Fyrsta fundi í stjórnarmyndunarviðræðum lauk í gær og næsti verður haldinn í dag klukkan 13:30. Forystumenn flokkanna þriggja gáfu hinsvegar lítið upp eftir fundinn í gær. Enda þekkt að ef of margt sé sagt á svona viðkvæmum tímapunkti geti það valdið titringi hjá almennum flokksmeðlimum sem geti haft áhrif á viðræðurnar.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þó í gærkvöldi eftir fundinn að það væru ýmis mál sem ætti eftir að klára eins og stjórnarskrármálið og Evrópumálin. Hann ítrekaði það sem hann sagði við Eyjuna.is í gær að það væri margt sagt í fjölmiðlum um viðræðurnar sem engin innistæða væri fyrir. Þar er hann væntanlega að vísa til forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem fullyrt var að í stjórnarsáttmálanum yrði þjóðaratkvæði um ESB, MS verði sett undir samkeppnislög, hlutfall af aflaheimildum boðnar upp og tollar lækkaðir á hvítt kjöt.
Bjarni lagði áherslu á það að þessi ríkisstjórn myndi ekki fara í aðildarviðræður við ESB. Hvort í þau orð Bjarna megi lesa að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið sé útilokuð eða ekki, er annað mál.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði lítið eftir fundinn en þó kom fram að ekki væri komið að því að ræða ráðherraskipan í ríkisstjórninni.
Þótt ekki sé farið að ræða ráðherraskipan má líta til þess hverjir eru fulltrúar Bjartrar framtíðar í viðræðunum, sem eru Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir og fulltrúar Viðreisnar eru Benedikt Jóhannesson og Jóna Sólveig Elínardóttir.
Björt framtíð leggur áherslu á gengismál og stöðugleika
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagðist aðspurður í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi að Björt framtíð legði áherslu á það í þessum viðræðum að ríkisstjórnin myndi sér sterkari stefnu í gengismálum enda styrking krónunnar á síðasta ári orðin það mikil að það sé orðið áhyggjuefni. Hann segir að fulltrúar Bjartrar framtíðar hafi ekki dregið dul á það að þau hafi verið jákvæð á tengingu við aðra gjaldmiðla. En þangað til vill Óttarr að lögð sé áhersla á að halda vel utan um ríkisfjármálin og einbeita sér að stöðugleika.
Óvænt útspil VG og Framsóknar
Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var því haldið fram að forystumenn Framsóknarflokks og Vg hefðu talað saman um hvort flokkar þeirra gætu farið í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni Benediktsson hefur reyndar tekið skýrt fram að hann sé ekki í viðræðum við aðra á meðan þessar stjórnarmyndunarviðræður séu í gangi.
Í samtali við mbl.is í morgun bætir Brynjar Níelsson því við að hann trúi því ekki að menn láti þessháttar tilboð trufla sig. Í frétt mbl.is, er haft eftir Brynjari Níelssyni:
Þetta er nú svolítið seint fram komið hjá þeim. Ég veit ekki betur en VG hafi hafnað okkur í heilar sex vikur eða svo. Ég á ekki von á að Bjarni láti þetta trufla sig. Menn reyna að klára þetta og annað hvort tekst það eða tekst ekki