
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi og veraldlegt lífsskoðunarfélag, sem hefur hingað til boðið upp á veraldlega nafngjöf, borgaralegar fermingar, giftingar og útfarir, færir nú út kvíarnar. Hafa samtökin stofnað húmanískt viðbragðsteymi sem ætlað er „að sinna sálgæslu á veraldlegum grunni“, líkt og segir í tilkynningu. Sú þjónusta er ætluð því fólki sem þarf á aðstoð að halda vegna persónulegra mála, hefur til dæmis lent í áföllum af einhverju tagi, eins og veikindum eða missi nákomins.
Bjarni Jónsson er framkvæmdarstjóri Siðmenntar. Hann segir að ekki sé sjálfgefið að fólk þurfi að leita til Þjóðkirkjunnar ef það lendir í slíkum vanda:
„Þetta hefur verið hátt í tvö ár í undirbúningi. Við höfðum orðið vör við það í okkar starfi að það væri vöntun á slíkri þjónustu og því höfum við sett saman hóp sálfræðinga og fagfólks sem hefur tekið á þessu einna mest og best í gegnum tíðina. Fólk sem lendir í einhverskonar áfalli þarf því ekki endilega að leita til Þjóðkirkjunnar,“
segir Bjarni.
Í tilkynningu Siðmenntar er talað um að samtökin veiti sálgæslu, en það orð er óneitanlega bundið við trúarleg gildi . Er Siðmennt að viðurkenna tilvist sálarinnar með þessu ?
„Góð spurning. Þetta var nú sérstaklega rætt hjá okkur, það kom til greina að nota orðið stuðningur líka, en við ákváðum að nota þetta orð þar sem að það lýsir þessu ferli best og búið er að koma því vel á framfæri. Þarna skilja allir hvað átt er við og því þurfum við ekki að byrja á því að útskýra við hvað er átt. En svarið er nei, við viðurkennum ekki tilvist sálarinnar.“
En hvernig verður þjónustan ? Er hún sambærileg við þá þjónustu sem prestar Þjóðkirkjunnar veita, til dæmis á sjúkrahúsum ?
„Hvað þjónustu presta varðar, þá er alveg vert að spyrja hvort einhver hafi kannað hvort allir þeir sem leggjast inn á spítala séu trúaðir ? Samkvæmt könnun sem Siðmennt lét Maskínu framkvæma um trúarafstöðu, þá er minnihluti landsmanna trúaður. Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur mun halda utan um þetta verkefni okkar og hún hefur á sínum snærum hóp fagfólks, sálfræðinga, lækna, iðjuþjálfa og félagsráðgjafa sem munu veita fyrsta flokks þjónustu. “
Í tilkynningu Siðmenntar segir:
Þjónustan verður á veraldlegum grunni og hentar því öllum. Hún verður gjaldfrjáls félagsmönnum en fyrir aðra er innheimt hóflegt gjald.
Þjónustunni er ekki ætlað að vera meðferðarúrræði heldur bjóða félagsmönnum og öðrum sem til félagsins leita upp á fyrsta samtal um málefni þeirra og vísa þeim síðan á fagaðila utan Siðmenntar til áframhaldandi úrvinnslu eða meðferðar.
Verkefni sem í fyrstu er ætlað að sinna eru:
– Fyrsta samtal við félagsmenn um úrræði og þaðan vísað til fagaðila
– Sálgæsla á veraldlegum grunni
– Stuðningur við athafnastjóra ef alvarleg mál koma upp
– Vera stjórn innan handar í málum sem koma upp og varða stuðning
– Veita samtal um málefni félagsmanna sem leita eftir stuðningi þegar þeir lenda í „krísum“.
– Veita áfallahjálp utanaðkomandi aðila
Dæmi um mál sem hafa borist félaginu:
– Ráðgjöf varðandi útfararskrá
– Ráðgjöf vegna dauða foreldris barna og unglinga
– Áfallahjálp og nærvera vegna sjálfsvígs
– Samtöl við einstaklinga sem eru deyjandi t.d. vegna krabbameins
– Viðtöl við deyjandi aldraða einstaklinga
– Aðstoð við útfarir lítilla barna
– Einstaklingur með sjálfsvígshugmyndir
– Krísa í samskiptum fjölskyldu
Hópur félagsmanna Siðmenntar með menntun og reynslu við störf sem sálfræðingar, læknar, iðjuþjálfar og önnur fagleg störf þessu tengd annast þjónustuna. Síðar meir er hugsanlegt að nokkrir athafnastjórar sem þjálfað hafa með sér færni í gagnvirkri hlustun geti sinnt hluta af þessum málum.
Ákveðið var að bjóða upp á þjónustuna þar sem leitað hefur verið til félagsins með ósk um aðstoð en einnig atvik í starfi stjórnarmanna og athafnastjóra sem krefjast slíkrar ráðgjafar.

Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur mun leiða verkefnið. Hún hefur áratuga reynslu í starfi sem sálfræðingur og kom að stofnun áfallateymis Rauða krossins.