fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Trump, Covid og kosningabaráttan – Martröð á martröð ofan

Heimir Hannesson
Laugardaginn 10. október 2020 14:30

mynd/getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hver skellurinn á fætur öðrum skekur herbúðir Donalds Trump þessa dagana. Nú blasir við allt önnur kosningabarátta en hann hafði vonast til að geta háð. Demókratar geta náð stjórn á Hvíta húsinu og báðum deildum þingsins með þessu áframhaldi.

Þegar rétt rúmar þrjár vikur eru til kosninga í Bandaríkjunum blasir við kjósendum þar undarlegur og gjörbreyttur veruleiki frá því fyrir viku síðan. Um síðustu helgi greindi forsetinn, Donald Trump, frá því að hann hefði greinst með COVID-19. Í vikunni gerðust svo atburðir sem fáa hefði getað órað fyrir.

Trump lagðist inn á Walter Reed-hersjúkrahúsið í útjaðri Washingtonborgar skömmu síðar. Ekki lauk sögunni þar, en á Twitter og í sjónvarpsútsendingu frá forsetaskrifstofu sjúkrahússins sagði Trump meðal annars að hann hefði það „stórkostlega“, að honum hefði „ekki liðið betur í mörg ár“, að ekki væri ástæða til að óttast COVID, og að COVID ætti ekki að stjórna lífi fólks.

Líklegt er talið að rót smitsins sem nú gengur manna á milli innan Hvíta hússins sé viðburður sem Trump hélt í Rósagarðinum við Hvíta húsið þann 26. september. Tilkynnti Trump þar tilnefningu hans á Amy Coney Barrett í sæti hæstaréttardómara sem losnaði við fráfall Ruth Bader Ginsburg fyrr í mánuðinum. Að minnsta kosti tíu hafa greinst með smit sem voru á þeim viðburði.

Fyrir utan hinn augljósa skell að greinast með veiru sem dregið hefur yfir 200.000 Bandaríkjamenn til dauða á örfáum mánuðum, þá er pólitíski skellurinn Trump þungur. Nánast frá upphafi faraldursins hefur Trump gert lítið úr honum og tillögum sérfræðinga að viðbrögðum, gert lítið úr viðbrögðum Demókrata í borgum eins og New York, sem fór mjög illa úr faraldrinum, og hæðst að grímunotkun mótframbjóðanda síns, Demókratans Joes Biden.

Skellur á skell ofan

Pólitískur skellur Trumps er margþættur. Fyrir utan þá neyðarlegu stöðu að vera nú smitaður eftir allt sem að ofan var lýst, þá eru þrír Repúblikanar í öldungadeildinni smitaðir af COVID. Er nú ljóst að fresta verður nefndarfundum í öldungadeildinni sem fara þurfa fram samkvæmt reglum um staðfestingu á tilnefndum dómurum í Hæstarétt. Óvíst er hvenær nefndin getur komið saman, en ljóst er að Trump á mikið undir því að nefndin klári sitt verk sem allra fyrst. Það yrði mikill sigur fyrir Trump að koma Barrett í dómarasætið fyrir kosningar enda myndi það bæði styrkja stöðu hans meðal íhaldssama og kristilega vængs flokks hans, og það mun óneitanlega setja þau málefni sem gerir Barrett umdeilda aftur á dagskrá. Tæknilega hafa Trump og samflokksmenn hans til 20. janúar á næsta ári til að klára staðfestinguna á Barrett, og fjögur ár í viðbót skyldi Trump sigra. Þó er ljóst að þeir munu reyna allt til þess að klára dæmið fyrir 3. nóvember, kjördag.

Trump sárvantar einmitt að koma málefnunum á dagskrá og færa umræðuna frá COVID. Sem fyrr segir eru 200.000 látnir og milljónir tilfella um allt landið. Hagkerfi landsins hefur fengið mikinn skell og eftir að myndir birtust af honum sjálfum, bindislausum, bersýnilega veikum, þá kunna margir Bandaríkjamenn að spyrja sig: Ef hann getur ekki verndað sjálfan sig, hvernig getur hann verndað mig?

