fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

„Hvað á ég að gera við þessi innfluttu blóm?“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 20. mars 2020 14:43

Guðni Ágústsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Ágústsson ritar:

„Það var að venju hátíðleg stund að vera viðstaddur setningu Búnaðarþings mánudaginn 2. mars sl. í Súlnasal Bændahallarinnar. Þar voru fluttar ræður og sveitastúlkan Soffía Óðinsdóttir söng eins og engill. Bændur og velunnarar þeirra fylltu salinn og stundin var svolítið rafmögnuð. Ég sat Gunnari Þorgeirssyni garðyrkjubónda til hægri handar en hann áformaði að bjóða sig fram til for-ystu fyrir íslenska bændur. Ég hafði ekki hugmynd um þær hugrenningar hans fyrir þingið. Hins vegar gerðist það í ræðu landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, að ráðherra tók að skamma huldumann, ég þekkti strax til „kauða.“ Nú bað ég skapara minn að hefna strax ósvífni ráðherra og ekki síst af því honum fórst eins og Gunnari Lambasyni forðum í frásögninni af Njálsbrennu. „Um allar sagnir hallaði hann mjög til og ló frá víða.“

Öfugmæli ráðherrans

En hér er hinn umdeildi kafli ræðunnar og vita allir sem þekkja til að er alls ekki sannur eða réttur. En ráðherra sagði eftirfarandi: „Eitt af því furðulega sem hendir þann sem hér stendur, er að funda oft í viku með öflugu starfsfólki á landbúnaðarskrifstofu ráðuneytisins en lesa svo á sama tíma fullyrðingar frá ýmsum sem teljast velgjörðarmenn íslensks landbúnaðar, að þetta sama fólk sé ekki til. Þannig er ýmist fullyrt að landbúnaðurinn sé í skúffu í ráðuneytinu eða skrifstofan hafi verið lögð niður. Menn virðast halda að ef þeir fullyrði þessa þvælu nógu oft þá verði til nýr sannleikur. Staðreyndin er hins vegar sú að landbúnaðarskrifstofa ráðuneytisins hefur verið efld til muna á þessu kjörtímabili, meðal annars með innkomu Búnaðarstofu í ráðuneytið, en þeir starfsmenn hafa nú verið færðir undir skrifstofu landbúnaðar og matvæla.

Sú skrifstofa er nú orðin öflugri og kraftmeiri en hún hefur verið undanfarin ár og er nú fjölmennasta fagskrifstofa ráðuneytisins. Og þrátt fyrir að ég sé ekki þeirrar gerðar að tala mikið fyrir fjölgun opinberra starfsmanna er staðreyndin engu að síður sú að aldrei áður, aldrei áður hafa fleiri sérfræðingar unnið að landbúnaðarmálum í Stjórnarráði Íslands eins og einmitt á þessum tímapunkti.“

Flestar fullyrðingar ráðherrans eru skrum eða klár skáldskapur sem auðvelt er að sannreyna. Því næst tók til máls Haraldur Benediktsson alþingismaður og flutti ljúfa ræðu, nokkurs konar varnarræðu fyrir ráðherrann sinn og Alþingi. Nú þarf ekki annað en að vitna í annan leiðtoga flokks hans eða Þorstein Pálsson sem skrifaði m.a. þetta í Fréttablaðið:„Það er rétt hjá Guðna Ágústssyni að atvinnustarfsemi í sveitum landsins er umkomulaus á Alþingi eins og sakir standa. Því þarf að breyta.“

