fbpx
Þriðjudagur 28.mars 2023
Eyjan

Það er ekki hægt að senda flóttamenn til Grikklands á þessum tímapunkti

Egill Helgason
Laugardaginn 7. mars 2020 14:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú standa yfir uggvænleg átök á landamærum Grikklands og Tyrklands. Tyrkir hafa opnað leið flóttamanna að landamærunum, það er jafnvel sagt að þeir hafi skaffað rútur undir fjölda flóttamanna og að þeir hafi lögreglusveitir sem reyni að ýta fólkinu nær landamærunum.  Grikkir hafa lokað landamærunum og beitt táragasi til að bægja fólkinu frá. Fréttir, sem koma frá Tyrklandi, um að flóttamenn hafi verið skotnir í átökunum hafa reynst ósannar. En þetta er óbærilegt ástand, eins og púðurtunna, og getur farið illa. Með þessum hætti er Erdogan Tyrklandsforseti í raun að nota flóttamenn eins og vopn í togstreitu sinni við Evrópusambandið. Samband Grikkja og Tyrkja hefur ekki verið verra í langan tíma – og það er óhætt að segja að sökin er ekki Grikkja.

Við búum við ónýtt kerfi í flóttamannamálum sem felur í sér að flóttamönnum er skilað til þess land sem þeir komu fyrst til í Evrópu ef þeir fá ekki hælisvist. Í afar mörgum tilvikum er þetta Grikkland. Nú les maður fréttir um að standi til að flytja að minnsta kosti fimm fjölskyldur flóttamanna til Grikklands í næstu viku. Maður vonar svo sannarlega að þetta sé ekki satt, því staðreyndin er sú að Grikkir eru ekki í stakk búnir til að taka við fleira flóttafólki, hafa ekki bolmagn til þess, hvað þá á tíma þegar spenna magnast með þeim hætti sem við höfum séð undanfarið.

Það er auðvitað svo að flóttafólk hefur heldur engan áhuga á að dvelja á Grikklandi. Það er einungis transit. Líkt og segir í grísku lagi sem var sungið þegar Grikkir fóru unnvörpum úr landi í leit að betri kjörum á árunum eftir stríð þá liggur straumurinn í raun á brautarstöðina í München.

Eitt helsta afrek Grikkja í kreppunni var að kveða í kútinn fasistahreyfinguna Gyllta dögun. Hún þurrkaðist út í kosningum síðasta sumar. En nú er hætta á að fasismi magnist upp aftur þar í landi og útlendingahatrið – sem er óhjákvæmilegt að láti á sér kræla í svona ástandi. Slíkir hópar eru meira að segja mættir að landamærunum og auka á spennuna.

Verandi Grikklandsvinur sárnar mér stundum hið illa umtal sem Grikkir fá vegna flóttamannamála. Vegna landfræðilegrar legu eru þeir í fremstu línu. Aðstoðin sem þeir fá frá Evrópusambandinu, að maður tali ekki um Bandaríkjunum. Rússlandi og t.d. Saudi-Arabíu, er fullkomlega ónóg. Þannig lendir alltof mikil ábygð á herðum þjóðar sem er veikluð eftir hörmulega krepputíma.

Tyrkjum er náttúrlega nokkur vorkunn. Þeir hafa tekið á móti miklum fjölda flóttamanna. Erdogan forseti er að reyna að þvínga Evrópusambandið til að leggja fram meira fé til að standa undir kostnaðinum – í anda samkomulags sem var gert 2016. En þversögnin er sú að Tyrkir standa sjálfir í stríðsrekstri í Sýrlandi , þeir hafa barist í Idlib þaðan sem margir flóttamenn koma nú, eiga því sína sök á flóttamannavandanum – sem Grikkir eiga ekki.

Auðvitað eru þeir ekki alveg háheilagir Grikkirnir. Maður fyllist hryggð þegar maður sér myndir frá flóttamannabúðum á Lesbos. Andúðin á flóttafóki og hjálparsamtökum sem aðstoða það fer vaxandi. En maður hlýtur að spyrja, er ekki  Lesbos eins og nokkurs konar öfugsnúinn sýningargluggi, að ástæðan fyrir því að þetta er haft svona slæmt sé sú að menn vilji sýna hvað það sé í raun ófýsilegur kostur að flýja til Evrópu?

Að þetta sé svona andstyggilegt með ráðnum hug?

Við þessar aðstæður er ekki hægt að senda fólk til Grikklands, svo einfalt er það. Og svo þurfa öll flóttamannamál endurskoðunar við. Evrópa hefur ekki ráðið við flóttamannastrauminn frá Sýrlandi – hann skekkti í raun alla pólitík í álfunni, varð vatn á myllu öfgaafla. Við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með það. Hvað ef til dæmis brytist út stríð í Íran – hvernig myndum við bregðast við fjöldaflótta þaðan?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn

Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir efnhagslífið vera sjóðheitt og að Seðlabankinn verði að bregðast við

Segir efnhagslífið vera sjóðheitt og að Seðlabankinn verði að bregðast við
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ögmundur sakar íslensk stjórnvöld um misnotkun á hælisleitendakerfinu

Ögmundur sakar íslensk stjórnvöld um misnotkun á hælisleitendakerfinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Furða sig á ákvörðun sveitarstjórnar um að kaupa gamalt flugvélarflak

Furða sig á ákvörðun sveitarstjórnar um að kaupa gamalt flugvélarflak
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þessir þingmenn hafa eytt mestu skattfé í ferðalög – Bróðir seðlabankastjóra trónir á toppnum

Þessir þingmenn hafa eytt mestu skattfé í ferðalög – Bróðir seðlabankastjóra trónir á toppnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður VG segir sig úr flokknum eftir að frumvarpið umdeilda flaug í gegn

Varaþingmaður VG segir sig úr flokknum eftir að frumvarpið umdeilda flaug í gegn