Peter Handke var nokkuð vinsæll höfundur á mínum yngri árum, en ég verð að viðurkenna að ég var eiginlega búinn að gleyma að hann væri til. Maður þekkti hann reyndar aðallega óbeint vegna tengsla hans við þýsku nýbylgjuna í kvikmyndum. Wim Wenders gerði myndir eftir verkum Handkes: Die Angst des Tormanns beim Elfmeter, Falsche Bewegung og svo átti Handke textann fallega í upphafi kvikmyndarinnar Himmel über Berlin. Hann gerði líka leikrit um sögu Kaspars Hauser – nokkru áður en Werner Herzog gerði kvikmynd um hann. Pétur Gunnarsson þýddi bók eftir Handke á íslensku, hún kom út 1987 og nefnist Barnasaga.
Nú fær Handke Nóbelsverðlaunin í bókmenntum ásamt pólska rithöfundinum Olgu Tokarczuk. Þetta kemur dálítið á óvart. Tveir rithöfundar frá Mið-Evrópu. Hann Austurríkismaður, hún pólsk. Almennt var búist við því að eftir hneykslismálin sem hafa skekið Nóbelsverðlaunin undanfarin ár og urðu þess valdandi að verðlaunin voru ekki veitt í fyrra, myndi verðlaunanefndin leita út fyrir Evrópu. Það var meira að segja skopast með að það væri öruggt að kona frá einhverju þróunarlandi myndi hreppa verðlaunin.
En Handke var almennt ekki á listanum. Ekki aðeins hefur hann sjálfur lýst yfir fyrirlitningu á verðlaununum, það var árið 2014 þegar hann hvatti til þess að þau yrðu lögð niður, hann kallaði þau þá „falska dýrlingaupphefð“, heldur hefur hann líka verið í litlum metum síðan á tímanum þegar hann gerðist einlægur stuðningsmaður stríðsglæpamannanna Slobodans Milosevic og Radovans Karadczic.
Þetta var á tíma stríðsins á Balkanskaga – gleymum því ekki að Austurríki er þar skammt fyrir norðan. Heimsbyggðin var full af hryllingi vegna ódæðisverka. Handke gerði lítið úr fjöldamorðunum í Srebrenica og fór svo algjörlega yfir strikið þegar hann líkti framkomunni við Serba við meðferðina á gyðingum í seinni heimsstyrjöld. Hann fór í útför Milosevic og hélt ræðu. 2006 átti að afhenda honum svonefnd Heinrich Heine-verðlaun í Düsseldorf, en á síðustu stundum var hætt við það vegna stuðnings hans við Serbíu.
Á þeim tíma fékk hann fyrir ferðina hjá ýmsum kollegum sínum í rithöfundastétt. Salman Rushdie kallaði hann „alþjóðlegan bjána ársins“ – það var árið 1999. Rushdie segir nú að hann standi við það sem hann sagði þá. Ýmsir fleiri hafa orðið til að mótmæla verðlaunaveitingunni til Handkes, þar á meðal Slavoj Zizek, Orlando Figes og hin bandaríska deild PEN-samtakanna.
Handke er ágætlega merkur höfundur, þótt margir höfundar séu ekki síður og kannski betur að verðlaununum komnir en hann. En þetta er einkennilegt val hjá Nóbelsverðlaunanefnd sem er að reyna að komast undan fargi stórra hneykslismála.
Ég segi eins og er að Olgu Tokarczuk þekki ég lítið, en ætla að reyna að kynna mér hana. Mér sýnist hún vera forvitnilegri en Handke. Hún er aðeins fimmtánda konan sem fær Nóbelsverðlaun af 116 verðlaunahöfum. Pawel Bartoszek skrifaði á Facebook.