fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

„Íslenska ríkisstjórnin er opin fyrir að undirrita samkomulag við Kína“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 16. maí 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, ritar grein í Morgunblaðið í dag, hvar hann fer yfir kosti eins umfangsmesta þjóðríkjasamstarfs sögunnar, sem nefnist Belti og Braut (The Belt and Road Initiative) eða BRI og er hugarfóstur Xi Jinping, leiðtoga Alþýðuveldisins Kína, síðan 2013.

Eyjan greindi frá viðtali sendiherranns  á Hringbraut um helgina, þar sem fram kom að íslensk stjórnvöld væru að íhuga að gerast þátttakendur í samstarfinu og að miklir peningar væru í spilinu, en verkefnið er talið vera um 10 sinnum stærra en Marshallaðstoðin sem Bandaríkjamenn veittu 16 Vestur- Evrópuríkjum í kjölfar eyðileggingar síðari heimsstyrjaldarinnar, sem Ísland naut góðs af einnig.

Sú upphæð nam tæplega 30 milljónum Bandaríkjadala sem í dag gera um 38 milljarða króna, en var á verðgildi þess tíma 630 milljónir króna. Árleg útgjöld ríkissjóðs í þá daga námu um 260 milljónum króna.

Sjá einnig: Íslensk stjórnvöld íhuga risastóra peningagjöf frá Kína – Marshallaðstoðin bliknar í samanburði

Gull og grænir skógar

Upphæðin sem stendur Íslandi nú til boða er öllu hærri, ef marka má orð Zhijian sendiherra og virðist „tilboðið“ nú vera orðið opinbert.

„Nú um stundir hefur Kína undirritað BRI-samninga við 127 lönd og 29 alþjóðastofnanir. Viðskiptalegur ávinningur Kína og landanna sem taka þátt í BRI hefur farið yfir 6 trilljónir Bandaríkjadala með fjárfestingu sem nemur meira en 80 milljörðum Bandaríkjadala. Yfir 300.000 störf hafa skapast og aðildarríkin hafa fengið rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala með auknum skatttekjum.“

Þessi stefna Kína hefur verið harðlega gagnrýnd, sérstaklega af stjórnvöldum í Bandaríkjunum, sem segja stjórnvöld í Kína vera að kaupa sig til áhrifa.

Engin pólitík, bara tækifæri

Zhijian segir stefnuna ekki vera pólitískt tæki heldur frábært tækifæri:

„Beltis og brautar-frumkvæðið (BRI) kemur frá Kína en árangur frumkvæðisins er ávinningur heimsins alls. Fjöldi staðreynda sýnir að BRI er ekki „skuldagildra“ en er frekar sameiginleg „þjóðarkaka“ aðildarríkjanna. Frumkvæðið er ekki „pólitískt tæki“ en það má lýsa því sem frábæru tækifæri til sameiginlegrar framþróunar. Æ fleiri Evrópulönd hafa ákveðið að taka þátt í BRI, og hefur Kína nú þegar undirritað samninga við 17 ESB-lönd þar á meðal Ítalíu, Lúxemborg, Grikkland, Ungverjaland og Portúgal. Samstarfið milli Kína og Evrópu undir ramma BRI er sífellt að styrkjast og bera ávöxt.“

Allt sem Ísland þarfnast á einu bretti

Í grein sinni rekur sendiherrann sex liða áætlun sem samstarfsgrundvöll við Ísland og segir stjórnvöld hér á landi opin fyrir samstarfinu:

