fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Guðrúnar minnst með hlýjum orðum: „Hún fann á sér þegar óánægja var í uppsiglingu“ – Útför frá Hallgrímskirkju í dag

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 10. janúar 2020 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar árin 1999-2007, lést þann 31. desember síðastliðinn á líknardeild Landspítalans. Útför hennar fer fram í Hallgrímskirkju í dag.

Fjölmargir minnast hennar í Morgunblaðinu í dag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, kynntist Guðrúnu í Keflavíkurgöngu árið 1976:

„Hún hafði útgeislun á við heilt orkuver og ég ákvað að þessari stelpu ætlaði ég að kynnast. Ég lenti í partíi hjá henni um kvöldið og nokkrum dögum seinna boðaði ég komu mína í heimsókn til hennar sem átti eftir að marka upphafið að órjúfandi vináttu okkar.“

Þær störfuðu saman í Rauðsokkahreyfingunni, Kvennalistanum, Reykjavíkurlistanum og Samfylkingunni:

„Stuðningur Gunnu var ómetanlegur og það var einstakt að hafa hana með í borgarstjórnarflokki og þingflokki því hún gat lesið bæði einstaklinga og hópa eins og opna bók. Hún fann á sér þegar óánægja var í uppsiglingu og lagði sig fram um að skilja vandann og finna lausn. Hún var umburðarlynd og víðsýn, reyndi alltaf að setja sig í spor annarra og talaði máli þeirra sem áttu undir högg að sækja. En hún gat verið snögg upp á lagið og hafði litla þolinmæði fyrir sérgæsku og tilætlunarsemi. Hún sýndi vinum sínum mikla elsku en gat líka sagt þeim til syndanna ef henni fannst þeir eiga fyrir því. Þá átti hún til að setja sig í stellingar og tilkynna þeim „ég fer ekki ofan af því“.

Þannig var Gunna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og áður þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, minnist fyrstu kynna þeirra:

„Hönd var lögð á öxl mér, svo tekið utan um mig og sagt rámri röddu – nú verður sko gaman hjá okkur, Þorgerður! Ég leit á glaðlegt andlit Gunnu sem blikkaði mig og faðmaði hlýlega,“

segir hún og bætir við:

„Fyrir mig var Gunna aðdráttaraflið og drifkrafturinn. Fyrirmyndin. Hvernig hún umgekkst fólk og nálgaðist mál. Gunna var holdgervingur alls þess sem gerir samfélag raunverulega mennskt. Samtöl við Gunnu voru stefnumót við mennskuna.“ /

„Þessi klettur með rámu röddina. Sem í yfir 20 ár hefur alltaf minnt mig á gleðina og bent mér á vonina. Hvað sem á hefur bjátað. Þannig var Gunna. Einlæg, örlát, falleg, styðjandi, hvetjandi, umvefjandi. Allt til hins síðasta.“

Röddin hennar Gunnu Ö

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lýsir einnig sínum fyrstu kynnum af Guðrúnu:

„Það er ekki langt síðan ég kynntist Gunnu en strax á fyrsta degi fann ég fyrir þeirri hlýju og skilyrðislausa rausnarskap sem einkenndi hana. Það var nokkrum dögum eftir afhroð Samfylkingarinnar í kosningunum 2016 að síminn minn hringdi og karakterrík rödd, sem ég býst við að flestir þekki sagði: „Komdu og hittu mig uppi á Mokka, mig langar aðeins að spjalla við þig.“ Þetta var sem sagt röddin hennar Gunnu Ö. Við sátum síðan í vetrarsólinni undir suðurvegg kaffihússins og spjölluðum um alla heima og geima. Fljótlega áttaði ég mig á að tilgangur hennar var hvorki að leggja mér línur eða álasa neinum fyrir slæma útkomu flokksins, heldur að stappa í mig stálinu og láta vita að hún væri til staðar hvenær sem væri. Það var heldur glaðari og bjartsýnni maður sem hélt af hennar fundi en sá sem kom til hans.“

Ómetanlegt framlag

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir alla ríkari að hafa kynnst Guðrúnu:

„Mér þykir ótrúlega vænt um að hafa fengið að vinna með Gunnu að borgarmálum síðustu misserin en einhvern veginn var táknrænt að gleðigangan síðasta sumar hafi verið síðasta opinbera þátttaka Gunnu sem borgarfulltrúi áður en hún fór í veikindaleyfi. Bæði vegna ómetanlegs framlags hennar til baráttu hinsegin fólks og einnig vegna sólskinsins og ósvikinnar gleðinnar af því að lyfta fjölbreytileikanum og því góða og bjarta í samfélaginu sem svo sannarlega var þess virði að berjast fyrir.“

Þvert á flokkapólitík

„Alla tíð átti hún líka stuðning minn vísan. Kostir hennar, mannkærleikur og kraftur skein í gegn til allra þeirra sem við hana töluðu og líkt og svo margir aðrir var ég ætíð dygg stuðningskona hennar, þvert á flokkapólitík, því ég trúði á Gunnu sem manneskju,“

segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“