fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Þegar blóði drifnir einræðisherrar skiptu á milli sín Austur-Evrópu: 80 ár frá griðasáttmála Hitlers og Stalíns

Egill Helgason
Föstudaginn 23. ágúst 2019 21:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannkynssagan er ekki á sérlega stórum tímaskala. Að hugsa sér, það eru ekki nema 80 ár í dag frá því Hitler og Stalín gerðu með sér sinn illræmda griðasáttmála! Hann var kenndur við Ribbentrop og Molotov, sem þá voru utanríkisráðherrar Þýskalands og Sovétríkjanna.

Ég er ekki orðinn gamalmenni ennþá, en það eru aðeins tuttugu ár frá því þessi samningur var undirritaður og þangað til ég fæðist. Jafnlangt og frá því ég byrjaði með Silfur Egils í sjónvarpi.

Aðeins viku eftir undirritun griðasáttmálans réðst þýski herinn inn í Pólland. Sáttmálinn gerði Þjóðverjum kleift að leggja undir sig vesturhluta Póllands, en á á móti kom Rauði herinn og lagði undir sig austurhluta landsins. Herir þjóðanna mættust í friði, en Pólverjar voru troðnir undir járnhælum hinna fjandsamlegu einræðisríkja. Síðar gátu Sovétríkin í skjóli sáttmálans lagt undir sig Eystrasaltslöndin, Lettland, Litháen og Eistland. Það er staðreynd sem mikið hefur verið reynt að breiða yfir að Þýskaland og Sovétríkin hrintu síðari heimsstyrjöldinni af stað í sameiningu.

Hitler tryggði að hann þyrfti ekki að berjast bæði á austur- og vesturvígstöðvum eins og hafði reynst þýska hernum svo erfitt í fyrri heimsstyrjöldinni. En aðeins tveimur árum síðar braut hann samninginn og skipaði herjum sínum að ráðast inn í Sovétríkin. Það kom Stalín í opna skjöldu. Um það skrifaði Halldór Laxness sem reyndar hafði mært griðasáttmálann á sínum tíma:

„Stalín var tortrygginn maður að eðlisfari og þó enn tortryggnari gagnvart vinum sínum en óvinum. Kommúnistum trúði hann aldrei. Það er talið erfitt að finna í samanlögðum æviferli hans nokkurt dæmi þess að hann hafi treyst manni, utan einum og aðeins einum; en þeim manni trúði hann líka í blindni. Sá maður var Adolf Hitler.“

Fyrir þrjátíu árum var kommúnisminn í Austur-Evrópu kominn að fótum fram. Það var 23. ágúst 1989, einmitt á fimmtíu ára afmæli griðasáttmálans, að íbúar Eystrasaltslandanna mynduðu keðju milli höfuðborga landanna. Fólkið stóð hönd í hönd, það er sagt að tvær milljónir manna hafi tekið þátt, keðjan var sex hundruð kílómetra löng. Eystrasaltsríkin tilheyrðu þá Sovétríkjunum, en ekki leið á lausu áður en þau urðu frjáls og fullvalda.

Það er ekki síst þar að griðasáttmálinn er lifandi veruleiki sem hefur mótað öll stjórnmál – og sú staðreynd blasir við að Þýskaland Hitlers og Sovétríki Stalíns byrjuðu heimsstyrjöldina í sameiningu. Fyrst lögðu Sovétríkin undir sig Lettland, Litháen og Eistland 1940 og hófu gríðarlegar hreinsanir – mikill fjöldi fólks var drepinn eða sendur í Gúlagið. En svona var sagt frá því í Þjóðviljanum á Íslandi:

Þá komu Þjóðverjar árið 1941. Margir íbúar gerðu þau mistök að fagna þeim, vegna haturs á Sovétsstjórninni. En þeir stóðu líka fyrir glæpum og hryllingsverkum og bættu heldur í. Síðan kom „frelsunin“ í lok heimsstyrjaldarinnar, en þá mættu Sovétherirnir aftur og voru í hefndarhug. Aftur hófust manndráp og flutningur í útlegð. Til dæmis voru 245 þúsund Litháar fluttir á brott nauðugir. Andspyrnan í skógum Eystrasaltslandanna stóð yfir í nokkuð mörg ár eftir að styrjöldinni lauk.

Griðasáttmálinn kom miklu róti á hreyfingu kommúnista í heiminum. Þetta var í kjölfar hinna miklu sýndarréttarhalda þar sem sakborningar voru meðal annars sakaðir um njósnir fyrir nasista. En nú var kommúnistum um víða veröld skipað að hætta að beita sér gegn nasismanum. Þannig voru íslenskir kommúnistar í þeirri skrítnu stöðu að þegar breskur her kom hingað 1940 voru Bretar fremur óvinurinn en Þýskaland Hitlers.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins