
Stjórn Klakka hefur ákveðið að mæla með því við hluthafa félagsins að fyrirhugaðar kaupaukagreiðslur, sem hluthafafundur samþykkti á mánudag, verði dregnar til baka. Þetta kemur fram í tilkynningu nú undir kvöld. Eyjan birti fyrr í dag frétt þess efnis að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ásamt fleirum, ætluðu sér að mótmæla bónusgreiðslum í hádeginu á morgun.
„Auðvitað fagnar maður því að stjórnendur fyrirtækisins sjá sóma sinn í að draga þetta til baka. Við munum bera saman bækur okkar í kvöld og ákveða næstu skref í framhaldinu,“
sagði Ragnar Þór.
Í tilkynningunni segir frekar:
Ástæðan fyrir ákvörðuninni eru hin hörðu viðbrögð sem kaupaukagreiðslurnar hafa vakið hjá almenningi. Stjórnin hefur hlýtt á þær athugasemdir sem fram hafa komið og og telur að óhjákvæmilegt sé að bregðast við til að skapa traust í garð félagsins. Slíkt traust sé enda grundvallaratriði fyrir alla sem stunda viðskipti á Íslandi.
Stærsta eign Klakka er Lykill, sem hefur verið umsvifamikið í fjármögnun bifreiða- og atvinnutækja hér á landi á síðustu árum. Vill stjórn Klakka með þessari ákvörðun stuðla að því að friður geti ríkt um Lykil og þannig hámarkað virði félagsins í þágu allra hluthafa.