Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands segir að íslenska tungumálið eigi undir högg að sækja og ef ekkert verði gert þá muni tungumálið enda í ruslinu með latínunni. Segir hún í samtali við AP-fréttaveituna að tungumál Íslendinga sé hætt komið vegna áhrifa enskunnar, það sé tungumál ferðamanna og raftækja.
Ef ekkert verður að gert lendir íslenskan í ruslinu með latínunni,
sagði Vígdís við AP. Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur segir stöðu tungumálsins í stafræna heiminum áhyggjuefni, þar sé staða íslenskunnar sambærileg lettnesku, litháísku, írsk-gelísku og maltnesku:
Eftir því sem íslenskan verður óþarfari í daglegu lífi, því nær kemst þjóðin því að hætta að tala hana,
sagði Eiríkur. Vitnar AP í tölur menntamálaráðuneytisins sem áætlar að um einn milljarð íslenskra króna þurfi til þróunar á tæknibúnaði til að bjarga íslenskunni í heimi hins stafræna. Segir Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna að ríkisstjórnin sé ekki að verja nógu miklum fjármunum til að bjarga tungumálinu, sagði Svandís við AP að það væri ekki eftir neinu að bíða:
Ef við bíðum, þá gæti það verið of seint.