Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og aðrir fulltrúar Samherja mæta á fund bankaráðs Seðlabanka Íslands í dag. Þetta hefur Eyjan eftir staðfestum heimildum.
Ekki er vitað hvað verður rætt um á fundinum, dagskrá fundarins liggur ekki fyrir og fundargerðir bankaráðs Seðlabankans eru ekki gerðar opinberar. Heimildir Eyjunnar benda þó til að umræðuefnið verði ógilding Hæstiréttar á stjórnvaldssekt bankans í garð Samherja, fyrir meint brot á gjaldeyrislögum.
Málið fór af stað vorið 2012 með húsleitum Sérstaks saksóknara og gjaldeyriseftirliti Seðlabankans á skrifstofum Samherja. Í kjölfarið kærði Seðlabankinn Samherja. Ári síðar kærði Seðlabankinn Þorstein Má og þrjá aðra stjórnendur Samherja persónulega til sérstaks saksóknara vegna sömu ætluðu brota. Bankinn sektaði Samherja árið 2016 og þann 8. nóvember síðastliðinn staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms um að bankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja.
Þorsteinn Már hefur sagt að það verði ekki komist hjá því að kæra Má Guðmundsson Seðlabankastjóra til lögreglu og að Már og Sigríður Logadóttir, yfirlögfræðingur bankans, verði leyst frá störfum vegna rangra sakargifta í garð Samherja. „Það verður ekki hjá því komist að kæra Má Guðmundsson til lögreglu vegna rangra sakargifta,“ sagði Þorsteinn Már í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í þessum mánuði. „Hvað við kærum marga fer að sjálfsögðu eftir því hvernig þeir sem bera ábyrgð á bankanum ætla að haga sér.“ Þorsteinn hefur einnig kallað eftir gögnum Seðlabankans um málið, sagði hann í viðtali við fyrr í mánuðinum að bankinn hafi gert mistök við einfalda meðaltalsútreikninga. Orðstír Samherja hafi beðið hnekki vegna málsins og hafi misst af viðskiptatækifærum vegna þess.
Sjá einnig: Þorsteinn Már:„Ekki hjá því komist að kæra Má Guðmundsson til lögreglu“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var gagnrýnd vegna aðkomu sinnar að málinu strax eftir dóm Hæstaréttar, fyrir að taka með silkihönskum á Má Guðmundssyni Seðlabankastjóra. Hún sagði að dómurinn hefði ekki áhrif á stöðu Más, málið væri ekki þannig vaxið. 12. nóvember sendi Katrín bréf til formanns bankaráðs Seðlabankans, þess efnis að bankinn hefði fram til 7. desember til að gera grein fyrir Samherjamálinu og með hvaða hætti bankinn hygðist bregðast við dómi Hæstaréttar. Í bréfinu minnti hún Seðlabankann á að lög um bankann væru til heildarendurskoðunar í ráðuneytinu.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og fyrrverandi ráðherra, er formaður bankaráðsins. Þórunn Guðmundsdóttir er varaformaður. Aðrir sem sæti eiga í ráðinu eru þau Sigurður Kári Kristjánsson, Frosti Sigurjónsson, Bolli Héðinsson, Una Marín Óskarsdóttir og Jacqueline Clare Mallet.
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri er iðulega á fundum bankaráðs en hann verður ekki á fundinum í dag, samkvæmt heimildum Eyjunnar er hann að sinna öðrum verkefnum og mun vera á leið til útlanda.