
Björn Bjarnason virðist ekki hafa mikið álit á Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Björn fjallar um Loga á heimasíðu sinni um helgina í tengslum við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, þar sem Björn segir Loga hafa dylgjað um tvo ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ræðu sinni og segir hann gjarnan tala líkt og sá sem vammlaus sé. Þar vísar hann til þess þegar Logi tók dóttur sína með í kjörklefann í Alþingiskosningunum, sem er ólöglegt. Lögreglan hefur þó látið málið niður falla, með vísun í lagaákvæði þess efnis að slíkt sé leyfilegt ef málið er talið smávægilegt.
Björn hinsvegar sér ástæðu til að hnýta í Loga vegna þessa:
„Flokksformaður sem sætir kæru og lögreglurannsókn vegna framgöngu sinnar á kjörstað á ekki úr háum söðli að detta. Gagnrýni hans á aðra þingmenn má líkja við virðingu Pírata fyrir stjórnsýslureglum í borgarstjórn Reykjavíkur.“
Þarna vísar Björn til þess þegar að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, fulltrúi Pírata í borgarstjórn, vék af fundi vegna vanhæfis og hagsmundaárekstra í máli umhverfis- og skipulagsráðs um deiluskipulag, en enginn varamaður var boðaður í hennar stað. Þá hafi Þórgnýr Thoroddsen setið fundinn, sem varamaður Pírata, en hann er hvorki aðal- né varamaður í umhverfis- og skipulagsráði og hafi því engar lögmætar forsendur til að sitja fundinn, hvað þá að vera boðaður á hann, samkvæmt sveitastjórnarlögum.
Um þetta segir Björn:
„Allt er þetta til marks um lélega stjórnsýslu sem ekki á að líða. Að Píratar í borgarstjórn skuli standa þannig að málum er undarlegra en ella fyrir þá sök að stofnað var sérstakt ráð til að bæta stjórnsýslu innan borgarkerfisins svo að Halldór Auðar Svansson, fulltrúi Pírata í borgarstjórn, fengist til að styðja meirihlutann að baki Degi B. Eggertssyni. Hefði mátt ætla að eftir milljóna tugina sem varið hefur verið til að hlaða undir Halldór Auðar mundu að minnsta kosti Píratar leggja sig fram um góða stjórnsýsluhætti. Svo bregðast krosstré…“