Blóm, nýsjálenskur lambahryggur og kínversk lopapeysa

Eitt er víst að ráðherra er ekki að fjölga sérfræðingum með því að flytja Búnaðarstofu undan MAST úr Hafnarfirði í ráðuneytið. Þeir starfsmenn fluttu með lögbundin verkefni og voru að störfum annars staðar. Þennan Búnaðarþings-dag voru þeir enn í forstofu iðnaðarráðuneytisins, en þó ekki komnir lengra en að lyftunni. Lögformlega eiga verkefni þeirra að vera utan ráðuneytis og Bændasamtakanna. Eftir ræðuna tók ráðherra venju samkvæmt að veita land-búnaðarverðlaun bændunum í Garði, sem reka Kaffi Kú, og blómabændum á Espiflöt í Biskupstungum. Um leið og ráðherra afhenti Heiðu Pálrúnu Leifsdótt-ur blómvönd með kossi sagði hún með særðri röddu: „Ekki veit ég hvað ég á að gera við þessi innfluttu blóm?“ Þögn sló á samkomuna. Ég hallaði mér að for-ingjaefninu og hvíslaði: „Hefði þetta verið sauðfjárbóndi hefði hann sjálfsagt fengið nýsjálenskan lambahrygg? Og bætti við: „Manstu þegar iðnaðarráðherr-ann gaf kónginum lopapeysuna og kóngsi gladdist en rak upp neyðaróp og sagði: „Made in China.“

Vinir bænda eru í hverju eldhúsi

Nýrri bændaforystu er óskað velfarnaðar í baráttunni. Ég tel hana skipaða öflugu fólki. Hún var ákall bænda og grasrótar sveitanna í baráttu til að takast á við framtíðina. Guðrún Tryggvadóttir og hennar stjórn galt fyrir gjörðir eða aðgerðaleysi sitt og annarra að nokkru leyti. Bændur vildu hallarbyltingu. Gunnar Þorgeirsson er öflugur forystumaður en hans verkefni verður tvíþætt, annars vegar að endurskipuleggja félagskerfið einn fyrir alla og allir fyrir einn. Svo verður hann að krefja Sjálfstæðisflokkinn, sem fer með landbúnaðarmálin og hina ríkisstjórnarflokkana um að reisa stjórnsýslu landbúnaðarráðuneytisins og fagstofnanir landbúnaðarins úr rústum síðustu 13 ára.

Gunnar er í hlutverki síns breska flokksbróður, Boris Johnson, og minnir nokkuð á hann. Verkefni Johnson er að standa við þjóðarviljann og ganga úr ESB. Gunnar hefur þjóðarviljann að baki sér og verkefni hans er að knýja stjórnmálamennina til að hlusta og opna augun fyrir því undanhaldi og þeim vanda, sem steðjar að sveitunum. Vandi þessi er að stórum hluta mannanna verk og ákvarðanir stjórnvalda, sem veikt hafa landbúnaðinn verulega. „Síðasti bóndinn slekkur ljósið,“ er fullyrðing sem hangir í loftinu.

Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra skal ég segja þetta til varnar. Hann er þægilegur maður og um margt bera margir fyrirrennarar hans meiri ábyrgð á því hvernig komið er. En ég hef ekki séð neitt það til hans að ég eygi von um stefnubreytingu. Ráðuneytið hefur kappkostað að losna við fjósalyktina. Hinn Kristjáninn, ráðuneytisstjóri, er sjálfsagt með hug og hjarta að þjóna hinum ráðherranum sem hann vinnur fyrir, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, og kannski gersneyddur sýn á landbúnaðinn.

Fáránlegt er að sami ráðuneytisstjóri sé með tvo ráðherra og mörg ráðuneyti. Kristján ráðherra hefur tekið ákvarðanir og ætlað sér gjörðir sem ekki eru landbúnaðarráðherra samboðnar og stundum brugðið fyrir sig að hann sé í hagsmunagæslu fyrir aðra þjóðfélagshópa. Landbúnaðarráðuneytið er skúffa í hans höndum. Þar eru ekki uppi nein alvöru áform um að efla sveitirnar. „Hefnist þeim er svíkur sína huldumey,“ sagði skáldið. Landbúnaðurinn og sveitirnar eru okkar huldumey. Þar slær hjarta þjóðar. Þar er okkar rót. Við látum það ekki gerast, að valtað verði yfir bændur og landbúnaðinn, sem á nú þúsund tækifæri og gríðarleg í nýsköpun.

Nú þegar tímar heimsfaraldurs brestur á segja flestir guði sé lof fyrir öll matvælin sem íslenskir bændur framleiða. Oft kveikir neyðin ljós viskunnar, landbúnaðurinn er okkur íslendingum lífs nauðsynlegur.

Margir viðmælenda minna telja nú eina ráðið að stofna hollvinasamtök landbúnaðarins og sveitanna. Vinir bænda eru í hverju eldhúsi. Þeirri vináttu fær hvorki mölur né ryð grandað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“