

Birgir Þórarinsson oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi segir að Miðflokkurinn sé ekki flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir Birgir í viðtali í helgarblaði DV að Sigmundur sé alls enginn einræðisherra og að gömlu valdaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, séu hræddir við Miðflokkinn og stefnu hans.
Hvernig kom það til að þú tókst sæti á lista Miðflokksins?
„Ég þekki Sigmund síðan hann tók við Framsóknarflokknum og við urðum góðir vinir, hann tók til dæmis fyrstu skóflustunguna að kirkjunni þegar hann var forsætisráðherra. Við ferðuðumst saman norður í aðdraganda kosninganna og ég skynjaði það að margir vildu losna við hann úr flokknum. Þegar Sigmundur fékk mótframboð í oddvitasætið í haust þá vissi ég að hann ætti ekki lengur samleið með þessu fólki og ég hvatti hann til að hætta í flokknum,“ segir Birgir.
Er Miðflokkurinn aðeins flokkur Sigmundar Davíðs?
Nei, alls ekki, ég finn það á þingflokksfundum okkar. Hann situr oft bara og hlustar á okkur hin. Hann er alls enginn einræðisherra, hann vill hjálpa og hefur hjálpað okkur sem erum ný á þingi að læra hvernig þetta virkar. Sama með Gunnar Braga og Þorstein, sem hafa setið á þingi áður, þeir eru bara hluti af hópnum.
Í stjórnarmyndunarviðræðunum var ekki leitað til Miðflokksins, Birgir segir að það ríki hræðsla í garð Miðflokksins:
Við slógum Íslandsmet sem nýr flokkur, við teljum okkur vera sigurvegara kosninganna. En það er greinilegt að það eru einhverjir hræddir við okkur, sérstaklega gömlu valdaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Það eru margir ekki sáttir við okkar stefnu, að stokka upp í fjármálakerfinu, það eru öfl í þessu samfélagi sem vilja koma í veg fyrir það. Þetta spilar allt inn í og þess vegna var okkur markvisst haldið fyrir utan. Við erum ekkert sár, það er hollt fyrir nýjan flokk að vera í stjórnarandstöðu og byggja sig upp.