Þriðji pólitíski skellurinn er að hann er nú fastur inni. Trump hefur frá upphafi sótt styrk sinni í fjölmenna fjöldafundi. Þar nýtur hann sín bersýnilega best, umkringdur stuðningsmönnum og í þeim kringumstæðum hefur hann vakið hvað mesta athygli. Það sýnir sig ef til vill best í því að svo til öll „stóru mál“ Trumps í kosningabaráttunni 2016, veggurinn á landamærunum við Mexíkó, harðari innflytjendastefna, að vernda bandarísk störf og tryggja þjóðinni hagstæðari viðskiptasamninga voru öll tilkynnt á þeim vettvangi.

Kosningabarátta Trumps fer nú að mestu leyti fram á Twitter. Trump hefur meira að segja þurft að draga úr auglýsingaherferð sinni sökum fjárskorts hjá framboðinu.

Forskot Bidens eykst

Trump hefur allt árið átt í vök að verjast og hefur fylgi Bidens frá formlegri tilnefningu hans sem forsetaframbjóðandi Demókratanna óslitið mælst hærra en fylgi Trumps. Trump mátti því alls ekki við atburðum vikunnar. En eins og DV fór yfir í síðasta blaði þá eru það fyrst og fremst niðurstöður einstakra ríkja sem skipta máli. Trump varð jú forseti árið 2016 með minnihluta atkvæða. Því er ekki úr vegi að skoða hvernig staða Trumps er eftir ríkjum.

Eins og svo oft áður eru allar líkur á því að endurkjör Trumps muni standa og falla með Flórída. Miðað við skoðanakannanir sem gerðar voru eftir ævintýralegar kappræður kappanna í þarsíðustu viku er Biden að auka forskot sitt um allt landið. Eftir stendur að nánast óhugsandi er að Trump sigri í kosningunum án sigurs í Flórída. Það er þó ekki nóg. Hann þyrfti að snúa Pennsylvaníu, Georgíu, Ohio, Michigan og Norður-Karólínu til sín. Það mun reynast honum þrautin þyngri. Skoðanakannanir sýna Biden með meirihluta í öllum þessum ríkjum. Ólíkindatólið Trump er þó líklegt til alls og ljóst að Repúblikanar hafa ekki, og munu ekki, gefast upp.

Leggja kapp á að halda í öldungadeildina

Meirihluti í öldungadeildinni er jafnframt undir í næstu kosningum. Benda kannanir til þess að Repúblikanar gætu verið að missa meirihluta sinn í efri deildinni. Fari svo að Repúblikanar missi Hvíta húsið og öldungadeildina fengi Biden nokkuð öflugt veganesti inn í fyrsta kjörtímabil sitt. Barack Obama, forveri Trumps í Hvíta húsinu, fékk sams konar veganesti en þótti hafa nýtt sér það illa. Síðasti Demókratinn til að njóta þess munaðar á undan Obama var Bill Clinton á sínum fyrstu tveimur árum í embætti, 1993-1995.

Kosið er um 35 sæti í öldungadeildinni að þessu sinni og benda skoðanakannanir til þess að Demókratar eigi vísan sigur í 14 þeirra og Repúblikanar í 18. Fleiri Repúblikanar eru nú að verja sæti sín en Demókratar og kosningarnar því Repúblikana að tapa. Samkvæmt skoðanakönnunum eins og þær blasa við í dag eiga Demókratar 49 sæti vís og Repúblikanar 48. Of lítill munur er á frambjóðendum í Montana, Iowa og NorðurKarólínu til að hægt sé að spá fyrir um úrslitin með nokkru móti. Mega íbúar þessara þriggja ríkja því búast við að sjá öll auglýsingapláss í blöðum, sjónvarpi og neti undirlögð kosningaáróðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt