„Sennilega hafa flestir Íslendingar sungið um manninn sem heldur á könnunni. En þetta er maðurinn sem lagið „Minning um mann“ fjallar um.“
Svo segir í pistli Jóns Ragnars Ríkharðssonar, sjómanns og formanns verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, sem fjallar um viðfangsefni þessa fræga lags sem Gylfi Ægisson gaf út árið 1973 og var endurútgefið árið 2013 í 40 ára afmælisútgáfu.
Lagið er um ‚Arna „Gölla“ Valdason, sem fæddist árið 1905. Jón segir um Gölla að þrátt fyrir vandræði með Bakkus hafi hann verið vel liðinn og minnist einnar sögu sem sé lýsandi fyrir hann:
„Hann þótti góður sjómaður og þrátt fyrir vinfengi við Bakkus sóttust menn eftir að hafa hann um borð. Skemmtilegur félagi, góður verkmaður og hlífði sér aldrei við vinnu – slíkir menn eru alltaf dýrmætir um borð í öllum skipum. Hann reri talsvert með Binna í Gröf og eitt skiptið þurfti að stoppa við bryggju til að taka olíu eða vistir (fylgdi ekki sögunni). Gölli (sem umræddur maður var kallaður en Árni hét hann) spurði Binna hvort hann mætti ekki skreppa í göngutúr.
Binni efaðist um að skynsamlegt væri að hleypa kallinum í land en ákvað samt að taka sénsinn. En Gölli hafði fullvissað skipstjórann sinn um að hann myndi ekki smakka dropa af víni. Svo var klárt til brottfarar en ekki sást til Gölla þannig að Binni gerðist óþreyjufullur mjög. Skyndilega birtist hásetinn dauðadrukkinn á bryggjunni og hann kom slagandi um borð.
Binni bókstaflega trompaðist og hellti sér yfir Gölla sem svaraði skipstjóranum drafandi röddu: „Binni minn eru ekki allir aðrir en ég bláedrú um borð?“ Því var svarað játandi af miklum þunga og þá sagði Gölli: „það verður einhver að sjá um óregluna á þessum dalli vinur og er nokkuð verra að það sé ég? Það eru engir betri í óreglunni en ég eins og þú veist“:
Þetta svar varð til þess að Binna rann reiðin og hann gat ekki annað en hlegið að þessum dykkfellda skipverja – sem þrátt fyrir allt var einn af hans öflugustu mönnum.“
Að lokum segir Jón:
„Svona menn mega aldrei gleymast því þeir gerðu þjóðinni meira gagn en margir bindindismenn sem telja sig afskaplega merkilega menn.“