Jón Kalman Stefánsson rithöfundur, fer mikinn í pistli á Kjarnanum um nýja ríkisstjórn. Pistillinn ber heitið Dekurdrengurinn og Vonarstjarnan, skírskotun í Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur. Jón er efins um að stöðugleiki náist hér eftir sem hingað til með Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn við völd og vísar í verðgildi íslensku krónunnar frá árinu 1920, sem þá var á pari við þá dönsku, en hefur síðan rýrnað um 99.95 prósent. Sígilt. Hann spyr síðan af hverju Bjarni sitji svo hátt í íslenskri pólitík og svarar því til að hann hafi stundið svo mörgu undir stólinn.
Um ákvörðun Katrínar að ganga til liðs við hinn „herðabreiða“ Bjarna og hinn „óbifanlega hornstaur“ Sigurð Inga segir Jón Kalman:
„Þeir urðu að ímynd feðraveldisins, þessa regindjúpa mörg þúsund ára gamla valds sem heldur áfram að gefa karlmönnum forskot. Fólk fékk þess vegna á tilfinninguna að hin lágvaxna, granna og fíngerða Katrín hefði ekkert í herðabreiðan, sjálfsöruggan Bjarna, og að Sigurður Ingi myndi bara flytja hana til eins og hverja aðra Fiskistofu. Skipti engu máli þótt Katrín sé kannski greindari og skarpari en þeir tveir til samans. Enda hefur greindin ein og sér sjaldan komið fólki langt hérlendis. Á Íslandi hefur frekja, tillitsleysi, óbifanlegt sjálfsöryggi löngum verið bestu vopnin í stjórnmálum. Ásamt hæfileikanum að vera fyndinn á kostnað andstæðinga. Það er freki kallinn, freki hreppstjórinn, sem framar öðrum hefur komið í veg fyrir fagmennsku, og þar með stöðugleika, á Íslandi.“
Jóni þykir íslenskt stjórnsýsla einkennast af fúski, spillingu, frændhygli og vanhæfni og nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. Þar á meðal er hugmynd Sigurðar Inga um flutning Fiskistofu, viðbrögð Sigríðar Á. Andersen við úrskurði Hæstaréttar um að hún hafi brotið stjórnsýslulög og loks Vaðlaheiðargöngin, sem Jón segir minnisvarða um „óvandaða stjórnsýslu og falsaðar forsendur.“ Til að leggja áherslu á mál sitt vitnar Jón í orð Péturs heitins Blöndal:
„Menn eru hreinlega að plata, plata með opin augu og halda að enginn fatti það.“
Hér er átt við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis. Jón segir Steingrím hinn dæmigerða íslenska stjórnmálamann sem þekki ekki muninn á „fúski og fagmennsku“ og hafi vafalaust dregið niður fylgi VG í kosningunum, en verið verðlaunaður fyrir og gerður að andliti Alþingis út á við.
Jón segir að íhaldssemi sameini flokkana þrjá í ríkisstjórn, sem sé eins og hjónaband sem dragi það sísta fram í fari hvers annars og saga Íslands gefi ekki mikla von til bjartsýni. Notast Jón við myndlíkingu um myglusvepp í burðarbitum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem Katrín andi nú að sér. Þá talar Jón gegn öllum hugmyndum um einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu og spyr hvort Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi aflið sem þarf til að berjast gegn hagsmunum Sjálfstæðisflokksins í þeim málaflokki.
Jón gerir kröfu um siðbót og gagnsæi í pistli sínum og spyr hvort von sé til þess að Katrín og Co. nái fram breytingum í dansi við hagsmunaflokkana tvo. Samstarfið hafi ekki byrjað vel, með vísan til dómsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem Jón vill meina að sé klárlega óhæfur ráðherra vegna tengsla sinna við Samherja. Einnig nefnir hann til sögunnar Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem tengist máli sem „brotið var ítrekað á réttindum verkamanns,“ og spyr hvort þessi mál öll hafi verið „leið valdaflokkana tveggja að sýna Vinstri grænum fingurinn.“
Í lokin spyr Jón hvort VG hafi svikið kjósendur sína. Eða hvort VG sé í huga Katrínar „Trójuhesturinn“ sem dreginn hefur verið inn fyrir „múra valdsins“ og bíði þess að „varðmenn hagsmunagæslu og misskiptingar sofni á verðinum.
„En mun Steingrímur J. þá kannski slá fast í þingbjölluna og hrópa, vaknið þið varðmenn gamla Íslands, vaknið og vopnist … og undir lok kjörtímabilsins situr Bjarni Benediktsson áfram hæst alla vegna þess að hann hefur stungið svo mörgu undir stólinn? “