Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, skrifar pistil í helgarblað DV sem nefnist Á þingpöllum. Í pistli vikunnar veltir hann upp þeirri spurningu hvort þingstörfum ætti frekar að vera gegnt í hlutastarfi.
Þorsteinn Víglundsson lét af þingmennsku á dögunum og tók við yfirmannsstöðu á hinum almenna vinnumarkaði. Þessar fréttir voru ágæt tilbreyting frá fregnum af fyrrverandi stjórnmálamönnum sem kvarta sáran undan því að fá ekki atvinnu við hæfi eftir að hafa yfirgefið stjórnmálin (sér í lagi ef flokkur þeirra er ekki í aðstöðu til að veita þeim bitlinga).
En hvers vegna ætti Þorsteinn ekki að geta sinnt hvoru tveggja, yfirmannsstöðu í fyrirtæki og þingmennsku? Er rétt að líta á störf á Alþingi eða í sveitarstjórnum sem eiginlega atvinnu þar sem menn öðlast starfsreynslu? Eiga þessi störf ekki í reynd meira sammerkt með félagsstörfum?
Fram á sjöunda áratug síðustu aldar var fátítt að menn gegndu þingmennsku eingöngu. Samkomutími Alþingis var fremur stuttur og nálega allir alþingismenn sinntu öðrum störfum meðfram þingmennskunni. Einu atvinnustjórnmálamennirnir voru þá þeir sem gegndu ráðherradómi hverju sinni.
Prófessorar, verkalýðsleiðtogar og bankastjórar
Ef litið er á starfsheiti þingmanna árið 1965 kemur í ljós að þá sátu á Alþingi fimm bændur, fimm framkvæmdastjórar, fjórir ritstjórar, þrír bankastjórar, þrír bæjar- og sveitarstjórar og tveir prófessorar. Sömuleiðis tveir verkalýðsleiðtogar, kaupmaður, múrari, stýrimaður og svo mætti áfram telja. Þarna mátti finna mikla breidd í störfum, en flestir höfðu náð langt á sínu sviði.
En það var einmitt um þær mundir sem farið var að takast á um það á Alþingi hvort þingmennskan ætti að vera fullt starf. Eysteinn Jónsson, formaður Framsóknarflokksins, vildi að menn legðu fyrir sig þingmennsku sem eiginlegan starfsvettvang. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var honum ósammála. Að mati Bjarna væri þingmönnum nauðsynlegt að gegna samhliða öðrum störfum úti í þjóðlífinu. Til þingstarfa ættu að veljast menn sem áunnið hefðu sér traust, hver á sínu sviði.
Eyjólfur Konráð Jónsson, ritstjóri Morgunblaðsins og alþingismaður, varaði við því um 1970 að þingmennskan yrði gerð að aðalatvinnu manna. Hann taldi vænlegra að fá góða menn til að gefa kost á sér til setu á Alþingi hefðu þeir fullvissu um að þeir gætu sinnt þingmennskunni samhliða öðrum störfum.
Svissneskir þingmenn í hlutastarfi
Svo fór að sjónarmið framsóknarmanna varð ofan á í þessu efni og atvinnumennskan á Alþingi jókst hratt. Nú er svo komið að nær allir þingmenn hafa lífsviðurværi sitt eingöngu af stjórnmálavafstri. Slíkt fyrirkomulag er þó ekki óumflýjanlegt. Svissneska sambandsþingið í Bern kemur saman fjórum sinnum á ári í um það bil þrjár vikur í senn. Ef þörf krefur er efnt til viðbótarsamkomu. Svissneskir stjórnmálamenn vilja síst af öllu vera kallaðir atvinnumenn í pólitík. Hugmyndin þar í landi er sú að þingmenn í hlutastarfi séu í betri tengslum við starfslíf úti í þjóðfélaginu. Einu atvinnustjórnmálamennirnir á svissneska þinginu eru ráðherrarnir átta. Thomas Minder, sem kjörinn var stjórnmálamaður ársins í Sviss 2013, rekur snyrtivöruverksmiðju. Í viðtali kvaðst hann umfram allt líta á sig sem athafnamann, en þar á eftir sem öldungadeildarþingmann utan flokka. „
… ask a busy man to do it“
Atvinnumennskan í stjórnmálum hefur raunar gengið lengra hér en í nágrannalöndunum því allir borgarfulltrúar Reykjavíkur, 23 að tölu, eru atvinnupólitíkusar og „fyrstu varaborgarfulltrúar“ á hverjum lista svo að segja líka, en þeir eru átta. Slíkt fyrirkomulag þekkist ekki einu sinni í milljónaborgum Norðurlanda.
Ég kynntist vel Páli Gíslasyni, yfirlækni og borgarfulltrúa, og leyfi mér að fullyrða að hann hafi komið fleiru til leiðar í borgarstjórn en flestir þeir sem þar sitja nú – í fullu starfi. Í ensku er stundum tekið svo til orða: „If you want anything done, ask a busy man to do it.“ Í þessu felast mikil sannindi. Við hljótum að vilja að til þátttöku í stjórnmálum veljist vinnusamt hæfileikafólk og hví ekki gefa fólki færi á að taka þátt í stjórnmálunum í hlutastarfi?
Að auka traust á stjórnmálunum
Kannski er hér fundin ein helsta skýringin á því hvers vegna traust á Alþingi og borgarstjórn er farið veg allrar veraldar. Dugmiklir einstaklingar ætla ekki að fórna þeim árangri sem þeir hafa náð í starfi fyrir þátttöku í stjórnmálum – enda ætlast til þess að þeir ýti öllu öðru til hliðar.
Hér má líka spyrja sig hvort almennar stjórnmálaumræður eigi ekki umfram allt að fara fram á vettvangi frjálsra félagasamtaka. Þær þurfa ekki að eiga sér stað í sal Alþingis í hverri viku. Þingið er vettvangur lagasetningar. Fólk sem sinnti þingmennsku í hlutastarfi gæti til að mynda ekki leyft sér að ræða við sjálft sig í pontu Alþingis vikum saman eins og nýverið átti sér stað. Ætla má að með því að draga úr atvinnumennskunni væri hægt að auka verulega traust almennings á íslenskum stjórnmálum.“