fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

„Afleitur stjórnmálamaður, lýðskrumari og lýgur að kjósendum“ – Hlustaðu á hvað Sigurður Ingi sagði um veggjöld árið 2017

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 30. september 2019 16:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sigurður Ingi Jóhannsson er afleitur stjórnmálamaður, lýðskrumari og lýgur að kjósendum til þess að ná í atkvæði fyrir hinn deyjandi Framsóknarflokk.“

Svo skrifar Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri Hringbrautar í dag og vísar í kosningaloforð formanns Framsóknarflokksins frá árinu 2017 þegar Sigurður Ingi sagðist í útvarpsþætti á Rás 2  í aðdraganda kosninga með þingmönnum Suðurkjördæmis, vera á móti veggjöldum:

 „Við erum náttúrulega á móti veggjöldum […] , það er ekki skrítið að ríkisstjórnin sprakk, hún hefði sjálfsagt sprungið í vetur, því að menn eru á hlaupum frá fjármálafrumvarpinu þar sem menn voru með hugmyndir einmitt í þessa átt að einkavæða enn þá frekar í samgöngukerfinu, setja fleiri hluti í einkaframkvæmd og fjármagna með vegtollum eða öðrum slíkum leiðum.“

Í upptökunni segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, einnig að flokkurinn sé á móti veggjöldum, en nú standa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ásamt VG að einum umfangsmestu samgönguframkvæmdum síðari ára, sem fjármagna á með veggjöldum.

Sigurður Ingi sagði einnig í ræðu á Alþingi að vegaframkvæmdir ættu að greiðast með sköttum og gjöldum, en nú boðar hann samgönguáætlun þar sem veggjöldin eiga að greiða upp framkvæmdir á 15 árum í stað 50:

„Sigurður Ingi barðist sem sagt gegn vegatollum fyrir kosningar. Nú stefnir hann á sem samgöngumálaráðherra að taka upp umfangsmestu umferðargjöld Íslandssögunnar. Það sem við lærum af þessu er einfalt: Sigurður Ingi Jóhannsson er lýðskrumari sem stendur ekki við það sem hann segir. Þú getur ekki treyst því að hann standi við kosningarloforð sín. Hann svíkur kjósendur sína og hikar ekki við að ljúga sig til valda, nú eða missir kjark þegar í þægilegan ráðherrastólinn er komið og buddan þyngist. Hann á ekki atkvæði þitt skilið. Aldrei,“

skrifar Kristjón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt