Samkvæmt nýrri umfangsmikilli rannsókn er öll áfengisneysla heilsuspillandi. Hún er sögð hrekja þá mýtu um að áfengisneysla í hófi sé góð fyrir heilsuna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
„Við þurfum að horfast í augu við það að áfengisneysla er dauðans alvara. Þetta er afar sannfærandi rannsókn og vel framkvæmd. Hin stórfelldu áhrif áfengisneyslunnar á lýðheilsu hljóta að leggja þá ábyrgð á herðar stjórnvalda að gera sitt til að draga úr henni,“
segir Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár.
Hún segir rannsóknina hrekja hugmyndina um að hófleg áfengisneysla sé heilsubætandi, sem sé nýmæli:
„Þau sýna fram á þetta með því að kanna heildaráhrif áfengisneyslu á alla áfengistengda sjúkdóma. Þá kemur í ljós að þótt hófleg neysla geti lækkað áhættu á blóðþurrðar-hjartasjúkdómum og á sykursýki hjá konum, þá gerir hin aukna áhætta á krabbameinum og fleiri sjúkdómum meir en að vega upp þau áhrif. Einnig er hér leiðrétt fyrir því að samanburðarhópurinn í mörgum eldri rannsóknum, það er hópurinn sem ekki drakk neitt áfengi, hafði óeðlilega háa dánartíðni því í honum voru margir sem höfðu hætt áfengisneyslu af heilsufarsástæðum.“
Aðalhöfundur rannsóknarinnar er doktor Emmanuela Gakidou hjá Lýðheilsuvísindastofnun Washington-háskóla (IHME). Niðurstaðan var birt í læknaritinu Lancet í gær en rannsóknin tekur til 30 milljón einstaklinga í 195 löndum.
„Það er gríðarleg heilbrigðisáhætta tengd neyslu áfengis. Niðurstöður okkar eru í samræmi við aðrar nýlegar rannsóknir sem sýndu fram á skýra fylgni milli drykkju og ótímabærs dauða, krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma. Það að neyta ekki áfengis dregur heilt yfir úr líkum á því að verða fyrir heilsutapi,“
segir Gakidou.
Alls neytir 1/3 hluti mannkyns áfengis, eða um 2,4 milljarðar manna. Rekja má dauðsföll af völdum áfengistengdra heilbrigðisvandamála til 2,2 prósenta kvenna og 6,8 prósenta karla. Árið 2016 mátti rekja 10% allra dauðsfalla í heiminum til neyslu áfengis, á aldursbilinu 15- 49 ára.