
Brynjar Níelsson skrifar pistil á Facebook-síðu sína í hádeginu, hvar hann agnúast út í vinstrið fyrir að kenna sig við frjálslyndi, þegar ná þarf til yngri kjósenda. Nefnir hann dæmi um Sósíalistaflokkinn á sjöunda áratugnum, þegar klofningur úr flokknum nefndi sig Samtök frjálslyndra og vinstri manna, en nýlegri dæmi um Viðreisn, Samfylkingu og Pírata. Segir hann þó lítið um frjálslyndi í þessum flokkum, sem eigi það sameiginlegt að vilja allir eftirlit ríkisins með því sem einstaklingar geri, „oftast í nafni réttlætis og jafnréttis.“
Í ummælainnleggi við færsluna er Brynjar sagður kasta steini úr glerhúsi, þar sem sjálfstæðismenn eru sagðir „óttalegir forræðishyggjublesar“ og að frelsi einstaklingsins eigi sér fáa málsvara á þingi, það sé einna helst Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati, sem sinni því.
Brynjar tekur undir þessi orð í sínu innleggi, en samþykkir þó ekki ummælin um Helga Hrafn:
„Það er rétt, að við sjálfstæðismenn erum engir sérstakir málssvarar einstaklingsfrelsis um þessar mundir. En það er mikill misskilningur að Helgi Hrafn sé þar fremstur. Hann er venjulegur krati.“
Sambúðin í ríkisstjórnarkommúninni með Vinstri grænum virðist því hafa þau áhrif á Sjálfstæðisflokkinn, að þingmenn hans viðurkenna fúslega að hans helstu frelsisgildi, jafnan kennd við John Stuart Mill, séu sett til hliðar á meðan flokkurinn er við völd. Það kann varla góðri lukku að stýra meðal gamalgróinna Eimreiðarmanna og er víst að Hannes Hólmsteinn snúi sér við í skrifborðsstólnum við þessi orð Brynjars.