
Boðað hefur verið til mótmæla við skrifstofur Klakka á morgun, vegna áforma stjórnenda fyrirtækisins (áður Exista) um að greiða sér 550 milljónir króna í bónusa, líkt og fjallað hefur verið um í fréttum. Yfirskrift mótmælanna er “Mótmæli gegn sjálftöku auðstéttarinnar.“ Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, er um að ræða algert siðleysi og græðgi sem á endanum sé fjármagnað af striti almennings.
„Okkur er bara miðsboðið á þessari þróun mála og kominn með alveg upp í kok. Þegar við erum komin á þennan stað aftur, að greiða út slíka bónusa hjá fyrirtæki sem er með blóði drifna slóð eftir að hafa gengið afar harkalega fram við innheimtu krafna á fólk og fyrirtæki, þá ofbýður okkur. Slíkir bónusar og kaupréttarsamningar hafa mjög vafasama hvata fyrir okkar samfélag, líkt og við sáum fyrir Hrun. Þetta er saga sem allir þekkja, þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja láta glepjast af skammtímagróðasjónarmiðum ofurlauna, fyrir langtímahagsmuni heillar þjóðar. Þá þróun þarf að stöðva,“
segir Ragnar Þór.
Mótmælin hefjast klukkan 12.30 á morgun, föstudag.