„Það er stjórn sem hefði breiða skírskotun,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, starfandi utanríkisráðherra og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins, í viðtali á Rás 2 í morgun þegar hún lýsti yfir vilja sínum til að mynduð yrði þriggja flokka stjórn með VG, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Lilja sagði að fyrst þegar Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hafi rætt saman hafi strax á fyrsta degi komið í ljós að þeir ættu ekki samleið í Evrópumálum. Hún telur mikilvægara að leggja áherslu á uppbyggingu innviða frekar en Evrópusambandsumsókn. Enda engin sátt í landinu um slíka umsókn. Hún sagði að ef þessar stjórnarmyndunarviðræður sem nú væru í gangi gengju upp þá væru Íslendingar komnir með hægrisinnuðustu ríkisstjórn sem sögur færu af.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, hefur viðurkennt það opinberlega að hún hafi rætt um mögulega samstarfsfleti við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins. Forsíða Morgunblaðsins í gær gekk út á það að Framsókn og Vg vildu viðræður við Sjálfstæðisflokk. Ýmsir töldu þá frétt úr lausu lofti gripin en þessi orð Lilju benda til að fréttin hafi verið rétt.
Þá talaði hún um að byggja upp stöðugleikasjóð til að verjast hagsveiflum. Hægt væri að nota peninga sem kæmu í kassann af hækkuðum veiðigjöldum og arðgreiðslum orkufyrirtækja.