fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Segir framgöngu Áslaugar aumingjalega: „Spilling í sparifötum – Einmitt svona sem spillingin virkar á Íslandi“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 9. desember 2019 12:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er einmitt svona sem spillingin virkar á Íslandi. Of mörgum finnst í hjarta sér að valdafólk og auðmenn hafi meðfæddan rétt til lífsgæða, fyrirgreiðslu og vægðar sem hinir valdlausu og efnalitlu eiga ekki kost á. Saga Haraldar Johannessen í embætti ríkislögreglustjóra afhjúpar einmitt þessa rót spillingarinnar. Enginn hefur tekið á Haraldi af því að ykkur, sem valdið hafið, finnst að hann eigi að njóta forréttinda sem engin rök eru fyrir,“

segir Eva Hauksdóttir í opnu bréfi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra á Vísi í dag.

Þar gagnrýnir hún hvernig staðið var að starfslokum Haraldar Johannessen, sem lét af störfum ríkislögreglustjóra um síðustu mánaðarmót og fékk 57 milljón króna starfslokasamning:

„Mér ofbýður sú upphæð,“ segir Eva og bætir við:

„Öllu alvarlegri er þó sú undarlega ákvörðun þín að ætla að nýta þennan tudda sem ráðgjafa. Þú losaðir okkur semsagt ekki við hann eftir allt saman, þú lofaðir honum tugum milljóna og hann fær samt að hafa áhrif.“

Löng og ljót afglapaskrá

Eva telur að reka hefði átt Harald fyrir 19 árum, eftir að hann skvetti úr glasi yfir og hótaði heildsala á ölduhúsi, þegar viðkomandi sagðist ekki vita hver Haraldur væri:

„…afglapaskrá hans er orðin svo ljót og löng að það er ólíklegt að nokkurn tíma verði friður um störf hans og spillingin sem birtist í feitum starfslokasamningum er svo rótgróin að maður reiknar einfaldlega með henni.“

Eva nefnir að Áslaug hafi verið ósátt við umdeilt viðtal Haraldar í Morgunblaðinu, en samt lýst yfir trausti á Harald:

„Ekki dugði óánægja þín með viðtalið til þess að þú hrintir í gang skipulagsbreytingum sem hefðu getað losað okkur við Harald. Ekki hafðirðu heldur löngun í þér til að áminna hann. Framganga þín í þessu máli var hin aumingjalegasta og nú bætirðu um betur, tekur 57 milljónir úr ríkissjóði til þess að hygla þessum óverðuga embættismanni og ekki nóg með það heldur ætlarðu að nota hann sem ráðgjafa!“

Kerfislæg spilling

Eva segir að starfslokasamningurinn við Harald sé ekkert annað en mútur og spyr hvort þau séu fyrir að Haraldur opinberi ekki um hneykslismálið sem hann hótaði að upplýsa um í viðtalinu við Morgunblaðið:

„Íslenska spillingin er kerfislæg en það gerir hana ekkert skárri. Það heita ekki „mútur“ heldur „starfslokasamningur“ þegar þú gefur Haraldi fullt af peningum úr vösum annarra í skiptum fyrir eitthvað sem er ekki uppi á borðinu. Hvað fékkstu í staðinn Áslaug Arna? Bara frið fyrir kröfum lögreglunnar um að taka á hegðunarvandamálum ríkislögreglustjóra? Eða eitthvað meira? Tryggingu fyrir því að fráfarandi ríkislögreglustjóri geri ekki alvöru úr illa dulbúnum hótunum um að fletta ofan af einhverju hneyksli sem rúmast ekki innan hins íslenska spillingarkerfis? Eða er það þörfin fyrir áframhaldandi velþóknun flokkseigendafélagsins sem knýr þig?“

Fallin vonarstjarna

Eva nefnir að Áslaug Arna hafi fengið góðar móttökur frá bæði hægri og vinstri vængnum í stjórnmálum, en:

„Ég efast þó um að nokkur ráðherra í sögu lýðveldisins hafi verið jafn snöggur að fyrirgera trúverðugleika sínum og þú. Þínar gjörðir flokkast ekki sem mútur enda hvílir engin leynd yfir þeirri gríðarlegu fjárhæð sem þú lofaðir Haraldi og kollegar þínir í ríkisstjórninni virðast sáttir við aumkunarverða réttlætingu þína fyrir því að mylja undir Harald Johannessen og tryggja honum áframhaldandi áhrif. En spilling er það nú samt. Spilling sem birtist í því að fólk eins og þú misnotar völd sín í þágu einkahagsmuna. Þið gerið það bara eftir löglegum eða í það minnsta viðurkenndum leiðum. Spilling sem hefur efni á því að vera grímulaus af því að kerfið sjálft stendur vörð um hana. Við erum vön slíkri spillingu og ég reikna ekki með að þessi ráðstöfun þín hafi nein eftirmál. Meðhöndlun þín á máli Haraldar er nefnilega dæmi um spillingu í sparifötum og flest okkar eru samdauna þeirri hefð að allt sem klæðist vel sniðnum jakka sé ósnertanlegt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega