Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, er orðuð við varaformannsembætti flokksins, en Miðflokkurinn heldur landsþing sitt í lok mars.
Fréttablaðið greinir frá því að óvíst sé með hvort sitjandi varaformaður, Gunnar Bragi Sveinsson, gefi kost á sér, en hann hefur verið sagður á útleið úr stjórnmálum alveg frá því að Klaustursmálið kom upp, hvar hann lék eitt aðalhlutverkið.
Vigdís segist ekkert hafa ákveðið um framboð, en útilokar þó ekki að snúa aftur í landsmálin, þó svo hún hafi lýst því yfir að hún ætli að verða næsti borgarstjóri:
„Ég hef nú þegar lýst því yfir að ég hafi hug á að verða næsti borgarstjóri en vika er langur tími í pólitík og maður veit aldrei.“
Staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem formanns þykir firnasterk og líkur á mótframboði þar eru litlar sem engar.
Hinsvegar segir Fréttablaðið að flokksmenn séu farnir að „hringjast á“ vegna varaformannsembættisins, en þar er aðeins nafn Vigdísar nefnt til sögunnar.