Þolinmæði baðgesta í sundlaugum Reykjavíkur yfir kæruleysi erlendra gesta við að þvo sér áður en þeir fara ofan í laugarnar virðist á þrotum.
Hans Kristján Árnason viðskiptafræðingur og einn af stofnendum Stöðvar 2 skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni undir fyrirsögninni „Sundlaugamenningu okkar sturtað niður …:“
Íslensk sundlaugamenning er eins og við erum alin upp við; sturtubað með sápu án baðfata.
Ef erlendir gestir geta ekki samlagast þessari sundlaugamenningu okkar á að vísa þeim á dyr. (Þannig myndu aðrar þjóðir afgreiða okkur ef við virtum ekki þeirra reglur og menningu …)
Því miður stendur Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sig ekki í stykkinu. Og langt því frá.
Það er sorglegt að þurfa að vera vitni að eyðileggingu þess sem er einstakt og heilbrigt við sundlaugamenningu okkar. Og ég endurtek: Okkar sundlaugamenning er sérstök eins og það fínasta af því fina hjá öðrum flottustu menningarþjóðum sem við viljum bera okkur saman við …
Vitaskuld þýðir þetta eftirlitsleysi í sturtuklefunum að hella þarf meira og meira af klóri í laugina og pottana til að drepa ógeðið.
Sorglegt að þurfa að verða vitni að sinnuleysi yfirstjórnar sundlauga Reykjavíkurborgar.
Blessuð sé minning sundlauga okkar …
Þessi færsla Hans Kristjáns hefur vakið líflegar umræður. Meðal annars skrifar Petrína Sæunn Úlfarsdóttir:
„Algjörlega sammála. Við þurfum að fá aftur gæslufólkið sem bentu fólki á að fara úr sundfötum og þvo sér áður en þau færu í laugina. Þetta er í raun þjóðþrifamál.“
Hvaða ógeð þarf að drepa með klóri?
Einar Steingrímsson vill sannanir fyrir hvað sé svona hættulegt við að fólk þvoi sér ekki áður en það fer í laugarnar:
„Hvaða ógeð er þetta sem þarf að drepa með klóri? Er ástæða til að ætla að það fari einhverjar skæðari bakteríur í sundlaugavatnið með fólki sem ekki fer í sturtu en með hinu? Ef svo er, á hverju byggir sú staðhæfing?“
Ámundi Loftsson leggur orð í belg þar sem hann svarar Einari:
Einu sinni sá ég einn fara í sundskýlu yfir grútdrullugar nærbrækur og fara svo beint út í laug án viðkomu í sturtunni Einar. Vonandi eru samt ekki mörg svona dæmi. En sóðaskapurinn er augljós og yfirgengilegur.