„Fólkið hér var að störfum alla vikuna og lagði sig fram án þess að fá laun né skýringar á stöðunni. Fullmönnuð ritstjórn af góðu fólki með vilja til að halda áfram að gefa út blað og leggjast á árarnar þó reksturinn væri erfiður,“ segir Þóra Tómasdóttir ritstjóri Fréttatímans í færslu á fésbókinni. Hún segir vikuna hafa verið sorglega.
Þá vandar hún Gunnari Smára Egilssyni, útgefanda blaðsins og meðritstjóra hennar, ekki kveðjurnar:
„Við reyndum ítrekað að ná í útgefanda blaðsins í vikunni og boðuðum hann á fund sem hann varð ekki við. Það skýtur skökku við þegar skipstjórinn hleypur frá á ögurstundu, lætur sig hverfa og virðir ekki samstarfsfólk viðlits þegar það hefur ekki fengið greidd laun. Á sama tíma sá hann sér fært að ræða við fjölmiðla um stofnun nýs stjórnmálaflokks sem hyggist berjast fyrir völdum og hagsmunum launafólks í landinu. Starfsmönnum Fréttatímans var ekki skemmt,“ segir Þóra.