpx
Fimmtudagur 06.ágúst 2020
Eyjan

Framlag ríkisins til aðgerðaráætlunar fyrir Suðurnesin alls 250 milljónir

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 20. maí 2020 15:40

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgangna- og sveitastjórnarmála

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýrri samantekt starfshóps um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum er kynnt aðgerðaáætlun með 17 aðgerðum til að bæta þjónustu og efla sveitarfélög á svæðinu. Beint framlag ríkisins til aðgerðanna er 250 milljóna kr. en fjárveitingin var kynnt í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19. Samantekt starfshópsins var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum mældist rúmlega 25% í apríl og er spáð hækkandi atvinnuleysi á næstu vikum.

Markmið aðgerðaáætlunarinnar eru fjórþætt: Að auka samráð milli ríkis og sveitarfélaga um hagsmuni svæðisins, virkja jákvæðan vöxt fyrir efnahagslíf og samfélag, auka skilning á sérkennum og tækifærum svæðisins og loks að efla viðbragð við aðstæðum sem kalla á samstillingu og sameiginlegar aðgerðir opinberra aðila.

„Hér liggur fyrir skýrsla sem gefur góða yfirsýn yfir vaxtarsvæðið Suðurnes. Aðgerðirnar leggja grunn að viðspyrnu fyrir svæðið og efla það samtal sem þarf að vera milli ríkisins og sveitarfélaga. Þessi skýrsla getur jafnframt nýst vel í vinnu með öðrum sveitarfélögum sem orðið hafa fyrir höggi vegna frostsins í ferðaþjónustu,“

segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Samráðsteymi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Meðal tillagna starfshópsins er að formlegt samráðsteymi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum starfi áfram, m.a. með vísan til aðgerðar byggðaáætlunar um vaxtarsvæði. Mikilvægt er að tryggja náið samstarf og samráð ráðuneyta, lykilaðila á svæðinu, sveitarfélaga og fyrirtækja. Verkefni samráðsteymisins verður að fylgjast grannt með þróun mála, bæta upplýsingagjöf, greina áskoranir og samstilla krafta með það að leiðarljósi að styðja við og efla getu svæðisins til að takast á við breytingar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði starfshópinn haustið 2019 til að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingi um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Vinna hópsins fékk aukna þýðingu eftir í kjölfar Covid-19 faraldursins. Í starfshópnum sátu fulltrúar ráðuneytanna og sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Í samantektinni segir að mikil niðursveifla hafi orðið í tengslum við brotthvarf flugfélagsins Wow air. Nú hafi Covid-19 faraldurinn leitt til þess að ferðaþjónusta á svæðinu hafi hrunið og starfsemi Keflavíkurflugvallar og tengd starfsemi lægi að mestu leyti niðri. Atvinnuleysi á svæðinu stefni á 24% í apríl sl. og slíkt kalli á sérstakan viðbúnað og enn nánara samstarf ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Sautján aðgerðir

Aðgerðaáætlunin er sem fyrr segir í sautján liðum og skiptast í fjóra flokka, þjónustu, atvinnumál, samfélagsverkefni og menntamál. Heildarfjármagn er 250 milljónir kr.

Þjónusta

 • Vaxtarsvæði – samráðsteymi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum
 • Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans – 30 milljónir kr.
 • Þverfagleg Landshlutateymi (Velferðarstofa) – 30 milljónir kr.
 • Aukin verkefni hjá sýslumanninum á Suðurnesjum – 12 milljónir kr.
 • Átak gegn heimilisofbeldi – 12 milljónir kr.
 • Bætt heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum – 6 milljónir kr.

Atvinnumál

 • Vinnumarkaðsátak

Samfélag

 • Samfélagsrannsóknir – 10 milljónir kr.
 • Heilsueflandi Suðurnes – frístundavefur – 1,5 milljónir kr.
 • Reykjanes UNESCO Global Geopark – 25 milljónir kr.

Menntun

 • Styttri námsúrræði – 20 milljónir kr.
 • Sumarnám – 30 milljónir kr.
 • Þróun á sviði vendináms – 10 milljónir kr.
 • Fisktækni á pólsku – 12 milljónir kr.
 • Sjávarakademían, nýsköpun og vöruþróun innan bláa hagkerfisins – 12 milljónir kr.
 • Efling þekkingarstarfsemi á Suðurnesjum – 20 milljónir kr.
 • Flugklasinn – 19,5 milljónir kr.

Bætist við aðrar sértækar aðgerðir fyrir svæðið

Aðgerðaáætlun starfshópsins bætist við aðrar sértækar aðgerðir stjórnvalda fyrir Suðurnes. Settar verða 4 milljarðar kr. í aukið hlutafé til ISAVIA sem mun m.a. skapa 50–125 störf vegna innviðaframkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Í fjárfestingarátaki sem var hluti af fyrsta aðgerðapakka stjórnvalda voru einnig kynnt ýmis opinber verkefni, þ.m.t. samgönguverkefni á Suðurnesjum sem er viðbót við gildandi fjárveitingar, 200 milljóna kr. stuðningur við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að bæta aðkomu sjúkrabifreiða og 60 m.kr. fjárfesting í endurbætur á byggingu á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar vegna aðstöðu fyrir ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands. Loks var fjármunum varið til dýpkunar framkvæmda í höfninni í Sandgerði og fleiri hafnartengdum verkefnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðni hjólar í Dag – „Ég hef aldrei á langri ævi horft á ann­an eins skrípaleik“

Guðni hjólar í Dag – „Ég hef aldrei á langri ævi horft á ann­an eins skrípaleik“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes skýtur á opinbera starfsmenn

Hannes skýtur á opinbera starfsmenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skrif Harðar vekja hörð viðbrögð: Hver er að beita skuggastjórnun?

Skrif Harðar vekja hörð viðbrögð: Hver er að beita skuggastjórnun?