Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er svo gott sem tilbúinn og verður ný ríkisstjórn að líkindum kynnt í lok vikunnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að búist sé við því að formenn flokkanna; Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, muni hittast í dag á fundi og að honum loknum muni formenn flokkanna hitta stjórnarandstöðuna. Síðan verður fundað með þingflokkum.
Að því er Morgunblaðið greinir frá er ekki búið að ljúka við ráðherraskipan og ráðuneytaskipan. Katrín segir að ekki hafi rætt um hvort fjölga eigi ráðuneytum. Þá eru VG og Framsókn sögð deila um menntamálaráðuneytið og eru báðir flokkar sagðir gera tilkall til þess. Sigurður Ingi vildi ekki tjá sig um það við Morgunblaðið.
Fundurinn með stjórnarandstöðunni í dag mun meðal annars snúast um fjárlagagerðina og bendir Sigurður Ingi á að ljúka þurfi því máli.