fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Eyjan

Hinn stórbrotni Kirk Douglas – með ættir aftur í horfin gyðingasamfélög Austur-Evrópu

Egill Helgason
Fimmtudaginn 6. febrúar 2020 12:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var að horfa á myndina Paths of Glory um daginn á einhverri efnisveitunni. Kirk Douglas var þar í aðalhlutveki. Ég spurði Kára son minn hvort Kirk væri ekki ennþá á lífi. Hann svaraði, já, en hann er orðinn meira en hundrað ára. Kári veit margt um kvikmyndir. Ekki mörgum dögum síðar birtist fréttin um Kirk Douglas sé látinn, 103 ára að aldri.

Kirk var síðastur lifandi af gömlu stóru stjörnunum í Hollywood (ég les reyndar að Olivia de Havilland sé ennþá á lífi, hún var fædd 1916, lék í Gone With the Wind með Clark Gable og í Hróa Hetti með Errol Flynn!).

Hann átti sér merkilegan bakgrunn líkt og margir Bandaríkjamenn af hans kynslóð, Bandaríkin voru hrærigrautur þjóða og þjóðabrota. Hann hét í raun Issur Danielovitch, foreldrar hans voru gyðingar frá Hvíta-Rússlandi, á heimilinu var töluð jiddíska. Þetta var fátæk fjölskylda úr heimi sem er horfinn, pabbinn hafði verið hrossaprangari, en seldi tuskur og ýmislegt smálegt á götum New York, það er sagt að Kirk hafi verið í fjörutíu mismunandi störfum áður en hann varð leikari. Hann breytti nafni sínu í Kirk Douglas þegar hann gekk í herinn í stríðinu.

Kirk gleymdi ekki uppruna sínum og starfaði mikið að mannúðarmálum. Hann var einn af þeim sem átti þátt í að binda endi á tíma „svarta listans“ í Hollywood með því að nota handritshöfundinn Dalton Trumbo til að skrifa handritið að kvikmyndinni Spartakusi.

Sem kvikmyndaleikara munum við hann fyrst og fremst sem ódeigan riddara réttlætisins. Með nokkuð hörkulegan svip, skarðið í hökunni, leiftrandi augu – og ákveðinn sprengikraft í fasi sínu. Þannig birtist hann í Paths of Glory, þar sem hann leikur liðsforingja í fyrri heimsstyrjöld sem upplifir ótrúlegt óréttlæti, ber að ofan  í Spartakusi þar sem hann leikur foringja þrælauppreisnarinnar frægu í Rómarveldi og í Seven Days in May þar sem hann kemur upp um samsæri um að koma á herforingjastjórn í Washington í kalda stríðinu.

En hann gat líka leikið gallaðri persónur. Hann átti stórleik sem Vincent Van Gogh í Lust for Life í leikstjórn Vincente Minelli. Hann lék Einar, grimmlyndan og gráðugan víking, í The Vikings. Sumir telja að besta hlutverk  hans sé The Bad and the Beautiful, það var aftur undir stjórn Minellis. Kirk leikur þar óprúttinn kvikmyndaframleiðanda sem veður yfir fólk til að koma sér áfram.

Það er sagt um Kirk Douglas að svona menn séu ekki lengur meðal vor – they don’t make them like that any more. Það er náttúrlega fullt af stórum kvikmyndastjörnum, en Kirk er frá tímanum fyrir svarta kassann sem stendur í stofum okkar allra, frá því fyrir sjónvarpið – frá þeim tíma að almenningur flykktist í kvikmyndahús og horfði á stjörnur sínar í töfrabirtu bíósalanna. Vegna hás aldurs tengdi hann okkur við þann tíma.

Og fyrir þá sem halda að Óskarsverðlaun séu upphaf og endir alls í kvikmyndum, þá má nefna að Kirk Douglas fékk aldrei Óskar.

Ég byrjaði á því að tala um Paths of Glory. Það var sjálfur Stanley Kubrick sem leikstýrði myndinni, en Kirk var potturinn og pannan í henni, Kubrick vildi breyta en Kirk var frekari og frægari og fékk að ráða mestu. Þetta er ein besta stríðsmynd sem nokkurn tíma hefur verið gerð og skerandi ádeila á stríðsrekstur og híerarkí valdsins. Þeir unnu aftur saman í Spartakusi en svo ekki meir. Kirk sagði einhverju sinni um Kubrick: “He was a bastard! But he was a talented, talented guy.

Hér er frægt atriði úr Paths of Glory þar sem Kirk Douglas, í hlutverki Dax höfuðsmanns, gengur um skotgrafirnar. Menn taka kannski eftir því að í bíómyndinni 1917 má nánast finna beinar tilvísanir í þessa mynd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dóra Björt stendur keik – „Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig“

Dóra Björt stendur keik – „Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Álfrún spyr hvort það sé kominn tími til að ræða gereyðingarvopn

Álfrún spyr hvort það sé kominn tími til að ræða gereyðingarvopn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Punktar úr pólitík – Þetta bar hæst í vikunni

Punktar úr pólitík – Þetta bar hæst í vikunni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tommi opnar sig um framboðið – „Ég skal viðurkenna að ég hef enga reynslu“

Tommi opnar sig um framboðið – „Ég skal viðurkenna að ég hef enga reynslu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Opið bréf með áskorun til ráðherra – Verið að draga úr stuðningi við nýsköpun á landinu öllu

Opið bréf með áskorun til ráðherra – Verið að draga úr stuðningi við nýsköpun á landinu öllu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir ásakanir Dóru á sandi reistar – Píratar samþykktu sjálfir skipulagið

Segir ásakanir Dóru á sandi reistar – Píratar samþykktu sjálfir skipulagið