fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Horft yfir þingveturinn – Bitlaus stjórnarandstaða í skugga tæps meirihluta

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 29. júní 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Heilt yfir finnst mér ágæt samstaða í ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að vera ósammála í ýmsu. Sjálfstæðisflokkur hefur þurft að gefa eftir varðandi einkaframtök í heilbrigðisgeiranum og Vinstri græn hafa þurft að gefa eftir þegar kemur að afstöðu til NATO og slíks. Gagnrýni frá hægri á Sjálfstæðisflokkinn er að hann sé alltof eftirgefanlegur þegar kemur að ríkisútgjöldum og sköttum. Það er prísinn fyrir að vera í ríkisstjórn en mér finnst þessar málamiðlanir hafa gengið ágætlega hingað til,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræðideild við Háskóla Íslands.

Stefanía Óskarsdóttir.

Óvenju löngum þingvetri er nú lokið þar sem heildarlengd þingfunda fór í rétt rúmlega 865 klukkustundir. Leita þarf aftur til hrunáranna, 2009 til 2010, til að finna lengri heildarlengd þingfunda, en þá voru þeir 886 klukkustundir. Stefanía telur ríkisstjórnina standa sterka en vegna tæps meirihluta stjórnarinnar verði stjórnarandstöðuflokkarnir, fyrir utan Miðflokkinn, bitlausir.

„Mér finnst ríkisstjórnin hafa siglt tiltölulega lygnan sjó og náð að halda dambi. Ríkisstjórnarflokkarnir halda nokkuð vel í kjörfylgi í skoðanakönnunum og það hefur ekki staðið mikill styr um ráðherra í ríkisstjórn, fyrir utan Sigríði Andersen sem neyddist til að segja af sér,“ segir Stefanía og vísar þar í ráðningar dómara við Landsrétt sem Mannréttindadómstóll Evrópu taldi brjóta gegn 6. grein Mannréttindasáttmálans. „Hún virtist segja af sér vegna þrýstings frá Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni. Málið er dautt í bili en það á svo eftir að koma í ljós hvort Sigríður kemur aftur inn í ríkisstjórn. Það er ekkert loku fyrir það skotið að Sigríður komi aftur og verði jafnvel ráðherra í öðru ráðuneyti.“

Sigríður Andersen. Myndir: DV/Hanna

Þurfa að finna sína fjöl

Stefanía segir að stjórnarandstaðan sé að vissu leyti í basli vegna tæps meirihluta ríkisstjórnarinnar.

„Það liggur í hlutarins eðli að ríkisstjórn með tæpan meirihluta og sem nær yfir hægri til vinstri, að það byggir allt á málamiðlunum og slík ríkisstjórn er ekki líkleg til að hrinda í framkvæmd mjög umdeildum stefnumálum. Stjórnarandstaðan verður þá bitlausari. Stjórnarandstaðan er í basli með að finna sína fjöl, fyrir utan Miðflokkinn í þessu orkupakkamáli, enda hefur ekki verið fljúgandi sigling á stjórnarandstöðuflokkunum í skoðanakönnunum. Það er ekki gefið að stjórnarandstöðunni gefist mikið færi á að ná flugi. Miðflokkurinn hefur verið í fókus út af andstöðunni við orkupakkann. Á móti kemur að flokkurinn var í miklum fókus fyrir jól í Klausturmálinu. Þá héldu sumir að þessi flokkur væri búinn að vera, en það mál hefur fallið í skuggann á þessari hörðu stjórnarandstöðu sem hefur verið haldið uppi í þinginu.“

„Ef samdráttur heldur áfram fer gamanið að kárna“

Eitt af stóru málunum sem blöstu við ríkisstjórninni var að ná góðum kjarasamningum svo átök á vinnumarkaði myndu ekki blossa upp. Það náðist með lífskjarasamningnum svokallaða. Enn standa eftir samningar við opinbera starfsmenn og ekki alveg í hendi að þeir samningar takist jafn vel. Það sé þó eitt af stærri málunum sem taka við eftir sumarfrí þingmanna, að mati Stefaníu, sem og jafnvægi í þjóðarbúskapnum og að halda verðbólgu og atvinnuleysi í skefjum. „Ef samdráttur heldur áfram fer gamanið að kárna,“ segir Stefanía. Aðspurð hvort þetta séu sérstaklega spennandi tímar í pólitík segir hún það í raun bæði og.

„Það er ágætt að fá tímabil þar sem allt er ekki í brjálæðislegum látum. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi þannig að maður veit aldrei hvenær allt verður brjálað. Ég er ekki örugg með stöðugleikann, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig pólitíkin hefur verið síðustu tíu árin. En það er ákveðin ró um mál sem mér persónulega líkar.“

Sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokk

Mikið hefur verið rætt um ólgu innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja orkupakkans og að Miðflokkurinn hafi náð að fresta afgreiðslu málsins þar til eftir sumarfrí. Stefanía telur allar líkur á því að málið verði afgreitt strax eftir sumarfrí, enda því gefinn takmarkaður tími á dagskrá þingsins. Hún telur ekki ljóst hvort málið dragi dilk á eftir sér þegar litið er til vinsælda Sjálfstæðisflokksins.

„Það getur orðið til þess að stuðningur Sjálfstæðisflokks færist á Miðflokkinn, en ég gæti jafnvel átt von á því að það hafi þegar gerst, líkt og við sáum í kosningunum árið 2017. Þetta skapar nýja stöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar miðjufylgi og frjálslynt fylgi. Þannig að það eru kostir og gallar í þessari stöðu.“

Miðflokksmenn í miðju málþófi.

Málþófið mikilvægt vopn

Tíðrætt hefur verið um að breyta þingsköpum til að takmarka tíma þingmanna í ræðustóli til að koma í veg fyrir málþóf, líkt og það sem skapaðist í kringum orkupakkann. Stefanía telur litlar líkur á að þeim reglum verði breytt á næstunni.

„Þessi aðferð, að beita málþófi, skilar ákveðnum árangri fyrir stjórnarandstöðuflokkana. Það er alveg augljóst. Allir flokkar á þingi hafa einhvern tímann verið í stjórnarandstöðu og notað þetta vopn til að hafa áhrif á lok þingstarfa. Þeir eru því ragir við að breyta þingsköpum og ræðutíma nema um það sé sátt. Þetta byggir allt á einhvers konar málamiðlun á milli stjórnarmeirihluta og -minnihluta. Það er möguleiki að festa í sessi ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn fjöldi kjósenda eða tiltekinn fjöldi þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki auðvelt að breyta þessu og hangir að einhverju leyti saman við breytingar á stjórnarskrá.“

Katrín Jakobsdóttir Mynd: DV/Hanna

Þingvetur í tölum

Þingið var að störfum frá 11. september til 14. desember 2018 og frá 21. janúar til 20. júní 2019.

Þingfundardagar: 113
Fjöldi þingfunda: 129
Heildarlengd þingfunda: 865 klukkustundir
Meðallengd þingfunda: 6 klukkustundir og 42 mínútur
Lengsti þingfundurinn: 24 klukkustundir og 16 mínútur
Lengsta umræðan: 138 klukkustundir um þriðja orkupakkann

Af 262 frumvörpum urðu 120 að lögum.
Af 151 þingsályktunartillögu voru 47 samþykktar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki