fbpx
Sunnudagur 25.október 2020
Eyjan

Braskvæðing er andstæða mannlífs og menningarlífs

Egill Helgason
Föstudaginn 31. janúar 2020 12:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er rannsóknarefni hvernig félög eins og Gamma eignuðust svo mikið af húsnæði í borginni eftir hrun. Félagið sem á Hverfisgötu 52, Bíó Paradís, heitir reyndar Karl mikli en þarna véla um menn sem gerðu Gamma að einum um stærsta eiganda húsnæðis í borginni. Og svo eru auðvitað fleiri félög, eins og til dæmis Reitir sem eiga mikið af húsum á miðbæjarsvæðinu – og áberandi að margt af því stendur autt.

Hafa svona félög ef til vill meiri hag af því að láta húsnæði vera autt og tómt en að leigja gegn nokkuð vægu verði – verði sem fólk er tilbúið að borga nú á nokkru samdráttarskeiði. Er þetta eitthvert bókhaldsdæmi? Spyr sá sem ekki veit.

Regnboginn, sem síðar varð Bíó Paradís, er byggður undir mjög sérhæfða starfsemi. Hæðin þar sem bíósýningarnar fara fram er djúp og dimm – þarna eru að mig minnir fjórir bíósalir. Maður á satt að segja erfitt með að sjá að húsið nýtist undir annað nema með ærnum tilkostnaði. Varla er hægt að stofna þarna túristabúð, ekkert veitingahús gæti staðið undir leigunni sem farið er fram á, það er varla hægt að breyta þessu í hótel – enda nóg af öðru húsnæði að hafa undir alla þá starfsemi sem hér er nefnd. Manni dettur helst í hug að þarna gæti verið diskótek eða næturklúbbur – nágrönnum til yndis og ánægju.

Samt er talað um markaðsverð. Hvert er markaðsverð á svona byggingu? Á hvað keyptu eigendurnir húsið á sínum tíma og í hvaða tilgangi? Svona má spyrja um fleiri sögulegar byggingar í bænum – því Bíó Paradís tengist kvikmyndasögu okkar vissulega sterkum böndum, þarna var til dæmis farið að halda kvikmyndahátíðir strax á áttunda áratugnum.

En ég nefni líka Pósthúsið og Lögreglustöðina – söguleg og gagnmerk hús sem lentu í eigu fasteignafélags og standa nú auð og tóm en þar sem var lífleg starfsemi til skamms tíma. Er hægt að nota annað orð um þetta en braskvæðingu – sem er andstæða blómlegs mann- og menningarlífs?

Reykjavíkurborg styrkir Bíó Paradís um einhverja upphæð á hverju ári, hún er reyndar ekki ýkja há og fasteignagjöldin eru þungur baggi. Meðal þess sem hún hefur fengð á móti er kvikmyndafræðsla fyrir grunnskólanemendur – og mætti auðvitað efla hana enn. Og Bíó Paradís gefur Hverfisgötunni líf, götu sem hefur verið gerð upp með ærnum tilkostnaði.

Borgin hefur þá afstöðu í seinni tíð að eiga helst ekki húsnæði. Þannig eru skrifstofur borgarinnar og mest af þjónustu hennar í leiguhúsnæði. Sjálfsagt er einhver hagfræði á bak við það. En það má minna á að á tíma Davíðs Oddssonar byggði borgin stærsta og fullkomnasta leikhús á Íslandi, Borgarleikhúsið. Reykjavík er ennþá eigandi Borgarleikhússins, sér um viðhald byggingarinnar auk þess að leggja leikhúsinu til 621 milljón – það er upphæðin á þessu leikári. Starfið í húsinu er alveg til fyrirmyndar.

Í ljósi þessa verður maður að staðhæfa – borgarstjórnin getur ekki látið eins og ekkert sé þegar Bíó Paradís, hinu sanna heimili kvikmyndanna, er bolað út úr Hverfisgötu 52. Afleiðingin verður sú ein að húsið stendur autt og tómt, engum til gagns, en sannarlega á „markaðsvirði“, en kvikmyndirnar fá hvergi heima því í sannleika sagt er ekkert annað hús í bænum sem hentar undir starfsemina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Leví: „Við því segi ég: Bull“

Björn Leví: „Við því segi ég: Bull“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Alvotech fær níu milljarða í aukið hlutafé

Alvotech fær níu milljarða í aukið hlutafé
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sjáðu þegar jarðskjálftinn reið yfir Alþingi

Sjáðu þegar jarðskjálftinn reið yfir Alþingi
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurjón segir þau vera verstu ráðherrana – „Ömurlegt viðhorf sem sýnir illan hug“

Sigurjón segir þau vera verstu ráðherrana – „Ömurlegt viðhorf sem sýnir illan hug“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flóðbylgja bréfatkvæða og flóknar og mismunandi reglur í bandarísku forsetakosningunum

Flóðbylgja bréfatkvæða og flóknar og mismunandi reglur í bandarísku forsetakosningunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sólveig ræddi launaþjófnað í Silfrinu – Samtök atvinnulífsins á móti sektarákvæðum

Sólveig ræddi launaþjófnað í Silfrinu – Samtök atvinnulífsins á móti sektarákvæðum