fbpx
Mánudagur 25.maí 2020
Eyjan

Samfylkingin krefst rannsóknarnefndar: „Slík vinnubrögð geta ekki talist viðunandi“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 23. september 2019 16:00

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar lagði í dag fram tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar til að kanna starfshætti lögregluvalds, ákæruvalds og dómsvalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, samkvæmt tilkynningu frá Samfylkingunni.

Með tillögunni er lagt til að rannsóknarnefndin fari ofan í saumana á mögulegri misbeitingu valds ásamt því að kanna hvort ólögmætum aðferðum hafi verið beitt við rannsóknir lögreglu á málinu og við meðferð dómstóla á árunum 1975 til 1980:

„Tilgangur þessarar tillögu er að fá loksins skiljanlegan botn í hin gömlu Guðmundar- og Geirfinnsmál með rannsókn á mögulegri misbeitingu valds og ólögmætum aðferðum, þeim veigamiklu þáttum sem réttarkerfið hefur aldrei treyst sér til að taka til skoðunar,“

segir í greinagerðinni,  en slík rannsókn hefur enn ekki átt sér stað. Rannsóknarnefndin yrði skipuð þrem einstaklingum í samræmi við lög um rannsóknarnefndir.

„Mikið hefur verið fjallað um málin og nýr sýknudómur frá 27. september 2018 varðandi manndrápsmálin tvö staðfestir að málsmeðferð var ekki samkvæmt lögum. Málsmeðferðin í heild hefur þó ekki verið rannsökuð markvisst né hefur hún sem slík komið til kasta dómstóla og því nauðsynlegt og löngu tímabært að fara yfir,“

segir í tilkynningu.

Greinargerð tillögunnar má lesa hér að neðan, hvar dómsmálið er rakið:

Greinargerð.

Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á mögulegri misbeitingu valds ásamt því hvort ólögmætum aðferðum hafi verið beitt við rannsóknir lögreglu á svonefndum Guðmundar- og Geirfinnsmálum og við meðferð dómstóla á árabilinu 1975–1980.

