
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, ætlar að leggja fram frumvarp á þingi um breytingu á núgildandi áfengislögum sem banna heimabruggun. Frumvarpið var fyrst lagt fram árið 2015. Í dag varðar refsingin fyrir heimabrugg allt að sex ára fangelsisvist. Helgi vill afnema bannið og leyfa þar með framleiðslu áfengis til einkaneyslu, þar sem lögin séu úrelt. Hann vísar til þess að heimabruggun sé orðin það algeng að réttarstöðu fólks sé ógnað með lögunum, en lögreglan hefur ekki sett það í forgang hjá sér að framfylgja þeim.
„Þessi hái refsirammi þýðir að lögreglan hefur mikið svigrúm til rannsókna á slíkum málum og þetta er í raun tifandi tímasprengja, því að ef lögreglan ákveður einn daginn að framfylgja þessu banni, þá er réttarstaða margra í mikilli hættu,“
segir Helgi Hrafn. Hann segir það algengan misskilning fólks að það sé aðeins bannað að selja heimabrugg, en það sé leyfilegt til einkaneyslu:
„Það er mikið um heimabrugg í samfélaginu og fólk virðist hreinlega ekki vita að þetta sé bannað með lögum. Það er engin almenn hneykslan yfir þessu og ekkert gert til að stöðva það eða sporna við því. Líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, þá eru sérstök áhugasamtök til um heimabrugg sem heita Fágun og þau starfa fyrir opnum tjöldum, koma fram í viðtölum og annað. Meira að segja einn borgarfulltrúi Pírata er meðlimur samtakanna.“
Helgi óttast ekki að samfélagið fari á hliðina út af þessu máli, líkt og gerðist með áfengisfrumvarp Sjálfstæðisflokksins um að leyfa sölu áfengis í verslunum. Hann segir málin gerólík:
„Það mál snerist ekki um einstaklingsfrelsi heldur viðskiptafrelsi. Málið með heimabruggið snýst um frelsi einstaklingsins, friðhelgi heimilisins og réttaröryggi fólks. Það kann að virðast sem að ég sé bara í þessu til að leyfa heimabrugg, en mér er nokk sama um það hvort fólk bruggi eða ekki, þetta snýst um stöðu fólks gagnvart yfirvaldinu.“
Samkvæmt heimildum Eyjunnar innan raða lögreglunnar, er frumvarpi Helga Hrafns fagnað, þar sem lögreglan hafi ekki séð ástæðu til þess hingað til að ryðjast inn á heimili fólks þó það vilji brugga vín eða bjór. Hinsvegar horfi málinu öðruvísi við þegar um sölu landa til ungmenna ræðir, enda sé það allt annars eðlis og geti verið stórhættulegt heilsu fólks vegna vafasams innihalds.