fbpx
Sunnudagur 12.júlí 2020
Eyjan

„Þar fór öndvegismaður“ – Sjálfstæðismenn minnast Birgis Ísleifs – Davíð rifjar upp gamansögu

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 8. nóvember 2019 11:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, seðlabankastjóri og menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, lést þann 28. október á líknadeild Landspítalans, 83 ára að aldri.

Fjölmargir minnast Birgis í Morgunblaðinu í dag, þar af þrír síðustu formenn Sjálfstæðisflokksins, auk Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Más Guðmundssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar:

„Í hinum ágæta borgarbrag Austurstræti eftir Ladda er sungið um mannlífið í miðborginni. Í lokin spyr aldurhniginn sögumaðurinn, dolfallinn yfir breytingunum, „ætli hann Birgir viti af þessu“. Að baki þeirri gamansemi bjó þó sú alvara, að fólk gerði ráð fyrir að ekkert í borginni væri Birgi Ísleifi óviðkomandi og að hann stýrði því öllu af öryggi. Það gerði hann líka. / Hann breytti Austurstræti í göngugötu, sem Laddi söng öðrum þræði um, og þar má segja að endurnýjun miðborgarinnar hafi í raun hafist./ Hlýja og ræktarsemi einkenndi Birgi Ísleif og fór ekki fram hjá neinum sem honum kynntist. Ekki heldur sá listræni þráður, sem var svo ríkur í honum.“

Féll í trans djassins

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins segir Birgi hafa verið betur lesinn jafnt í innlendum sem erlendum stjórnmálum en flestir sem hafa gert það að meginstarfi sínu:

„Hann var mjög prúður maður almennt og í stjórnmálaskiptum þótt enginn kæmi þar að tómum kofa eða kæmist upp með fleipur eða yfirgang gagnvart honum eða þeim málstað sem hann bar alla tíð fyrir brjósti. Hann var vinnusamur og iðinn, skipulagður og snar til verka ef þurfti. Hann leitaði frekar sátta en að láta aflið eitt ráða og var seinþreyttur til vandræða. Hann var viðkunnanlegur, þótt hann hleypti ekki alltaf mörgum nærri sér. Hann var gleðimaður á stundum sem til slíks eru ætlaðar og sat löngum við píanóið í Höfða eftir að borðhaldi lauk. Lét hann lagleysi félaga sinna yfir sig ganga af einstæðu umburðarlyndi en notaði svo sem síðasta hálftímann í hvert sinn til að falla í trans djassins og hreinsaði þá væntanlega út linnulaust garg kvöldsins úr eyrum sér.“

Áfallið 1978

„En hann lenti í pólitískum andbyr eins og flestir reyna sem ná langt í íslenskum stjórnmálum. Hans versta áfall var auðvitað það er „borgin féll“ í kosningunum 1978, eins og það heitir á máli okkar sjálfstæðismanna. Og má segja að þar hafi pólitísk óheppni komið við sögu þessa annars lánsama stjórnmálamanns. Því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk hlutfallslega betra fylgi en hann hafði fengið 1970, en nú varð skipting atkvæða á flokka honum óhagfelld. Kosninganóttin var löng og erfið. En þegar öll atkvæði höfðu verið talin nema þau sem greidd voru utan kjörfundar virtist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að halda meirihluta sínum af þokkalegu öryggi. Því töldu flestir flokksmenn að þeir hefðu komist fyrir vind því að reynslan hafði verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn færi betur frá atkvæðum sem greidd voru utan kjörfundar en andstæðingarnir. Það varð ekki í þetta sinn. Í blöðum birtust svo myndir af borgarstjóranum þegar honum urðu úrslitin ljós og verður hún mörgum ógleymanleg. Ástandið í stjórnmálum á þessum tíma, sem lýst var í síðasta Reykjavíkurbréfi, varð til þess að flokksfólk felldi ekki sök á Birgi. En honum leið ekki vel,“

segir Davíð, en Sjálfstæðisflokkurinn náði vopnum sínum á ný með kosningasigri 1982.

Tímafrek afmæliskveðja

Þá minnist Davíð einnar gamansögu af Birgi:

„Þegar Birgir Ísleifur varð fertugur 19. júlí 1976 var hann vakinn eldsnemma við bílflaut og dyrabjöllu. Á tröppunum stóð prúðbúinn vinur hans, Jón E. Ragnarsson, kominn færandi hendi með afmælisgjöf. Bað hann Birgi að stíga út á tröppurnar til sín og njóta hennar með sér. Á Fjölnisveginum stóð vörubíll frá Þrótti af stærri gerðinni. Hóf bílstjóri hans að reisa pallinn mikla hægt og virðulega og það gerði hann svo fjörutíu sinnum í röð. Jón E. gaf þá skýringu að lögreglusamþykkt bannaði að skotið væri af fallbyssum af þessu tilefni. „Ég þakka guði fyrir að eiga afmæli í júlí en ekki janúar eins og þú,“ sagði Birgir síðar, „því þá hefði Jón E. drepið mig úr lungnabólgu. Ég gat ekki ímyndað mér hvað vörubíll er rosalega lengi að lyfta sturtu sinni fjörutíu sinnum. Ég vona að Jón mæti ekki aftur þegar ég verð áttræður.“

Síðhærður borgarstjóri

Þorsteinn Pálsson segir kynni sín góð af Birgi:

„Hvort heldur menn áttu samleið með Birgi Ísleifi Gunnarssyni um lengri eða skemmri tíma, kynntust honum náið eða bara nokkuð, fór enginn varhluta af því að þar fór öndvegismaður. Hann var hógvær í allri framgöngu og réttsýnn. Um leið sýndi hann í störfum sínum hvort tveggja framsýni og viljafestu. Hann var þó maður sátta fremur en átaka./

Það var einhvern tímann á fyrstu mánuðum Birgis Ísleifs sem borgarstjóra að ég fór með nokkra norræna laganema af sextíu og átta kynslóðinni, sem hér voru staddir, á landsleik í handbolta. Þar rákumst við á Birgi Ísleif. Eftir á höfðu gestirnir orð á því að þeim hefði komið á óvart að borgaralegur hægri flokkur skyldi hafa gert ungan mann, lítið eitt síðhærðan og með opinn huga fyrir ákalli nýs tíma, að borgarstjóra. Þessi ummæli hafa verið föst í minni mínu. Og nú finnst mér að þau segi sína sögu í minningu hans.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Ja-ja ding dong
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kennir Sjálfstæðisflokknum um Káraklúðrið

Kennir Sjálfstæðisflokknum um Káraklúðrið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fangelsinu á Akureyri lokað til að nýta peningana betur annars staðar

Fangelsinu á Akureyri lokað til að nýta peningana betur annars staðar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Pútín birti grein í Morgunblaðinu

Pútín birti grein í Morgunblaðinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dvínandi stuðningur við ríkisstjórnina en þó meirihluti

Dvínandi stuðningur við ríkisstjórnina en þó meirihluti