Fjölmargt hefur verið um málin fjallað og nýr sýknudómur Hæstaréttar frá 27. september 2018 varðandi manndrápsmálin tvö staðfestir að málsmeðferð var augljóslega ekki samkvæmt lögum. Málsmeðferð hefur þó ekki verið rannsökuð markvisst né heldur hefur hún sem slík komið til kasta dómstóla en nauðsynlegt er að ljúka málunum í eitt skipti fyrir öll með því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að fara yfir málsmeðferð alla. Svonefnd „harðræðisrannsókn“ Þóris Oddssonar frá 1979 var að vísu lögð fyrir Hæstarétt, en hafði lítil eða engin áhrif, enda má velta fyrir sér hvort tilurð og framkvæmd þeirrar rannsóknar sé sérstakt rannsóknarefni.
Skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál undir forystu Arndísar Soffíu Sigurðardóttur frá 2013 er ítarleg og þar eru fjölmargar vísbendingar um alvarlega misbeitingu valds ásamt því að farið hafi verið mjög á svig við lög og reglur. Þá hljóta niðurstöður réttar-sálfræðinganna Gísla H. Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar í 19. kafla skýrslunnar og í vitnaskýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. janúar 2016 að teljast hafa mikla þýðingu í þessu samhengi. Einnig má nefna harðræðisrannsókn Steingríms Gauts Kristjánssonar, skipaðs dómara, frá 1976, sem veitir vissa innsýn í harðræði sem beitt var í Síðumúlafangelsinu, þótt hún snúist um aðra fanga en þá sem um ræðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Loks er vert að vísa til úrskurða endurupptökunefnda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála þar sem gerð er ítarleg grein fyrir margvíslegum annmörkum á meðferð máls hvort tveggja hjá lögreglu sem og fyrir dómstólum.
Nú liggur fyrir sýknudómur Hæstaréttar varðandi manndrápsmálin tvö en dómur Hæstaréttar frá 1980 stendur enn óhaggaður að því er varðar rangar sakargiftir á hendur fjórum saklausum mönnum. Í hinum nýja dómi Hæstaréttar er ekkert fjallað um málsatvik heldur grundvallast niðurstaðan einvörðungu á kröfu setts ríkissaksóknara.
Strax af þeim gögnum sem lágu fyrir Sakadómi Reykjavíkur 1977 virðist augljóst að meginreglur sakamálaréttar hafi verið brotnar við margvísleg tækifæri. Augljósust og algengust virðast brot á skyldunni til að rannsaka jafnt þau atriði sem benda til sýknu og hin sem horfa til sektar. Í Guðmundarmálinu meinuðu sakadómarar lögreglumanni að rannsaka mögulega fjarvistarsönnun Sævars Ciesielski og í Geirfinnsmálinu létu dómararnir alveg undir höfuð leggjast að kanna sannleiksgildi fjarvistarsönnunar sem Sævar lagði sjálfur fram í bréfi til réttarins mánuði áður en réttarhöld hófust. Lýsingu Sævars í þessu bréfi á fréttamynd í sjónvarpinu ásamt nýju sönnunargagni, sem lagt var fyrir endurupptökunefnd, kallar Gísli H. Guðjónsson „…credible evidence that Saevar had an alibi …“ í bók sinni The Psychology of False Confessions (bls. 457) sem út kom 2018. Í gögnum málsins má líka finna nokkur þýðingarmikil dæmi þess að skýrslur hafi ekki verið teknar af vitnum þegar vitnisburðurinn þótti ekki benda í rétta átt.
Það virðist jafn augljóst að sakborningar voru sjaldnast látnir njóta vafans. Um þetta eru fjölmörg dæmi bæði í dómi Sakadóms Reykjavíkur 1977 og dómi Hæstaréttar 1980. Orðalag á borð við „Ætla verður …“, „Miða verður við …“ og „Leggja verður til grundvallar …“ ber ekki vott um fulla vissu. Bæði í sakadómi og Hæstarétti taldist sannað að Erla Bolladóttir hefði fengið far í tveimur áföngum frá Keflavík til Hafnarfjarðar að morgni 20. nóvember 1974. Gögnin að baki þessari fullyrðingu sýna þvert á móti að stúlkan sem þarna var á ferð gat ekki hafa verið Erla.
Dómarar, ákæruvald og verjendur fengu beinlínis fölsuð gögn í hendur þegar lögð voru fram „staðfest endurrit“ úr fangelsisdagbók Síðumúlafangelsisins. Fulltrúi yfirsakadómara færði ekki í dómabókina kæru Sævars Ciesielski um misþyrmingar þann 11. janúar 1976. Fyrir liggur skrifleg játning varðandi þetta atriði. Fleiri lögbrot virðast jafnframt líkleg. Reykjavíkurlögreglan handtók mann til að yfirheyra hann sem vitni. Forsendur gæsluvarðhaldsúrskurða virðast einnig stundum vafasamar og allt of óljóst tilgreindar.
Veigamikil rök hafa verið færð fyrir því að sakborningarnir í Geirfinnsmálinu hafi alls ekki farið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Dvöl Sævars Ciesielski og Erlu Bolladóttur á Kjarvalsstöðum þetta kvöld fer langt með að útiloka þann möguleika, auk þess sem komið hefur í ljós að sjónvarpið sýndi í raun og sann þá fréttamynd sem Sævar reyndi að lýsa í bréfi sínu til dómaranna í september 1977.
Eftir sýknudóm Hæstaréttar 27. september 2018 verða rangar sakargiftir ekki lengur skýrðar með samsæri þriggja sakborninga til að beina grunsemdum frá sjálfum sér. Af málsgögnunum virðist líka helst mega ráða að rannsakendur málsins, tveir rannsóknarlögreglumenn og fulltrúi yfirsakadómara, hafi fengið þrjá sakborninga til að bera vitni í þeim tilgangi að geta handtekið þá menn sem rannsakendurnir sjálfir töldu bera ábyrgð á dauða Geirfinns Einarssonar í tengslum við umfangsmikið áfengissmygl.
Endurupptökunefnd hafnaði endurupptöku á grundvelli b-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, en þar er fjallað um refsiverða háttsemi starfsmanna réttarkerfisins (Úrsk. SMC, mgr. 2820 og víðar). Stakk nefndin undir stól erindi Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns þar sem hann lagði fram nýtt gagn í málinu og færði einmitt rök fyrir því að „uppfyllt séu skilyrði refsingar“. Nefndin gat þessa erindis einungis í upptalningu og nefndi það „sjónvarpsdagskrá“, en þótt hér væri lagt fram alveg nýtt sönnunargagn fékk erindið alls enga umfjöllun. Slík vinnubrögð geta ekki talist viðunandi í nútímanum og ný rannsóknarnefnd Alþingis hlýtur að kalla eftir skýringum á þessu atriði.
Tilgangur þessarar tillögu er að fá loksins skiljanlegan botn í hin gömlu Guðmundar- og Geirfinnsmál með rannsókn á mögulegri misbeitingu valds og ólögmætum aðferðum, þeim veigamiklu þáttum sem réttarkerfið hefur aldrei treyst sér til að taka til skoðunar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af