fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Innsetning forseta – Myndir frá athöfninni og ræða forseta

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 1. ágúst 2020 16:22

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson var setti inn í embætti forseta Íslands í dag við hátíðlega en látlausa athöfn. Helgistund í Dómkirkjunni og útgöngu forseta á svalir Alþingishússins, hvorttveggja rótgrónar hefðir, var sleppt að þessu sinni af sóttvarnarástæðum.

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

Meðfylgjandi myndir af athöfninni tók Ernir Eyjólfsson. Ræða forseta við innsetninguna fer hér á eftir:

„Góðir Íslendingar, landsmenn allir.

Ég tek nú við embætti forseta Íslands í annað sinn. Lotning og þakklæti eru mér efst í huga. Ég þakka það traust sem fólkið í landinu hefur sýnt mér. Ég þakka þá velvild sem við hjónin höfum notið. Og ég þakka fjölskyldu minni ómældan stuðning og kærleik.

Þessi athöfn er með öðrum brag en venja er. Því ráða varnir gegn veirunni skæðu sem hefur geisað hér og víðar, og geisar enn. Ég hvet ykkur, landar mínir, til að sýna áfram seiglu og samstöðu í glímu okkar við vágestinn. Leitt væri ef við létum beiskju eða reiði ná tökum á okkur núna, misráðið að leita blóraböggla í miðjum klíðum. Því hvet ég fólk líka til að fylgja áfram tilmælum stjórnvalda og forystusveitar okkar í almanna- og veiruvörnum. Vel meint gagnrýni er góðra gjalda verð en sundrung á þessari stundu gagnast engum.

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

„Hvernig er að vera forseti?“ Þannig spyrja kátir krakkar á förnum vegi og auðvelt er að svara að bragði að það sé einstakur heiður hvern einasta dag, aldeilis ágætt í alla staði. Ungmennin nota gjarnan tækifærið og hvetja til aðgerða vegna umhverfisvár og ofbeldis, misréttis og eineltis, hér heima og um víða veröld. „Hvað ætlar þú að gera í öllu þessu?“ spyrja þau.

Þá getur manni vafist tunga um tönn. Vissulega má benda á stöðu forseta í stjórnskipun landsins, án valds til beinna aðgerða og utan vettvangs stjórnmála frá degi til dags. Forseta er aðeins ætlað hlutverk á því sviði við sérstakar aðstæður, einkum við stjórnarmyndanir og stjórnarslit, að ógleymdum þeim rétti að synja lögum staðfestingar vegna eigin samvisku eða með hliðsjón af skýrum vilja stórs hluta kjósenda. En það er hér, á hinu háa Alþingi, sem við finnum þungamiðju hins pólitíska valds í landinu.

Ég þakka gott samstarf við þingheim, ráðherra og aðra í áhrifastöðum. Ég hlakka til frekari samvinnu á því kjörtímabili sem nú er hafið. Fari svo sem horfir fjalla þingmenn senn um breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið forseta Íslands. Væntanlega telja sumir óþarft að hrófla við þeim og aðrir réttast að fylgja því frumvarpi sem stjórnlagaráð samdi á sínum tíma. Fróðlegt verður að fylgjast með umræðum sem í hönd fara og sjálfsagt að leggja sitt til mála.

Að ýmsu er þó að huga. Frá fyrstu árum okkar lýðveldis hefur verið litið á þjóðhöfðingja Íslands sem sameiningartákn. Vísast hefur þeim fjölgað í tímans rás sem þykir það orð innantómt eða yfirlætisfullt, með réttu eða röngu. Auk þess yrði rangur póll tekinn í hæðina um okkar daga ef forseti teldi vænlegast stöðu sinnar vegna að segja ekkert það sem gæti valdið deilum í samfélaginu eða komið við kaunin á fólki. Þögn í nafni hlutleysis getur reynst varhugaverð, hinum voldugu í hag á kostnað þeirra sem minna mega sín.

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

Forseti þarf að geta tjáð hug sinn. Forseti getur ekki verið stikkfrí. Enginn er þó stærri en embættið sjálft. Sú eða sá, sem því gegnir, ætti ekki að leyfa sér þann munað að halda aðeins fram eigin skoðunum og óskum, eða skipa sér í fylkingu á velli átaka til þess eins að úlfúð aukist, engum til gagns.

Í fornum sögum okkar virðist þeim gjarnan hampað sem berjast af mestu kappi, fella flesta, láta aldrei sinn hlut. Gleymum því samt ekki að þeir eru einnig lofaðir sem stilla til friðar, miðla málum, leita sátta, bera klæði á vopnin. Og þegar vel er að gáð hæðast höfundar Íslendingasagna einatt að þeim ofstopafullu, þeim áfjáðu og þeim freku.

Hetjudýrkun er hjákátleg og ákaft lof um hinn sterka leiðtoga sömuleiðis ‒ jafnvel hættulegt eins og dæmin sanna. Valdi er best skipað þegar því er dreift. Sú leið, sem vörðuð var hér á Íslandi við lýðveldisstofnun, hefur þótt farsæl; að forseta séu veittar tilteknar heimildir sem beita skuli af gætni en þjóðhöfðingjanum beri einkum að stuðla að einingu í stað sundrungar, efla og styrkja það sem sameinar okkur, íbúa landsins.

Saman eigum við aldalanga sögu, merka menningu og eigin tungu. Við eigum einnig sýn um samfélag þar sem fólk getur sýnt hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla, þar sem hin aflögufæru inna af hendi sanngjarnan skerf til sameiginlegra þarfa, þar sem þeim er hjálpað sem eru hjálpar þurfi.

Blessunarlega erum við ólík um margt en saman metum við þó langflest víðsýni og mildi, fjölbreytni og frelsi. Höldum því áfram en forðumst um leið að festast í þröngri rétthugsun, verða ofurviðkvæm fyrir öndverðum skoðunum og hneykslast á hinu og þessu í kringum okkur. Látum það ekki sannast um okkur sem karlinn sagði, eða var það kerlingin? „Mér líður best þegar mér finnst allt verst.“

Víst er það svo að bölmóður á Bessastöðum yrði varla vel liðinn. Um leið má þó varast að draga upp glansmynd sem stenst ekki skoðun þegar vel er að gáð. Okkur gagnast ekki til lengdar að segja sögu okkar eins og við vildum helst að henni hefði undið fram, eða boða ofurbjarta framtíð sem við vitum innst inni að fær ekki staðist.

Þegar ég stóð í þessum sömu sporum fyrir fjórum árum vissi ég ekki frekar en aðrir hvað myndi á daga mína drífa. Líti ég örstutt um öxl minnist ég stjórnarmyndunarviðræðna og ýmiss atbeina á sviði stjórnmála, opinberra heimsókna og annarra ferða, hátíðarstunda og ótal atvika í dagsins önn. Og ég hef kynnst svo fjölmörgum innanlands og utan, ungum sem öldnum, valdhöfum og öllum almenningi, borgurum sem sigla sáttir lygnan sjó og hinum sem mæta mótbyr, þeim sem vilja berjast fyrir eigin málstað og annarra.

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

Já, margs er að minnast. Öll sú reynsla bliknar þó andspænis þeirri óvæntu vá sem dundi yfir okkur í byrjun þessa árs og ég gat um í upphafi míns máls.

Veiran lagði fólk að velli hér. Enn veikist fólk. Enn er bóluefni ófundið. Brýnar varnir hafa valdið þungum búsifjum. Sá skaði verður ugglaust enn meiri áður en yfir lýkur. Nú er sumar. En vetur nálgast.

Ekki er að undra ef fólk ber ugg í brjósti. Vágesturinn vakti okkur til vitundar um smæð okkar og vanmátt, þrátt fyrir alla okkar þekkingu, þrátt fyrir allar okkar framfarir. Hugum samt að þessu: Hvað sýndum við í faraldrinum, mörgum öðrum fremur? Við stóðum saman. Við nutum þess að eiga öflugt heilbrigðiskerfi þótt það megi bæta eins og önnur mannanna verk. Við nutum frábærs starfsfólks á þeim vettvangi og svo víða í samfélaginu. Við reiddum okkur á þekkingu og leiðsögn sérfræðinga, einvalaliðs á vegum hins opinbera og einkageirans ekki síður. Við mátum menntun og vísindi að verðleikum. Við leyfðum ekki tómlæti og lýðskrumi að ráða för.

Innsetning forseta. Mynd: Ernir Eyjólfsson

Látum þessa erfiðu reynslu á raunastund því færa okkur von en ekki víl. Látum vandann fram undan ekki letja okkur heldur efla til dáða. Látum ekki deigan síga.

Og hugum að lokum að þessu: Síðustu mánuði höfum við verið rækilega minnt á þá frumskyldu samfélags og ríkisvalds að vernda líf og heilsu fólks. Nú þegar mér er falið embætti forseta Íslands í annað sinn nefni ég þá ósk mína að við stefnum áfram og enn frekar að því að efla heilbrigði og vellíðan allra í þessu landi. Ég á mér þá ósk að við sinnum enn betur lýðheilsu og forvörnum í heilbrigðismálum, að við áttum okkur enn betur á því að í ys og þys nútímans er brýnt að huga að andlegri líðan, sporna við streitu og stressi, kulnun og kvíða. Sýnum því skilning. Sýnum samkennd og samúð en eflum líka með okkur þrautseigju og viljaþrek.

„Gull og metorð gagna ekki, gangir þú með sálarhlekki.“ Þau fallegu vísdómsorð ómuðu við þetta tilefni fyrir réttum fjórum árum og eru ætíð í góðu gildi. Núna var sungið um fallegan dag, draumbláan dag. Megi íslensk þjóð njóta slíkra stunda um alla framtíð. Megi okkur auðnast að búa við frið, frelsi og farsæld í þessu landi um ókomin ár.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG