fbpx
Fimmtudagur 04.júní 2020
Eyjan

Lýðheilsulæknir um „Ölþingismenn“: „Íslenskir bjórframleiðendur þurfa að græða meira“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 11. mars 2019 09:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er þá satt sem þú hefur bent á – maður drekkur meira áfengi þegar það er svona auðvelt að kaupa það,“ sagði maðurinn minn um daginn. Við höfum nú dvalið í Kaliforníu þar sem áfengi er selt víða í verslunum.“

Svo ritar Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Hún segist hugsi um þessi orð eiginmanns síns þar sem áfengisfrumvarpið sé nú til umræðu á „Ölþingi“ í 11. skiptið:

„Rökstuðningur flutningsmanna frumvarpsins um að einkavæða áfengissölu og að leyfa áfengisauglýsingar er alls ekki með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Hér eru nokkur af þeim atriðum sem Ölþingismenn nefndu: íslenskir bjórframleiðendur þurfa að græða meira; aðgengi er svo mikið að við getum alveg eins aukið það meira; fyrst sumir brjóta áfengislögin þá skulum við bara afnema þau; leggjum áherslu á áfengisforvarnir næstu fimm árin því áfengisvandinn mun aukast með frumvarpinu; „áfengismenningin“ þarf að komast á hærra plan; svo skulum við ekki hafa vit fyrir öðrum, og síðast en ekki síst; þá mun fræðsla til almennings leysa öll vandamál.“

Lára skólar þingmenn til í lýðheilsufræðunum og segir að ef þeir sem standa að frumvarpinu hefðu lesið sér til, myndu þeir vita að fræðsla dugi skammt í áfengisvörnum:

„Það eru einmitt aðgerðir stjórnvalda eins og að takmarka aðgengi og sýnileika sem skila mestum árangri. Er þetta ekki komið gott eða þurfum við að setja áfengisfrumvarpsbann á Ölþingi?“

spyr Lára en viðurkennir að hún drekki sjálf úr hófi fram:

 „Sjálf get ég þulið upp neikvæðar afleiðingar áfengisneyslu en samt drekk ég meira en skynsemin segir mér. Ég skammast mín fyrir að segja það en svona getur maður verið ófullkominn. Ég leyfi mér samt að segja þetta því ég veit að ég er ekki ein um að fara ekki alltaf eftir því sem ég veit að er mér fyrir bestu.“

Ekki leyft í matvöruverslunum

Þorsteinn Víglundsson er fyrsti flutningsmaður frumvarps um verslun (smásölu) með áfengi og tóbak, sem miðar að því að sala áfengis verði gefin frjáls og heimilt verði að auglýsa áfengi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til dæmis að það verði ekki leyft í stórmörkuðum og matvöruverslunum.

Aðrir flutningsmenn þess eru Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Í greinargerð þess segir:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að í tilteknum sveitarfélögum verði heimilt að veita undanþágu frá meginreglunni um sérverslanir, enda sé talið óhagkvæmt sökum fámennis að reka sérverslun einungis með áfengi. Í þeim tilfellum skal áfengi vera í afmörkuðu rými eða í sérrými innan almennra verslana, þó þannig að áfengið verði ekki sýnilegt viðskiptavinum almennu verslunarinnar. Er þetta gert til þess að koma til móts við þau sjónarmið að fyrirkomulag sérverslana gæti reynst óhagkvæmt á landsbyggðinni. Ekki er lagt til í frumvarpi þessu að ÁTVR verði gert að hætta smásölu á áfengi. Afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis kallar engu síður á að starfsemi ÁTVR verði, í kjölfar lögfestingar frumvarpsins, tekin til endurskoðunar til að tryggja að nauðsynlegar breytingar á rekstri, reikningsskilum og upplýsingagjöf verði í samræmi við samkeppnisreglur, enda mikilvægt að einkaaðilar standi ekki höllum fæti í samkeppni við ríkið í smásölu áfengis.“

Þá er lagt til að heimilt verði að auglýsa áfengi með ákveðnum takmörkunum, eins og viðvörunarorðum um skaðsemi þess og ekki megi beina þeim að börnum né ungmennum. Tekið er fram að áfengisauglýsingar séu áberandi í krafti internetsins og í gegnum fjölmiðlun frá atburðum erlendis:

„Með aukinni netvæðingu hefur aðgengi innlendra neytenda að auglýsingum á áfengi aukist til muna og þykir því ljóst að núverandi bann hefur einna helst áhrif á innlenda framleiðslu og innlenda vöruþróun. Einnig hefur tíðkast um langa hríð að stærstu áfengisframleiðendurnir sem framleiða einnig léttöl hafa auglýst þá vöru með skírskotun til sambærilegrar áfengrar vöru og hafa þannig farið fram hjá banninu og notið þar samkeppnislegs forskots í kynningu. Þess ber einnig að geta að verði smásalan gefin frjáls án þess að auglýsingabann verði afnumið mun það skapa mikið ójafnvægi á milli smásölunnar og heildsölustigsins. Smásalar yrðu þá næsta einráðir um vöruframboðið og kynningu þess þar sem „auglýsingaplássið“ yrði í hillum og útstillingum verslana á meðan heildsalar og framleiðendur ættu ekki þann kost að koma vörum sínum á framfæri.“

Þá tekur frumvarpið einnig til þess að auka fjármagn til forvarna og fræðslu, til eflingar lýðheilsu:

„Til að sporna gegn óhóflegri neyslu áfengis er mikilvægt að fræðsla, forvarnastarf og meðferðarúrræði verði markvisst efld bæði faglega og fjárhagslega. Við fyrri framlagningar frumvarpsins var lögð til sú breyting að í stað þess að 1% af áfengisgjaldi rynni í lýðheilsusjóð yrði hlutfallið hækkað í 5%. Síðastliðið vor var ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur breytt og sú framkvæmd gerð að meginreglu að málefni fengju beina úthlutun af fjárlögum í stað þess að þeim væru markaðar tekjur. Var 7. gr. laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, sem kvað á um hvaða hlutfall áfengisgjalds skyldi renna í lýðheilsusjóð, felld brott í þessu skyni. Viðeigandi breyting hefur verið gerð á þessu frumvarpi en flutningsmenn þess leggja áherslu á að samhliða þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu verði framlög af fjárlögum til lýðheilsusjóðs stórlega aukin með það að markmiði að efla fræðslu og meðferðarúrræði til að sporna í meira mæli en nú er gert við skaðlegri, óhóflegri áfengisdrykkju. Aukna fjármuni ber jafnframt að nýta til rannsókna á áfengisneyslu þjóðarinnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Biskupsstofa segir Agnesi ekki hafa komið að ráðningu dóttur sinnar

Biskupsstofa segir Agnesi ekki hafa komið að ráðningu dóttur sinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðmundur Franklín segist ætla að lækka laun forseta um helming

Guðmundur Franklín segist ætla að lækka laun forseta um helming
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir ummælin tekin úr samhengi – „Þetta eru falsfréttir“

Segir ummælin tekin úr samhengi – „Þetta eru falsfréttir“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðmundur fær harða útreið – „Illa haldinn af athyglissýki og ofmati á sjálfum sér“

Guðmundur fær harða útreið – „Illa haldinn af athyglissýki og ofmati á sjálfum sér“