fbpx
Fimmtudagur 04.júní 2020
Eyjan

Er Bandaríkjamönnum treystandi? Þurfa Íslendingar að snúa sér annað?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 8. október 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að Íslendingar hafa ríka ástæðu til að vera á varðbergi gagnvart Bandaríkjamönnum. Til skamms tíma hafa Íslendingar ekki efast um að Bandaríkjamenn séu góðir bandamenn og æskilegir verndarar. Þorsteinn segir að ýmislegt bendi til að taka þurfi þessa afstöðu til endurskoðunar.

Þetta kemur fram í grein sem Þorsteinn birti á vef Hringbrautar í dag. Þorsteinn rifjar upp viðskilnað bandaríska varnarliðsins hér á sínum tíma en íslensk stjórnvöld voru mjög andsnúin brottför þess. Núna hafi hins vegar áhugi Bandaríkjamanna á legu landsins vaknað á ný. Þorsteinn skrifar:

„Nú vilja Bandaríkin koma á ný og bjóða um leið fríverslunarsamning. Bandaríkin hafa skýr markmið. Ríkisstjórn Íslands fagnar þeim en hefur þó ekki sett sér nein sjálfstæð markmið í þessum samskiptum í ljósi nýrra aðstæðna. Það er umhugsunarefni.“

Þorsteinn rekur síðan svik Bandaríkjamanna við Kúrda og sérkennileg samskipti þeirra við Úkraínu. Enn fremur minnist hann á andstöðu Bandaríkjamanna við aðgerðir gegn loftslagshlýnun:

„Í stríðsátökunum í Sýrlandi voru Kúrdar traustustu bandamenn Bandaríkjanna. Fyrir nokkrum dögum ákváðu Bandaríkin að stinga þá í bakið með því að leyfa Tyrkjum að fara með her gegn þeim. Sólarhring síðar hótuðu Bandaríkin að leggja efnahag Tyrklands í rúst ef þeir gengju of langt gagnvart Kúrdum. Allar voru þessar yfirlýsingar gefnar með tilvísun í mikla og óviðjafnanlega visku valdhafanna.

Nýlega kom í ljós að Bandaríkin hafa bundið skuldbindingar sínar gagnvart Úkraínu leynilegum skilyrðum. Til þess að hernaðaraðstoð verði virk þurfa úkraínsk stjórnvöld að beita réttarkerfinu gegn mögulegum mótherja forseta Bandaríkjanna. Skammt er síðan Bandaríkin freistuðu þess að hafa bein áhrif á framgang réttvísinnar í Svíþjóð. Og þau vildu á sama tíma kaupa Grænland.

Í loftslagsmálum vinna Bandaríkin gegn markmiðum annarra ríkja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu. Í Evrópu vinna Bandaríkin að því að sundra samstarfi þjóðanna í efnahags- og viðskiptamálum.  Þetta samstarf hefur reynst Íslandi happadrjúgt eins og sjá má í nýrri skýrslu um árangurinn af aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Aðildin hefur verið ein af helstu stoðum efnahagslegs fullveldis landsins.“

Þorsteinn, sem áður var formaður Sjálfstæðisflokksins en hefur gengið til liðs við Viðreisn, bendir á að sá flokkur ásamt Samfylkingunni, vilji fá fram fræðilega skoðun á því hvernig Íslendingar geti best tryggt pólitíska og efnhagslega stöðu sína á alþjóðavettvangi. Á meðan láti ríkisstjórnin eins og ekkert hafi í skorist í samskiptunum við Bandaríkjamenn. Þess má geta að bæði Viðreisn og Samfylkingin eru flokkar sem hallir eru undir aðild Íslands að ESB.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af