„Íslenska ríkisstjórnin er opin fyrir að undirrita samkomulag við Kína um BRI-samstarf. Einnig hafa ýmsir aðilar úr viðskiptalífinu og frá öðrum sviðum sýnt mikinn áhuga á að taka þátt í BRI. Ég trúi einlæglega að BRI gæti þjónað sem nýr vettvangur og gæti opnað ný tækifæri til samstarfs milli Kína og Íslands í tengslum við eftirfarandi meginþætti: Í fyrsta lagi að auka tengsl milli Kína og Íslands. Með stuðningi regluverks BRI og stuðningi fjármálastofnana eins og AIIB og Silkileiðarsjóðsins (Silk Road Fund), geta Kína og Ísland unnið saman að því að byggja upp tengslanet á landi, sjó, lofti og á alnetinu. Einnig geta þjóðirnar unnið saman að styrkingu ferðaþjónustu, Norðurskauts Silkileiðarinnar (Polar Silk Road), beinu flugi milli landanna og þróunar á 5G samskiptakerfum, sem myndi stuðla að tvíhliða samvinnu á öllum sviðum.“

Þess má geta að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gerði á dögunum samkomulag við Kína um menningarsamstarf sem og gagnkvæma viðurkenningu háskólanáms milli landanna, en samstarfið við Kína hófst fyrir alvöru árið 2013 þegar Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu í Peking fríverslunarsamning milli Íslands og Kína. Síðan þá hafa mýmargir samningar fylgt á eftir, á sviði viðskipta, landbúnaðar, tækni og vísinda, svo eitthvað sé nefnt.

Kína sem stóri bróðir ?

Þess má geta að Donald Trump Bandaríkaforseti undirritaði í nótt forsetatilskipun þess efnis að bandarískum fyrirtækjum er bannað að kaupa þjónustu af kínverskum fjarskiptafyrirtækjum, á borð við Huawei, þar sem þau eru talin geta ógnað þjóðaröryggi.

Huawei fyrirtækið er eitt það fyrirferðarmesta í uppbyggingu 5G kerfisins, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, en Trump telur að kínversk yfirvöld geti þannig nýtt sér 5G tæknina til njósna og eftirlits.

Kína hefur einnig unnið með Rússlandi að málefnum norðurslóða. Í tilkynningu um opið málþing um það vaxandi samstarf í Háskóla Íslands segir:

„Frá 2017 hefur Kína unnið að framkvæmd norðurslóðastefnu sinnar og hefur áætlun þeirra um belti og braut verið útvíkkuð til norðurs. Þrátt fyrir að hafa í upphafi haft vissar efasemdir um aðkomu Kína að málefnum norðurslóða hefur ríkisstjórn Putins sóst eftir auknu samstarfi við Kínverja til að efla eigin norðurslóðastefnu. Samstarf ríkjanna í norðri hefur því undanfarið snúist að miklu leyti um að byggja upp Silkileið norðursins, með áherslu á siglingar og uppbyggingu innviða. Þá hafa Rússland og Kína einnig aukið samstarfið í rannsóknum sem gefur Kína aukið vægi í umræðunni um norðurslóðir.

Nýleg gagnrýni Bandaríkjaforseta á samstarf Kína og Rússlands á norðurslóðum gæti haft önnur en tilætluð áhrif og í raun ýtt undir frekara samstarf Rússlands og Kína í stað þess að hindra það. Silkileið norðursins gæti því greitt leiðina og orðið vettvangur að norðurslóðum fyrir aðra aðila og þannig ögrað núverandi kerfi, jafnvel Norðurskautsráðinu. Áhugavert er  að velta fyrir sér hver viðbrögð Bandaríkjanna og Norðurlandanna við auknu samstarfi Rússalands og Kína á norðurslóðum kunna að verða.“

Svipmyndir frá Silkileið norðursins: Vaxandi samstarf Kína og Rússlands á norðurslóðum er haldinn Þriðjudaginn 21. maí frá kl. 12:00-13:00 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands. Fundurinn er opinn og á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir við Háskóla Íslands.

Ísland verði hluti af kínversku fjölskyldunni

Að lokum segir sendiherra Kína á Íslandi:

„Miklar vonir eru bundnar við að Ísland geti orðið fjölskyldumeðlimur í BRI-samstarfinu eins fljótt og auðið er. Kína er reiðubúið að vinna með Íslandi við að nýta ný tækifæri til þróunar og skapa bjartari sameiginlega framtíð fyrir samskipti milli Kína og Íslands.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus